Heljarstökksvitleysa í RUV

Það var sagt frá því í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi (RUV) að 16 ára gamall upprennandi akstursíþróttamaður hefði unnið sér það til frægðar að fara heljarstökk afturábak á torfæruhjóli. Tekið var fram að búið væri að bíða lengi eftir því að afrek sem þetta yrði unnið.

Sýnd var upptaka af atvikinu. Akstursíþróttamaður sem rætt var við lýsti þessu sem einu af stærstu afrekum íþróttasögu Íslands (jamm, þar fóru ólympíuverðlaunin fyrir lítið!) og kallaði  stórvirki að hanga á hjólinu í heilan hring, en ungi maðurinn sem fór heljarstökkið, sagði frá undirbúningi og athöfninni sjálfri.  Í fréttinni kom líka fram að öðrum ungum manni sem reynt hefði sams konar stökk hefði ekki tekist jafn vel upp og honum fatast flugið og lægi nú á sjúkrahúsi eftir að hafa brotið báða fætur og einnig kom fram að í æfingastökki hefði ungi ofurhuginn, sem vann sér þetta til frægðar, verið nærri því að slasast og sýnd var upptaka frá því.

Ég verð að segja það alveg eins og það er að mér finnst þetta algerlega út úr kortinu að RUV skuli sýna frá slíkum fífldirfskuatvikum, og að mínu mati fíflagangi, sem þessu og inngangurinn hjá Hildu Jönu Gísladóttur, tíðindamanni RUV á Akureyri, var í rauninni sérstakur..."að lengi hefði verið beðið eftir..." því að einhver gerði svona eða með mínum orðum framkvæmdi slíkan fíflaskap - mér er næst að halda að þeir einu sem hafi beðið eftir þessu séu bæklunarlæknar. 

Fréttastjórinn sjálfur kynnti fréttina svo hún hlýtur að vera fréttastofunni þóknanleg. 

Mín skoðun er sú að þetta sé alvöruhlutur að leika sér að eldinum á þennan hátt og mér finnst út í hött að RUV skýri frá þessu á svo jákvæðan hátt - nær hefði að mínu mati verið að rýna ofan í þetta og ræða um hættuna sem af þessu stafar, heimsækja beinbrota piltinn á sjúkrahús o.s.frv. 

Akstursíþróttamenn berjast fyrir því að fá æfinga- og keppnissvæði og segja okkur að þetta sé ekki hættulegra en hvað annað.  Ég hef sjálfur gagnrýnt opinberlega eitt og annað í sambandi við þennan torfæruhjólageira sem einkennist af ýmsu öðru en löghlýðni og skynsemi og ég sé ekki betur en að enn komi á daginn að þeir þurfa aðhald og það verulegt...


Á leiðinni heim frá BNA

Það er komið að lokum dvalar okkar hér í BNA að þessu sinni.  Við reiknum með að yfirgefa þennan sælureit eftir 3-4 klukkutíma og koma okkur út á flugvöll.  Það er um klukkutíma akstur til Orlando Sansted en við viljum heldur vera tímanlega.  Vélin fer um kvöldmatarleytið og á að lenda heima um kl. 06 í fyrramálið.

Þetta ferðalag verður vafalaust lengi í minnum haft hjá okkur.  Það að fá tækifæri til að skoða svona drjúgan hluta af þessu víðfeðma landi hefur verið sérlega ánægjulegt og það sem meira er, við höfum fengið að kynnast hlutum BNA sem heimamenn hér á Flórída hafa sagt okkur að þeir sjálfir þekki ekkert.  Ein frú sem við hittum um daginn og býr hér sagði okkur að hún dauðöfundaði okkur af því hvað við hefðum kynnst mörgu á leiðinni, hún hefði ekki séð nærri svona mikið af landinu sem hún býr í.

Hvert okkar á auðvitað sinn uppáhaldsstað af þeim sem við höfum skoðað og þar talar auðvitað hver fyrir sig. Nashville stendur að mörgu leyti uppúr hjá mér sem og Chicago sem ég hlakka til að heimsækja aftur og skoða betur.  Flórída er fallegur staður en við fórum ekki suðurfyrir St.Petersburg að þessu sinni - suðrið verður að bíða og ekki útilokað að það verði skoðað ríðandi á vélfákum frekar en í bílum í fyllingu tímans. 

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi amerísks sjónvarps en hef skoðað það aðeins í þessari ferð (erfitt að komast hjá því, það er haft í gangi alls staðar, meira að segja á snyrtingum sumra veitingastaða). Það er athyglivert að upplifa hversu lítið er flutt af fréttum frá öðrum heimshlutum en BNA, nema auðvitað það séu stríðsfréttir þar sem hermenn Bush "berjast fyrir friði". 

Auðvitað er þessi þjóð sjálfbjarga með fréttir af eigin atburðum en samt finnst mér að það skorti nokkuð á að fjallað sé um t.d. Evrópu. Ég minnist þess eiginlega ekki að hafa séð neina frétt það heitið getur frá Evrópu nema um daginn þá var minnst á það að Karl Bretaprins hefði fengið sér vistvænan bíl!  Það sem er að gerast í ESB eða í Frakklandi, Ítalíu, Englandi nú eða Íslandi ratar alls ekki í fréttir hér. CNN er auðvitað afbragðs sjónvarpsstöð og sýnir fréttir frá öllum heiminum en mér finnst þar allt vera skýrt með hliðsjón af amerískum veruleika og gjarnan hagsmunum einnig.

Netið gefur manni færi á að fylgjast með því sem er að gerast heima og svara allra nauðsynlegustu tölvupóstum sem og blogga ef andinn kemur yfir mann.  Þannig hef ég oftast geta flett Mogganum meðan á ferðinni hefur staðið og skoðað fréttir á RUV.  Náði því t.d. að horfa á dæmalaust Kastljósviðtal við Árna Johnsen, þingmann um Baugsmál, réttarvörslukerfið og fl.  Það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif þetta viðtal og blaðagrein Árna Johnsen hefur í för með sér. 

En annað vakti reyndar athygli mína í Mogganum í dag en það er fréttaskýring eftir Þorbjörn Þórðarson en hann segir frá því á bls. 6 í blaðinu hvernig sérsveit RLS stöðvar ökutæki.  Ágæt umfjöllun efnislega en ég velti því fyrir mér hvort þeir séu eitthvað að slaka á í notkuninni á íslensku máli þar á bæ.  Í niðurlagi fréttaskýringarinnar segir nefnilega: "...Klesst er á aftari hluta bifreiðar til að tryggja öryggi farþega þeirrar bifreiðar sem sætir eftirför..."  Svona orðalag hefði nú ekki sést þar á bæ fyrir fáum misserum.

En nóg um það - þetta á ekki að verða rafröfl um Moggann - komið að ferðalokum hér, nánar síðar.

Seinna:  Ég auðvitað steingleymdi því að óska þér til ammmmælið kæra tengdadóttir en hér og nú:  Til hamingju.

 


Í sumarhöllinni

Við erum í góðum gír í sumarhöllinni hér í St. Augustine. Það fer ljómandi vel um okkur, húsið er frábært og nóg við að vera. Rólegheitin hér eru mér að skapi.

Dagurinn í gær var nýttur í verslunarleiðangra (þ.e. betri helmingarnir skoðuðu í búðir meðan við drengirnir fórum í ræktina).  Við spókuðum okkur síðan um gamla bæinn og skv. áskorun frá Ester tengdadóttur fórum við í sælgætisbakaríið í Spænsku götunni og tékkuðum á herlegheitunum þar.

Villa og Stebbi komu í heimsókn í gærkvöldi en í dag fóru þau áleiðis til Orlando.  Við nýttum hins vegar daginn í skoðunarferð til Daytona en ákváðum að slaka svo á í kvöld - þetta er sældarlíf.

Á morgun er síðasti heili dagurinn okkar hér og hann verður nýttur vel og vonandi lagast veðrið því hann er heldur þungbúinn hérna þessa stundina. 

Ef veðrið verður gott er ekki útilokað að við skellum okkur á ströndina svona til að ná smálit áður en við förum heim en ef ekki þá er alveg nóg við að vera hér og engum þarf að leiðast dvölin hér!


Upplifun af þjóðhátíðardegi BNA o.fl.

Við fylgdumst með hátíðarhöldum heimamanna á þjóðhátíðardegi þeirra frameftir degi í gær, 4. júlí.  Við röltum um í miðbænum í St. Augustine og víða og nutum veðurblíðunnar í hvívetna.  CIMG1098Fólk var búið að koma fyrir útistólum þar sem ein af lúðrasveitum hersins spilaði og einnig var búið að taka frá á sama hátt sæti á útsýnisstöðum við kastalann/virkið þar sem flugeldasýning var haldin um kvöldið.

Göngutúr yfir brú sem sem liggur yfir í  Anastasia-hlutann var skemmtilegur því við vorum svo heppin að sjá til höfrunga sem þar voru að eltast við fiskitorfu.  Höfrungarnir voru örugglega um 10 talsins og þeir léku listir sínar eiginlega beint undir fótum okkar þar sem við stóðum á brúnni - fín hvalaskoðun það.

Við nenntum nú ekki að bíða til 21:30 eftir flugeldasýningunni heldur horfðum á útsendingu frá einni í Wasington þar sem öflug hjómsveit spilaði 1812 forleik Tchaikovskys í samhljómi við flugeldasýningu og fallstykki.  Það var ansi flott.

Hitinn hefur heldur verið að vaxa frá því við komum hingað, hann liggur í svona 30 stigum um miðjan daginn í forsælu, ekki neitt til að hafa áhyggjur yfir.  Sólböð eru stunduð í algeru hófi en aðeins þó en mest áhersla er lögð á útiveru og afslöppun.  Þessi staður sem við erum komin á er einstaklega fallegur eins og þessi mynd sýnir glögglega en hún var tekin í ljósaskiptum í gærkvöldi í bakgarðinum CIMG1109hjá okkur (les á golfvellinum á bakvið hús þar sem við tókum smá hring í gær)

Í dag skjótumst við aftur til St. Petersburg að sækja þau Gunnar, Þóru, Önnu og Ara. Þetta er allnokkur bíltúr og við ætlum okkur að vera komin til þeirra fyrir kl. 19, sitja með þeim í kvöldverðinum við lok alþjóðamótsins sem þau eru á og svo keyrum við til baka og ættum að vera komin hingað til baka um kl. 1 eftir miðnætti ef allt gengur að óskum.  Í heild eru þetta um 450 mílur fram og tilbaka en allt eftir hraðbrautum nema rétt í gegnum Orlando.

Að loku:  Mér kann að hafa misheyrst en ég heyrði ekki betur en þulurinn á útihátíðinni í gær segði eitthvað á þessa leið (í laufléttri þýðingu):  Í dag er 4. júlí um öll Bandaríkin!


Af alligatorum, froskum og flamengóum.

Okkur leiðist ekki hér í St. Augustine enda engin ástæða til þess.  Það var notalegt að vakna í fuglasöng og tilh. í morgun.  Við byrjuðum daginn með því að rölta hér um hverfið og fundum húsið þar sem Villa systir, Stebbi og strákarnir dvelja CIMG1007og heimsóttum þau.  Þau dvelja í húsi sem er einu herbergi stærra en það sem við erum í og búið er að breyta veröndinni í sundlaug sem þeir drengirnir notuðu vel og rækilega meðan við stöldruðum við.  Við ákváðum að hittast fljótlega og jafnvel grilla saman.

Við röltum um svæðið hér á bakvið íbúðarhverfið en þar er golfvöllurinn og það var látið óátalið að við gengjum um göngustíga vallarins enda vikum við greiðlega fyrir ellismellunum sem hentust þar fram og til baka á litlu hvítu golfbílunum sínum og slógu svo hvítar kúlur út í næstu tjörn. 

Við leituðum að "alligatorum" en sáum ekki þá en hins vegar síðar, þegar einn maraði í einni tjörninni hér í nágrenninu.  Þeir eru sagðir vera frekar ólíklegir til að valda fólki tjóni þar sem þeir hræðast það en ef þarf að forða sér undan þeim er fólki ráðlagt að hlaupa í svigi því þeir eru svifaseinir.  Að sögn kunnugra þá er mikið af þeim hér og reynda er ótrúlega fjölbreytt dýralíf hér í okkar garði.  Hér sjást eðlur sem eru ca 15 sm langar að hámarki, hér eru froskar og fiðrildi sem virðast sum hver vera allt að lófastór og eftir því skrautleg, háleggjaðir fuglar af flamengóætt spígspora um og yfir öllu saman svífur svo örn. 

Þegar myrkrið skall á í gær varð fjandinn laus ef svo má segja því þá upphófu krybburnar og engispretturnar söng sinn í harðri samkeppni við "ribbit" froskanna sem létu sitt ekki eftir liggja.  Það er framundan að reyna að fanga þessi náttúruhljóð digitalt og leyfa öðrum að njóta, e.t.v. hér á blogginu.

Við litum í bæinn í dag og áttum þangað nokkur erindi.  Erindi númer eitt var að finna almennilega líkamsræktarstöð svo ég geti farið með Gunnar vin minn beinustu leið þangað þegar hann kemur hingað á aðfaranótt sunnudagsins.  Gunni minn - taktu nú gleði þína: hér eru a.m.k. 10 líkamsræktarstöðvar og ein þeirra sem er með tvö útibú hér, er opin allan sólarhringinn.  Við erum velkomnir þangað og þeir eiga nóg af járnum sem unun verður að henda fram og til baka.  Þetta kostar svipað og í Debuque sýnist mér!

Erindi nr. 2 var auðvitað að skoða ströndina sem er gríðarlega flott og í um 15 mínútna akstursfjarlægð héðan.  Svo langt sem augað eygir er hvítur sandur og Atlantshafið sýndi á sér sína bestu hlið í CIMG1034dag þegar við vorum þar.  Það var slangur af fólki að sólbaða sig og svamla í sjónum. 

Sandurinn var eftirtektarverður, skjannahvítur en stórskeljóttur á köflum og um miðbik strandarinnar, svona um 50 metra frá sjónum, er breitt belti sem var mjög fast undir fót og auðvelt að skokka á því langi einhvern til þess í þessum hita en nokkrir nýttu sér þetta svæði strandarinnar og hjóluðu um á reiðhjólum sem mér líst nú betur á en skokkið! 

Það ku vera hægt að fara á nokkrum stöðum alveg ofan í flæðarmálið á bílum og er mælt með því að prófa stemminguna við það.  Þá er fólk með allt sitt í bílunum, tjúnar inná uppáhaldsútvarpsstöðina sína og slakar á -hljómar vel.

Erindi nr. 3 var að heimsækja bæinn Augustine, þ.e. það sem skilgreint er sem gamli bærinn.  Þetta er ekki bara "gamli bærinn" heldur er þetta elsti bær í BNA. Þarna settust Spánverjar að á  16. öld og þar hefur verið samfelld byggð síðnan en frumbyggjarnir komu frá Miðjarðarhafinu (Melorku og Grikklandi). Meðal áhugaverðra staða að skoða er virki, sem stendur þar með fallstykkin mót hugsanlegum óvinum á hafi - við geymdum að skoða það uns ferðafélagar okkar koma hingað en tókum myndir af því utanfrá.CIMG1043 

Aðalgatan í gamla bænum ber með sér gamla daga.CIMG1056Þar má sjá hús frá því seint á 18. öld, sum þeirra eru frá sama tíma og Innréttingarnar í Aðalstræti í Reykjavík.  Götumyndin er sérlega heilleg og okkur Stefaníu datt báðum  það sama í hug að það væri áhugavert að sjá svona gamlan bæ hér í BNA - götulífið var fjölbreytt en um leið fallegt og rólegt. Þótt skírskotunin sé ekki alveg auðsæ þá datt okkur báðum í hug götulífið í San Francisco.

Við ákváðum að taka því rólega það sem eftir lifir degi - Stefanía er búin að ná samkomulagi við fjarstýringarnar sem ég átti í slagsmálum við í gær og hún stjórnar nú með öllum þremur og ég á ekki breik að komast í sjónvarpið...

Í staðinn skerpti ég á heita pottinum (já það er heitur pottur við húsið sem hér í heittempraða beltinu í Flórída!!!), skellti bjór í kælinn og fer núna út að rannsaka hvort allt sé eins og það á vera...


Á golfvelli í St. Augustin...

Hún Emily rataði alla leið á Rúrhól, sem er inni á miðjum golfvelli skammt frá bænum St. Augustin á austurströnd Flórida.  Þetta er eitt af þremur húsum sem vinnufélagi Stefaníu hefur umráð yfir hér og að mér skilst hið minnsta af þeim (samt gríðarstórt og flott!)

Við ókum hingað ein, Ari og Anna Gunnars- og Þórubörn, ákváðu í gær að verða eftir með foreldrum sínum í St. Petersburg.  Þau voru þá búin að hitta þar aðra krakka og leist betur á að vera með þeim fremur en að dingla með okkur.  Lái þeim það ekki en vantar þau sárlega hér og nú til að ráða framúr þeirri krossgátu sem það er að kveikja með þremur fjarstýringum á einu guðveithvaðmargratommu sjónvarpi og heimabíói sem hér er. Ég get valið á milli að hafa hljóð og ekki mynd eða öfugt - er að reyna að vinna í hinu núna.

Þetta var nokkuð drjúg leið sem við ókum hingað í dag, um fjórir tímar í akstri, en ferðin gekk vel, að undanskyldri klukkutíma langri umferðarsultu (traffic jam) í Orlando.  Þar var allt steinastopp og tók óratíma að vinna sig í gegnum það.

Við renndum hér í hlað skömmu fyrir kl. 15.  Okkur líst stórvel á húsið - hér er allt til alls og bara vinalegt að sjá til golfbílanna sem bruna hjá hér fyrir utan stofugluggann - ég hélt alltaf að fólk væri í golfi til að hreyfa sig - hér lætur það aka um með sig.  Best maður prófi þetta á morgun.

Ég er farinn í bæinn að kaupa steik og skella á grillið hér í garðstofunni - það beinlínis öskrar á að maður noti það og það vel og rækilega og að lokum - hér er nettenging svo vonandi verður hægt að skjóta inn einu og einu bloggi á milli golfferðanna og alls hins sem hér verður framkvæmt!


Af hverju er ekki Starbucks á Íslandi???

St.Petursburg BNA- samanborið við Pétursborg í Russlandi (auðvitað ekki kenndar við sama "Péturinn!")- æi, það er ekki hægt að bera þær saman, þær eru ósambærilegar að öllu leyti.  Í Rússía var að vísu gaman að koma og fólkið gott en ég man að þegar við vorum þar fyrir tveimur árum þá sást ekki bros á nokkrum manni.   Hér í St. Petersburg USA er hins vegar sumarleyfisparadís - skínandi fallegur bær og mannlífið fjörugt og fjöldi góðra veitingastaða.  Þeir voru kannaðir lítilsháttar núna í kvöld. 

Við röltum út eftir aðalgötunni, Gulf Blvd,  og römbuðum inná veitingastaðinn Snapper, sem er firnagóður fiskiveitingastaður.  CIMG0980Þessi sallarólega eðla varð á vegi okkar og kemur málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við en hún lét sér ekki bregða þótt svangir ferðalangar ættu leið framhjá og smelltu af mynd.

Matseðilinn á veitingastaðnum var einfaldur en ágætlega samansettur. Maturinn var hreint fyrirtak og ég borðaði þann stærsta humar CIMG0983sem ég hef etið um dagana en einnig voru á diskinum rækjur og risahörpuskelfiskur.  Sá bragðaðist aldeilis frábærlega. 

Það sama var að segja um matinn sem Stefanía fékk sér en það var hvítur fiskur sem líktist aðeins lúðu að hennar sögn.  Í forrétt var salat og grillaðar tortillas með hvítlaukshummus og í desert var frábær súkkulaðikaka sem var nú eiginlega meira súkkulaði en kaka...

Verðið á matvörunni og þjónustan á veitingahúsunum í BNA hefur áður verið gert að umtalsefni hér á þessum vettvangi. Verðið á svona veislu fyrir tvo, með slatta af kóki og vínglasi slefaði í kr. 6000 íslenskar sem er bærilega sloppið fyrir tvo....

Það var brilliant ungur piltur sem þjónustaði okkur í kvöld og hann gerði það af stakri snilld. Við orðuðum það við hann að við vildum ættleiða hann en hann var upptekinn hér úti.

Það er eftirtektarvert að sjá ungt fólk við þjónustustörf sem veit nákvæmlega allt um réttina sem eru á matseðlunum.  Það getur svarað örugglega spurningum, kemur með það sem um er beðið og á réttum tíma einnig.  Kurteisin er ávallt í fyrirrúmi sem er auðvitað mikill kostur þegar unnið er við þjónustustörf. Ég veit að þessi þjónustulund er „money-driven" vegna væntinga um hlutfallslega meira þjórfé og það system virðist ganga. 

Þetta hefur verið gegnumgangandi nánast á hverjum einasta stað sem við höfum heimsótt hér í westurdvöl okkar.  Meira að segja á skyndibitastöðum sýna starfsmenn af sér þjónustulund og svo ekki sé talað um uppáhaldsstaðinn okkar hér „Stjörnuhafurinn" eða Starbucks!  Þar fær maður alltaf 100%  þjónustu og brilliant kaffi.

 Af hverju er ekki Starbucks á Íslandi!!!


Flórída í góðu veðri og slæmu - smá ævintýri

Við tókum því rólega í Panama City en dóluðum okkur á miðjum morgni áleiðis til Tallahassee.  Fljótlega eftir að við lögðum af stað "hrundu himnarnir" eins og það heitir hjá þeim Ástríki og Steinríki (og Eiríki) með tilheyrandi eldingum og þrumum.  Einni eldingunni sló reyndar niður skammt frá veginum með hörku blossa og þruman skók hlustirnar en við létum það ekki á okkur fá heldur ókum áfram, en í rólegheitum, áætlaða leið. Þrumuveðrinu linnti fljótlega en það rigndi alla leiðina til höfuðborgar Flórída svo  skoðunarferðir voru slegnar af og við reyndum ekki frekar að ná í tengiliði sem velviljaðir kollegar heima á Íslandi höfðu gefið okkur upp.  Kíktum á safn um sögu Flórída en ókum svo áleiðis austur og svo suður Flórída-skagann með stefnuna á St. Petersburg.  Við settum okkur niður í bænum Krystal River sem stendur á fallegum stað við sjóinn.  Héðan er innan við tveggja klukkustunda akstur til St.Petersburg.Á morgun skilum við þeim Gunnari og Þóru þangað þar sem þau sækja nokkurra daga fund og höldum áfram til St. Augustin, annað hvort samdægurs eða næsta dag, að slaka á í sumarhöll.  Þau Ari og Anna, börn þeirra hjóna koma með okkur.  Þetta var notalegur dagur - við lentum að vanda í litlum ævintýrum og hér skal sagt frá einu.  Hún Emily (konan sem spjallar við okkur úr GPS-tækinu) hafði vísað okkur á steikhús þar sem við hugðumst seðja hungrið um miðjan daginn. Þegar þangað kom þá voru ekki allir vissir um að staðurinn hefði uppá að bjóða það sem þeir voru að leita eftir.  Meðan við rýndum í matseðil sem okkur var færður fór Stefanía í hlutverk Heiðars snyrtis og kíkti á hvíldarherbergið (e.restroom) en ástand slíkra staða er að mati hennar óbrigðull mælikvarði á gæði matsölustaða.  Hvíldarherbergið fékk falleinkunn hjá Stefaníu og samanlagt mat okkar á matseðlinum og á gæðakönnun Stefaníu gerði það að verkum að við þökkuðum pent og sögðumst ætla annað að fá okkur að borða. Einhver nefndi nærliggjandi matsölustað, "Mama.."eitthvað á nafn um leið og við gengum út. Ég settist síðan uppí bílinn og beið eftir hinum en þau töfðust og ég fór að kanna hverju það sætti.  Þá var þar komin matseljan á steikhúsinu og vildi vita hvers vegna við hefðum gengið út - hélt að við hefðum móðgast eitthvað.  Henni var sagt að ekki hefði verið einhugur um að þar fengist sá matur sem uppfyllti þarfir allra í hópnum.  Hún sagði þetta væri tvímælalaust besti staðurinn í plássinu og spurði hvort það væri rétt að við ætluðum á „Mama...eitthvað".  Það væri óráð því maturinn þar stæði matnum hjá henni langt að baki.  Gott ef hún nefndi ekki að bróðir hennar ynni þar!  Þetta var allt saman leyst í bróðerni og við fórum á ítalska staðinn og maturinn þar var hreint frábær.  Nú er það spurningin hvort við höfum misst af enn frábærari mat á steikhúsinu... maður veit aldrei.

PS. Þessi færsla var reyndar skrifuð í gær en vegna óstands á intenettenginu á hótelinu þá náðist hún ekki inn svo það er bara að reyna aftur - ekki hundrað í hættunni þótt þetta rati ekki inn daglega.  Ég sá á mbl að búið er að leggja skýrslu um hættuna af hryðjuverkum fram í ríkisstjórinni og opinber útgáfa hennar er aðgengileg á netinu.  Ég hlóð henni inná tölvuna mína og ætla að lesa hana og leggja svo mat á það hvort við komum yfirhöfuð heim...

Við erum mætt á St. Petursburg Beach, búin að skila Gunna og Þóru á fundarstaðinn þeirra.  Seinni hluta dagsinsCIMG0954 notuðum við til að kanna þessa frægu strönd, horfðum á pelikanana stinga sér eftir æti, óðum í torfum af sílum í flæðarmálinu og nutum lífsins í sólinni sem hér skín.  Þetta er frábær strönd og dvölin hér suðurfrá á 27. breiddargráðu lofar góðu!

Á morgun keyrum við til St. Augustin í sumarhöllina og nú er bara að vona að það haldist þetta ágæt veður sem á bara ljómandi vel við okkur.CIMG0945 Við höfum ekki hugmynd um hvort það er yfirhöfuð internettenging í sumarhöllinni en það verður bar að koma í ljós.  Annars nánar síðar....


Búin að heimsækja 12 fylki í USA - nú fer að verða tímabært að hefja afslöppunina!!!

Við drifum okkur frá Louisana í gær og ókum um Mississippi fylki og Alabama hingað til Flórída þar sem við erum þessa stundina í Panama City.  CIMG0907

Það var alveg einstaklega gaman að aka meðfram Mexíkóflóanum - hér er ægifagurt. 

Við gerðum stans á Penzacola ströndinni og þar gafst manni færi á að dýfa tánum í sjóinn og njóta sólarinnar um stund.  Það var margt um manninn í góða veðrinu þar sem við áttum leið, sennilega margir á leiðinni í helgarferðir eða sumarleyfi. 

Hér í norðanverðu Flórída-fylki eru annars veðurviðvaranir í gangi og skammt vestan við okkur virðast vera haglél, þrumur og eldingar - það er örugglega bara gott fyrir gróðurinn. 

Við höfum séð nokkuð af rigningu í dag og heyrt skruggur í fjarlægð en allt er þetta hið notalegasta líf. 

Við skiptum liði í morgun, Gunni, Þóra og krakkarnir fóru í vatnagarð en við Stefanía ákváðum að sofa frameftir og um miðjan morgun röltum við á veitingastað og fengum okkur fínan hádegis/morgunverð. 

En talandi um veitingastaði - í gær létum við ferðafélagarnir loksins verða að því að fara á veitingahúsið "Red Lobster" CIMG0914sem er sjávarréttaveitingahúsakeðja sem ég held að sé víða hér í BNA  - í það minnsta hef ég séð hana í flestum af þeim 12 fylkjum sem við höfum heimsótt í þessari ferð. 

Red Lobster hafa verið með stanslausar auglýsingar í sjónvarpinu og ég er nú þannig þenkjandi að ég trúi ekki öllu sem ég sé í sjónvarpi, og alls ekki auglýsingum.  Í sjónvarpsauglýsingunum eru sýndar feitar og pattaralegar rækjur, nýgrillaðar og hamingjusamar á hrísgrjónabeði; gríðarmiklir humrar eru tilreiddir ofan í  fólk sem iðar í skinninu af tilhlökkun o.s.frv.

Í gær fórum við semsagt á Red Lobster að tékka á  herlegheitunum.

Það er hægt að lýsa þessari upplifun í sjávarréttum sem okkur beið í örfáum orðum: Hún var stórfengleg.  Maturinn var gersamlega frábær og svo vel útilátinn að jafnvelt hraustustu menn urðu að játa sig sigraða!  Og hvað kosta svona herlegheit hér???  Maturinn sem ég fékk mér, og var svona í meðallagi dýr,  kostaði 17 dollara eða um kr. 1400. 

Það er illt að þurfa að viðurkenna það að besta fiskimáltíðin sem ég hef enn fengið á lífsleiðinni hafi verið etin í USA en ekki á Íslandi nú eða þá í Japan þar sem ég fékk oft góðan fisk en aldrei neitt í líkingu við þetta.  Síðast þegar ég fékk mér vandaða og góða fiskimáltíð á veitingahúsi á Íslandi þá kostaði hún a.m.k. tvöfalt meira ef ekki þrefalt og komst ekki í hálfkvist við þessa í gæðum.  Ég er að velta fyrir mér hvort ég geti narrað ferðafélagana með mér aftur á Red Lobster í kvöld...

Það var ánægjulegt að komast að því áðan að hægt er að horfa á heimsmeistarakeppnina í fótbolta í almennu sjónvarpi hér á hótelinu og nú ætla ég að tékka á því hvort mínir menn, Þjóðverjarnir, hrista ekki af sér drungann og skora hjá Spánverjunum sem núna eru eittnúll yfir.


Við ósa Mississippi

Við fengum okkur smá-bíltúr í dag, nefnilega frá Memphis og til New Orleans í Luisiana.  Það eru eitthvað á milli 3 og 400 mílur.  Þetta gekk hratt og vel fyrir sig, við ókum nánast í hásuður frá 08:30 - 15:30 með örfáum stoppum og ókum inní blúsborgina og beint á hótel í útjaðri hennar.

Við skutluðumst í  bæjarferð - fórum í Franska hverfið í New Orleans og spókuðum okkur á Bourbon-street og víðar um þetta sögufræga hverfi. 

Hverfið er auðvitað ekki franskt í þeim skilningi en það er engu að síður minnisvarði um forna tíma er Fransmenn réðu hér ríkjum en það gerðu einnig Spánverjar og að sjálfsögðu heimamenn og "The English".  Margir vilja meina að blúsinn sé borinn og barnfæddur hér, annað séu bara eftirlíkingar og héðan hafa komið mörg mikilmenni tónlistarsögu 20. aldar og má þar nefna Íslandsvininn Louis Armstrong, trompetleikara og jazzgeggjara og Mahaliu Jackson, söngkonuna stórkostlegu. 

Borgin tók ágætlega á móti okkur, hann hékk þurr en það er býsna rakt og rakinn í andrúmsloftinu er mikill og fötin fljót að límast við mann.

Ég verð nú að segja það alveg hreinskilnislega að ég hef komið á meira heillandi staði á lífsleiðinni og flestir aðrir hér í BNA hafa virkað betur á mig en þessi borg, þ.e. það litla sem ég hef séð af henni.  Hér er ekki um að kenna borginni sjálfri heldur því að meðan við heimsóttum Franska hverfið var ekki laust við að um mann hríslaðist "örlítill vottur af óöryggistilfinningu".  Skemmtanahald var greinilega komið á fullt - hvarvetna var dúndrandi stemming á búllunum með tilheyrandi látum sem bárust út á götu og það var vitavonlaust að ætla að halda upp samræðum við ferðafélagana eða aðra þar sem gengið var um götur og torg, slíkur var hávaðinn - auðvitað er líka búið að vara mann við að hér sé glæpatíðni með því mesta sem gerist hér vestanhafs og það hafði áhrif á upplifunina.

Ég beið stundarkorn fyrir utan verslun meðan ferðafélagar mínir gerðu rannsókn á því sem hún hafði að bjóða. Í húsinu handan götunnar voru plaköt með myndum af íturvöxnum stúlkum og auðséð var að þær unnu ekki við að flaka karfa.

Síðan, eins og hendi væri veifað, komu þrjár nánast allsberar stúlkur gangandi út úr því sama húsi til að fá sér frískt loft.  Þær voru reyndar með einhverjar smá pjötlur utan á sér.  Ein þeirra fór að spjalla í gemsann sinn og kveikti í rettu eins og ekkert væri.  Að sjálfsögðu var myndavélin við höndina en það er víst óheimilt að setja myndir sem kunna að hafa orðið til við þetta tækifæri á bloggið en þið getið að sjálfsögðu hvatt mig til þess engu að síður.

...Við vorum niðri í bæ á föstudagssíðdegi.... en samt...þeir þyrftu að fá Stefán Eiríks og Geir Jón lánaða í nokkra daga til að koma skikki á hlutina sýnist mér - þetta var óþægilega líkt nótt í miðborg Reykjavíkur fannst mér.

Eins og alkunna er þá urðu hér miklar náttúruhamfarir í águst 2005 þegar fellibylurinn Katrín reið yfir og hér urðu flóð (20 fet =6,8 m) sem eirðu fáu. Fjöldi manna átti um sárt að binda og allnokkrir fórust.  Flóðin sitja að sögn heilmikið í heimamönnum en ekki síður sú staðreynd að það liðu í raun margir dagar uns skipulagi var komið á björgunaraðgerðir.  Fyrir þetta gagnrýndu margir Bush-stjórnina eins og flestir muna.

 Byggingarnar sem við skoðuðum lauslega í Franska hverfinu eru margar mjög sérstakar.  Um leið og þær minna CIMG0851sumpart á ákveðna borgarhluta í Amsterdam eða jafnvel í París eru þær hlaðnar skrauti og rimlaverki sem gefur þeim mjög sérstakan svip.

Sérstaða borgarinnar felst m.a í því að hún er byggð á óshólmum við Mississippi og það var stórfenglegt að aka hingað að borginni þar sem vegirnir voru byggðir á súlum í tugi kílómetra.  Það var líka mjög sérstakt að upplifa það að vera búinn að ferðast alla þessa leið í suðurátt og fylgja í megindráttum Mississippi.

Það klikkaði ekki að við sáum krókódíl sem var í vegkantinum skömmu áður en við komum að borginni, reyndar var það lítill alligator að sögn kunnugra - það var ekki talið vera við hæfi að stoppa og klappa litla skinninu enda er mönnum hér almennt annt um puttana á sér. 

Á morgun er nýr dagur og þá ætlum við að skoða þennan hluta BNA nánar. Planið er ekki alveg á hreinu ennþá - það þarf að spila þetta svolítið eftir aðstæðum en það styttist í að við rennum okkur suður á Florida og það verður spennandi að aka meðfram Mexicoflóanum.


Næsta síða »

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband