Við ósa Mississippi

Við fengum okkur smá-bíltúr í dag, nefnilega frá Memphis og til New Orleans í Luisiana.  Það eru eitthvað á milli 3 og 400 mílur.  Þetta gekk hratt og vel fyrir sig, við ókum nánast í hásuður frá 08:30 - 15:30 með örfáum stoppum og ókum inní blúsborgina og beint á hótel í útjaðri hennar.

Við skutluðumst í  bæjarferð - fórum í Franska hverfið í New Orleans og spókuðum okkur á Bourbon-street og víðar um þetta sögufræga hverfi. 

Hverfið er auðvitað ekki franskt í þeim skilningi en það er engu að síður minnisvarði um forna tíma er Fransmenn réðu hér ríkjum en það gerðu einnig Spánverjar og að sjálfsögðu heimamenn og "The English".  Margir vilja meina að blúsinn sé borinn og barnfæddur hér, annað séu bara eftirlíkingar og héðan hafa komið mörg mikilmenni tónlistarsögu 20. aldar og má þar nefna Íslandsvininn Louis Armstrong, trompetleikara og jazzgeggjara og Mahaliu Jackson, söngkonuna stórkostlegu. 

Borgin tók ágætlega á móti okkur, hann hékk þurr en það er býsna rakt og rakinn í andrúmsloftinu er mikill og fötin fljót að límast við mann.

Ég verð nú að segja það alveg hreinskilnislega að ég hef komið á meira heillandi staði á lífsleiðinni og flestir aðrir hér í BNA hafa virkað betur á mig en þessi borg, þ.e. það litla sem ég hef séð af henni.  Hér er ekki um að kenna borginni sjálfri heldur því að meðan við heimsóttum Franska hverfið var ekki laust við að um mann hríslaðist "örlítill vottur af óöryggistilfinningu".  Skemmtanahald var greinilega komið á fullt - hvarvetna var dúndrandi stemming á búllunum með tilheyrandi látum sem bárust út á götu og það var vitavonlaust að ætla að halda upp samræðum við ferðafélagana eða aðra þar sem gengið var um götur og torg, slíkur var hávaðinn - auðvitað er líka búið að vara mann við að hér sé glæpatíðni með því mesta sem gerist hér vestanhafs og það hafði áhrif á upplifunina.

Ég beið stundarkorn fyrir utan verslun meðan ferðafélagar mínir gerðu rannsókn á því sem hún hafði að bjóða. Í húsinu handan götunnar voru plaköt með myndum af íturvöxnum stúlkum og auðséð var að þær unnu ekki við að flaka karfa.

Síðan, eins og hendi væri veifað, komu þrjár nánast allsberar stúlkur gangandi út úr því sama húsi til að fá sér frískt loft.  Þær voru reyndar með einhverjar smá pjötlur utan á sér.  Ein þeirra fór að spjalla í gemsann sinn og kveikti í rettu eins og ekkert væri.  Að sjálfsögðu var myndavélin við höndina en það er víst óheimilt að setja myndir sem kunna að hafa orðið til við þetta tækifæri á bloggið en þið getið að sjálfsögðu hvatt mig til þess engu að síður.

...Við vorum niðri í bæ á föstudagssíðdegi.... en samt...þeir þyrftu að fá Stefán Eiríks og Geir Jón lánaða í nokkra daga til að koma skikki á hlutina sýnist mér - þetta var óþægilega líkt nótt í miðborg Reykjavíkur fannst mér.

Eins og alkunna er þá urðu hér miklar náttúruhamfarir í águst 2005 þegar fellibylurinn Katrín reið yfir og hér urðu flóð (20 fet =6,8 m) sem eirðu fáu. Fjöldi manna átti um sárt að binda og allnokkrir fórust.  Flóðin sitja að sögn heilmikið í heimamönnum en ekki síður sú staðreynd að það liðu í raun margir dagar uns skipulagi var komið á björgunaraðgerðir.  Fyrir þetta gagnrýndu margir Bush-stjórnina eins og flestir muna.

 Byggingarnar sem við skoðuðum lauslega í Franska hverfinu eru margar mjög sérstakar.  Um leið og þær minna CIMG0851sumpart á ákveðna borgarhluta í Amsterdam eða jafnvel í París eru þær hlaðnar skrauti og rimlaverki sem gefur þeim mjög sérstakan svip.

Sérstaða borgarinnar felst m.a í því að hún er byggð á óshólmum við Mississippi og það var stórfenglegt að aka hingað að borginni þar sem vegirnir voru byggðir á súlum í tugi kílómetra.  Það var líka mjög sérstakt að upplifa það að vera búinn að ferðast alla þessa leið í suðurátt og fylgja í megindráttum Mississippi.

Það klikkaði ekki að við sáum krókódíl sem var í vegkantinum skömmu áður en við komum að borginni, reyndar var það lítill alligator að sögn kunnugra - það var ekki talið vera við hæfi að stoppa og klappa litla skinninu enda er mönnum hér almennt annt um puttana á sér. 

Á morgun er nýr dagur og þá ætlum við að skoða þennan hluta BNA nánar. Planið er ekki alveg á hreinu ennþá - það þarf að spila þetta svolítið eftir aðstæðum en það styttist í að við rennum okkur suður á Florida og það verður spennandi að aka meðfram Mexicoflóanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband