21.6.2007 | 17:17
Skellinöðrur í umferðinni – óvarðir ökumenn í stórhættu.
Nýlega hafa létt bifhjól, sem í daglegu tali ganga oft undir heitinu skellinöðrur, gengið í endurnýjun lífdaga. Þær fást nú á tæplega tvöhundruðþúsundkall í Hagkaup og víðar og virðast vera orðnar vinsælar hjá ungmennum á ný. Fyrir nokkrum árum voru þessi ökutæki orðin nánast fáséð í umferðinni því þegjandi samkomulag virtist vera um það meðal tryggingafélaga og yfirvalda að útrýma þeim, m.a. með svimandi háum tryggingaiðngjöldum.
Um þennan ökutækjaflokk segir í 2. gr. umfl. (skilgreiningagreinin):
Létt bifhjól:Bifhjól sem búið er brunahreyfli sem ekki er yfir 50 rúmsentimetrar að slagrúmmáli eða búið rafhreyfli og er eigi hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.
Full ástæðar er til að velta notkun léttra bifhjóla fyrir sér, hæfni ökumannanna sem þeim stýra og viðbrögðum við því hvernig þessir mótorhjólamenn eru varðir í umferðinni.
Daglega sé ég til ferða ungmenna á skellinöðrunum, jafnt á umferðargötum með þungri og mikilli umferð sem í húsagötum (og því miður einnig talsvert á göngustígum og annars staðar þar sem þau mega ekki vera!) Ökumennirnir eru yfirleitt með hjálma, enda skylda, en um annan hlífðarfatnað er sjaldnast að ræða.
Með fjölgun þessara ökutækja má líta það alvarlegum augum að ekki skuli vera búið að virkja heimildarákvæði umferðarlaganna um hlífðarfatnað bifhjólamanna.
Í breytingu á umferðarlögum, sem tók gildi þann 27. apríl s.l. segir í 5. gr.:
Við 72. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:Ráðherra getur sett reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Í þeim reglum skal m.a. kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til slíks búnaðar.
Rétt er að hvetja samgönguráðherra til að nýta þessa heimild og það fyrr en síðar. Við sem ökum hefðbundnum bifhjólum förum fæst af stað fyrr en við erum búin að klæða okkur í öfluga hlífðargalla, fara í sérstaka skó og þykka hanska og að sjálfsögðu setjum við á okkur hjálm (og sólgleraugun til að fullkomna ímyndina) en á sama tíma horfum við uppá reynslulitla ökumenn á skellinöðrum aka um á gallabuxunum, í strigaskóm og í úlpunni. Það þarf ekki mikinn spámann til að sjá hvað getur gerst við minnstu mistök.
Það gefur auga leið að það þarf að drífa þessa reglur (reglugerð!) um öryggisbúnað bifhjólamanna í gegn til að ná til þessara algerlega óvörðu (oft einnig óreyndu) ökumanna, og það strax. Það er nefnilega hægt að meiða sig heilmikið við það að detta á hjóli (eða lenda í árekstri á því) sem aðeins kemst á 45 km hraða og miklar líkur eru á að þeir sem klæðast ekki hlífðarfatnaði slasist en hægt væri að koma í veg fyrir það með einfaldri reglugerð sem vilji væri til að framfylgja.
Allir í galla!
Um bloggið
Eiríkur Hreinn Helgason
Tenglar
Eðalskríbentar
http://kiddigeir.bloggar.is/blogg/288073
Kiddi cool
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 876
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.