17.6.2007 | 22:31
Við höldum hátíðir!
Hátíðinni Bíladögum er nú lokið á Akureyri. Hún virðist hafa gengið vel fyrir sig, í það minnsta hafði einn forráðamaður hátíðarinnar, sem ég heyrði í í útvarpinu um helgina, þá skoðun að bærinn hefði ekki efni á að missa af svona tekjulind.
Ég hef nokkrum sinnum fengið það hlutskipti að vinna sem lögreglumaður á útihátíðum víða um land, síðast á Akureyri fyrir fáum árum. Það verður að segja þá sögu eins og hún er það að tengja suma þessara atburði á einhvern hátt við hugtakið hátíð er misnotkun á íslensku máli. Að vísu hef ég komið á friðsælar og ánægjulegar útihátíðir en þær eru því miður færri en hinar í mínum reynslubanka.
Einhvers staðar hefur eitthvað "klikkað" í íslensku þjóðarsálinni. Við látum það yfir okkur ganga að stefna fólki, sérstaklega ungu fólki og jafnvel börnum, þúsundum saman á einhvern stað þar sem öll norm og gildi í þjóðfélaginu eru lögð til hliðar.
Lögreglan býr sig undir erfiðar vaktir og fjölmiðlamenn bíða spenntir eftir því hvað þeir fá bitastætt að segja frá. Einn góður kunningi minn sem hefur mikla reynslu af löggæslu á útihátíðum sagði mér að hann hefði m.a.s. sannreynt það að fjölmiðlar fjalla helst um atvik á útihátíðum þar sem eitthvað fer úrskeiðis.
Útihátíðir er ekki eitthvað sem fundið var upp á þessu ári eða á síðustu 10 árum. Þær eru búnar að vera fastur póstur í tilverunni í marga áratugi, t.d. var Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum haldin fyrst 2. ágúst 1874 svo hún er ekki ný af nálinni en vissulega hefur margt breyst. Með vaxandi agaleysi í þjóðfélaginu hefur að mínu mati mjög sigið á ógæfuhliðina við framkvæmd útihátíða og ýmissa skipulagðra sukksamkoma og þótt hátíðirnar sjálfar takist oft ágætlega þá hafa þær á sér skuggahliðar.
Mér er sagt að ástandið á sumum hátíðum hafi batnað verulega og hefur þá sérstaklega verið nefnt að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sé mikið breytt frá því sem áður var. Ég á slæmar minningar sem lögreglumaður er ég vann þar fyrir um 10 árum. Mér ofbauð framkoma fólksins hvert við annað, umgengni þess við áfengi og einnig önnur vímuefni, og viðhorf viðstaddra sem þótti það ekkert tiltökumál þótt björgunarsveitamenn væru á þönum með líkvagninn að hirða upp fólk sem hafði sofnað ölvunarsvefni í dalnum. Líkvagninn var haganlega útbúinn því að undir sjúkrabörur hafði verið sett hjól. Börunum var síðan ekið, eins og hjólbörum, af nokkrum hjálparsveitarmönnum sem reyrðu þá sem svefnhöfginn sveif á ofan á börurnar. Líkunum var síðan ekið í gám sem stóð í örlitlum halla svo ælan læki frá fólkinu sem og aðrir vessar sem menn misstu frá sér. Reyndar voru tveir gámar ef ég man rétt og reynt að setja konur í annan og karla í hinn.
Mér finnst uppákomur eins og t.d. var á Akureyri nú um helgina, meira sorglegir atburðir en gleðilegir, í það minnsta það sem heyra má af fréttaflutningi og því sem Akureyringar sumir sögðu sjálfir frá. Vænsta fólk missir fótanna og allsherjar upplausnarástand ríkir þar sem það þykir ekkert tiltökumál að menn sláist, berji hverjir aðrar og berist nánast á banaspjótum. Almenningsálitið virðist ekki vinna móti þessu nema ef það skyldi vera að þeir sem eru að hagnast á þessum uppákomum, séu sterkari!
Það er örugglega kominn tími á að einhver fræðingur rannsaki þessa hlið íslenskrar menningar og reyni að finna út hvers vegna okkur er svona lagið að safnast saman og verða okkur til skammar. Veltum því fyrir okkur að margar samkomur sem kallast útihátíðir, eru skipulagðar af félögum eða öðrum fjöldahreyfingum, sem hafa félagsstarf eða mannrækt af einhverju tagi á sinni stefnuskrá.
Þessi helgi er aðeins ein af mörgum "útihátíða- og ferðahelgum" og ég heyrði í fréttum að helgin væri sú "fjórða stærsta" þegar kæmi að ferðamennsku á skipulagðar útihátíðir. Þá er bara að vona að menn sleppi með skrekkinn en kannski eru það ekki raunhæfar væntingar.
Um bloggið
Eiríkur Hreinn Helgason
Tenglar
Eðalskríbentar
http://kiddigeir.bloggar.is/blogg/288073
Kiddi cool
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 876
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.