11.6.2007 | 20:41
Andfélagsleg hegðun.
Fréttir af ofsaakstri bifhjólamanna s.l. nótt, þar sem þeir freistuðu þess að forða sér undan réttmætum afskiptum lögreglu ættu að vekja upp hörð viðbrögð í þjóðfélaginu öllu. Framferði af þessu tagi er algerlega óskiljanlegt og í raun svo langt frá allri skynsemi að þetta þarf í raun ekki að ræða. Okkur hættir mörgum til að líta á framferði sem þetta sem einkamál viðkomandi ökumanna en það er svo langt frá því að svo sé.
Af fréttum að dæma virðist sem mennirnir tveir hafi ætlað að stinga af eins og það er kallað, eftir að hafa verið mældir á ofsaferð á Suðurlandsvegi við Kambabrún. Það endaði síðan með þeim ósköpum sem kunnugt er og skv. frétt á Stöð 2 í kvöld, berst annar mótorhjólamaðurinn fyrir lífi sínu.
Ef þetta væri einsdæmi, þá væri hugsanlega hægt að hrista höfuðið og segja sem svo að það verði ávallt til slíkir ökumenn sem ekki virða neina skynsemi og engin mörk. Því miður er það ekki svo. Hjá ákveðnum hópi ökumanna gildir sú meginregla að virða engar reglur. Þeir fara sínu fram hvað sem raular og tautar og þeir sætta sig ekki við boð og bönn. Því miður aka margir þeirra um á kraftmiklum bifhjólum og valda öðrum og sjálfum sér stórhættu eins og dæmin sanna.
Þann 27. apríl s.l. tóku gildi ný lög (69/2007) sem eru breytingalög við gildandi umferðarlög. Megininntak laganna er hert viðurlög sem aðferð til að sporna við andfélagslegri hegðan í umferðinni auk þess sem þau fjalla um aukið aðhald að yngri ökumönnum o.fl. Í nýrri grein umferðarlaganna segir eftir þessa breytingu:
Á eftir 107. gr. laganna kemur ný grein, 107. gr. a, sem orðast svo:Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.... (undirstrikun EHH).
Þetta eru ný ákvæði og jafnframt ný hugsun í íslenskum umferðarlögum sett með hliðsjón af danskri fyrirmynd. Þau eru sett sérstaklega til að ná til þeirra sem ekki er hægt að treysta fyrir því að eiga samleið með öðrum vegfarendum í umferðinni og veita þeim aukið aðhald. Mér vitanlega hefur ekki enn verið látið á þetta ákvæði reyna en nú er lag og ástæða til að hvetja yfirvöld lögreglumála, þar sem forræði þessa máls verður, að máta þessar lagareglur við þessa stóralvarlegu hegðan.
Ég sendi hlutaðeigandi bifhjólamönnum og aðstandendum þeirra hluttekningarkveðjur.
Um bloggið
Eiríkur Hreinn Helgason
Tenglar
Eðalskríbentar
http://kiddigeir.bloggar.is/blogg/288073
Kiddi cool
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 876
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.