Samfélagsþjónusta – klókt úrræði eða hvað?

Ég hef ekki náð að liggja yfir fjölmiðlunum undanfarna daga vegna þeirra anna sem fylgja því að vera í sumarfríi en sá þó í Kastljósi í RUV s.l. þriðjudagskvöld áhugaverða umfjöllun um refsiúrræði sem kallast samfélagsþjónusta.  Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns samfélagsþjónustu hjá Fangelsismálastofnun, sem rætt var við í þættinum,  þá stendur þeim, sem fengið hafa 6 mánaða eða styttri óskilorðsbundinn fangelsisdóm, eða þeim, sem að undangengnu árangurslausu fjárnámi, og afplána eiga vararefsingu í stað sektar, til boða að sækja um samfélagsþjónustu í stað þess að afplána í fangelsi.

 

Ég hef ekki velt samfélagsþjónustu mikið fyrir mér síðan umræða varð um hana hér á árum áður er hún varð, að erlendri fyrirmynd, úrræði til afplánunar.  Ég hlýddi fyrir nokkrum árum á sérfræðing fangelsismálastofnunar, Erlend Baldursson, sálfræðing, segja það í fyrirlestri að í stað þess að setja fólk inn í fangelsi þá væri sumum gert kleift að halda áfram að vera þátttakendur í þjóðfélaginu en “frítíminn væri tekinn af því í staðinn”.  Hugmyndafræðin virðist áhugaverð enda lítið unnið með því að loka menn inni í stórum stíl, sjaldnast mannbætandi skilst manni og auk þess kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið.

 

Ég hef heyrt mér fróðari menn gagnrýna það að ákvörðunum dómara um refsingu sé breytt með því að stjórnsýslustofnun, þ.e. hluti af framkvæmdarvaldinu, breyti ákvörðun dómara um viðurlög og setji menn til samfélagsþjónustu í stað þess að láta þá afplána dóm sem þeir hafa hlotið.  Vissulega gilda stífar reglur um samfélagsþjónustu í lögunum um afplánun refsingar nr. 49/2005 en eftir að hafa heyrt umfjöllunina sem ég minntist á hér að framan velti ég fyrir mér hvort “rétt sé gefið” í þessum efnum.

 

Viðmælandi sem Kastljósið ræddi við þurfti að afplána 30 daga vararefsingu vegna sektar sem hann gat ekki greitt útaf ölvunarakstri.  Hann sótti um að fá að inna af hendi samfélagsþjónustu í staðinn.   Fyrirfram hefði ég talið að dómþoli yrði að skila viðlíka tíma í samfélagsþjónustuna og fangelsisrefsingin hljóðaði uppá, þ.e. svipaðri tímalengd, en það er greinilega ekki svo.  Sá sem fær að sinna samfélagsþjónustu í stað þess að sitja í fangelsi “sleppur” með að vinna 40 klukkustundir, ígildi einnar vinnuviku, við þjóðþrifaverk í staðinn fyrir mánuð sem dæmdur er í fangelsi, eins og lýst var í Kastljósinu.

 

Persónulega finnst mér þetta ekki sanngjarnt.  Mér þætti eðlilegt að sá, sem á kost á því að sinna samfélagsþjónustu, láti jafn mikið af tíma sínum í té og sæti hanni í fangelsi – að sjálfsögðu að teknu tilliti til möguleika á reynslulausn.  Mín réttlætiskennd segir mér að þetta sé ekki fullkomlega sanngjarnt kerfi. 

 

Tökum dæmi.  Einstaklingur er dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð kr. 150.000 vegna hættubrots, t.d. ölvunaraksturs eða þ.u.l.  Hann vill ekki greiða sektina eða getur ekki og er eignarlaus og ekki er hægt að gera fjárnám hjá honum.  Viðkomandi virðist samkvæmt þessu geta sótt um samfélagsþjónustu. 

 

Fangelsismálastofnun getur því, skv. ákvæðum í lögum um afplánun refsingar, ákveðið að viðkomandi sinni samfélagsþjónustu í eina vinnuviku (40 klst.)  í stað 30 daganna  (720 klst.) sem hann var dæmdur til að afplána í refsingarskyni!  Þarna hefði ég talið að lögin ættu að vera meira íþyngjandi fyrir þann sem brýtur af sér. 

 

Nú skal tekið fram að ég hef ekki kynnt mér þetta alveg í þaula en skv. mínum skilningi þá er þetta ekki mikil refsing sem viðkomandi hlýtur.  Ég tel fullkomlega koma til greina að sá sem á að afplána, en á kost á þessu úrræði, skili sama tíma til samfélagsins og hann hefði ella þurft að afplána – annað er einfaldlega ekki sanngjarnt.  Svo er það sérstakt umhugsunarefni að það skuli ekki vera dómstólar sem dæma til samfélagsþjónustu,  heldur stofnun úti í bæ, með fullri virðinu fyrir henni. 

 

Ef það vantar verkefni fyrir samfélagsþjónana þá eru víða sóknarfæri – er ekki heilbrigðiskerfið alveg að kikna undan álagi?  Kannski gætu einhverjir samfélagsþjónar lagst á árarnar þar með líkum hætti og ég veit að reynt hefur verið í Danmörku nýlega með góðum árangri og t.d. haft ofan af fyrir gamla fólkinu sem víða er einmanna og afskipt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Ósammála þér að þessu sinni.  Í raun má segja að ákveðin ósanngirni felist í sektakerfinu.  Við getum tekið atvinnulausan, eignalausan dreng sem dæmi A og forstjóra Baugs (eða einhvers annars sambærilegs félags) sem B.  Ef báðir aka drukknir, með nákvæmlega sama áfengismagn í blóðinu fá þeir t.d. 12 mánaða ökuleyfissviptingu og 150.000 kr. sekt.  A getur ekki greitt sektina og fer í fangelsi í 10 daga.  B greiðir sektina án þess að það breyti nokkru fyrir hann fjárhagslega því að hann hefur 1.500.000 kr. í laun á mánuði og á auk þess eignir sem eru milljarða virði.  A verður auk þessa að ferðast gangandi eða með stræti (ef hann býr í þéttbýli) í 12 mánuði.  B getur ráðið sér starfsmann til að aka sér milli staða þ.e. ef hann flýgur ekki í einkaþotu og þyrlu.  Ferðafrelsi hans skerðist ekki.

Í framangreindu dæmi fær A því verulega þyngri refsingu en B í raun þótt þeir hafi framið samskonar brot.  Efnahagslegar kringumstæður gera þetta að verkum.  Fyrir tekjulitla og eignalausa þýðir fjársekt einfaldlega fangelsisdóm.  Fyrir tekjuháa eignamenn skiptir hún nákvæmlega engu máli.   Vararefsingin jafnar þennan leik.  Hún leiðir einnig til þess að tiltekinn hópur brotamanna, sem ekki endilega er best að hafa í fangelsum innan um t.d. harðnaða síbrotamenn eða alvöru glæpamenn, geta tekið út refsingu, haldið áfram að vera þátttakendur í samfélaginu en þjónustað það í leiðinni.  Það þykir mér sýnu farsælla fyrir alla, heldur en að halda þeim uppi, liggjandi inni í fangaklefa, með tilheyrandi geðlækna, tannlækna, sálfræðinga og gæslukostnaði.

Ég tel að danska kerfið hafi ákveðna galla.  Þarna virðist vera á ferðinni afbragðslausn en í raun er hún það ekki.  Um er að ræða störf sem eru svo lágt launuð að ekki fæst fólk til að vinna þau.  Til þess að þurfa ekki að hækka launin, leysa menn þetta með því að láta sakfellda menn þjónusta gamla fólkið í samfélagsþjónustu.  Þannig er samfélagsþjónustan í raun að færa ókeypis eða ódýrara vinnuafl inn í greinina til að keppa við það starfsfólk sem fyrir er.  En ef þetta er góð leið þá sting ég upp á því að nota hana víðar.  T.d. mætti hugsa sér að taka dæmda menn og konur í sumarafleysingar í lögreglunni, sem samfélagsþjónustu, í stað þess að ráða í þau störf.  Eða hvað???

Hreiðar Eiríksson, 3.7.2007 kl. 17:45

2 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Leiðrétting:  Það átti að vera "samfélagsþjónustan jafnar þennan leik.." en ekki "vararefsingin jafnar þennan leik" í innlegginu hér að framan.

Hreiðar Eiríksson, 3.7.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband