Hvernig maður losnar við rútubíla úr íbúðarhverfum!

Mig langar að deila með ykkur stuttri reynslusögu af "viðskiptum"við rútufyrirtæki.  Dag einn fyrir nokkrum vikum tók ég eftir (það fór reyndar ekki framhjá neinum!!!) að stórum rútubíl var lagt í húsagötu rétt við heimili mitt. Rútan var kyrfilega merkt tilteknu rútufyrirtæki.  Rútubílar eru breiðari og fyrirferðarmeiri en flestir aðrir bílar og af þessum bíl var ekki bæjarprýði og hann olli hættu að mínu mati (þar að auki eru bannreglur sem gilda um stöður svona stórra bíla í Kópavogi). 

Ég veit að kollegarnir í löggunni hafa ýmsum öðrum hnöppum að hneppa en vera að eltast við svona smámál svo ég ákvað að fara styttri leiðina og í stað þess að hringja í lögguna þá hringdi ég í eiganda rútufyrirtækisins og bað hann að beina því til starfsmanns síns að leggja ekki hér í íbúðarhverfinu.  Í mjög stuttu máli þá sagði sá ágæti maður mér að vera ekki að skipta mér að því sem mér kæmi ekki við - ég gæti hringt í lögguna ef ég væri ekki sáttur við að bílnum væri lagt þarna.  Mátti skynja það á svörum hans að hann teldi að lögreglan myndi ekki skipta sér af svona.  Mér fannst ekki mikið til svars eigandans koma.  Hann vildi ekki hlýða á rök um að þetta væri hættulegt og þar að auki bannað og lauk samtalinu okkar án þess að við næðum sameiginlegri niðurstöðu.

Ég náði tali af bílstjóra rútunnar skömmu síðar og spurði hann hvort hann gæti hugsað sér að leggja rútunni einhvers staðar annars staðar.  Maðurinn er ekki íslenskur en talaði ensku og sagði mér að þar sem það væri ekki merkt að bannað væri að leggja rútu legði hann henni þarna uns annað yrði ákveðið.

Nú voru góð ráð dýr.  Ljóst var að vægustu úrræðin dugðu ekki svo ég fór í næsta stig aðgerða.  Ég tók ljósmyndir af rútunni þar sem henni var ólöglega lagt, sendi ljósmyndirnar til lögreglunnar í tölvupósti ásamt kærubréfi og sendi cc til rútufyrirtækisins. 

Er skemmst frá því að segja að innan klukkustundar frá því ég sendi skeytið þá var rekstrarstjóri rútufyrirtækisins búinn að hafa samband við mig, bað mig afsökunar og kvaðst vera búinn að ræða við bílstjórann og segja honum að leggja rútunni ekki í íbúðarhverfum bæjarins.  Hann tók reyndar fram að ég hefði betur talað við sig strax frekar en eigandann.  Bað hann mig að láta sig vita ef þetta kæmi fyrir aftur svo hann gæti brugðist við. 

Síðan hefur rútan ekki sést en rétt er að taka það fram að lögreglan brást ágætlega við ábendingum mínum og hefur farið um hverfið með aðvörunarmiða og sett á bíla sem hefur verið ólöglega lagt.

 


Blogg eru til alls fyrst!

Um daginn velti ég fyrir mér hreinlætinu í Salarlaug í Kópavogi og kvartaði eiginlega í bloggfærslu. Ég hafði orð á því að fyrirmæli til laugargesta um að þrífa sig áður en þeir fara "oní" væru af skornum skammti og nánast ósýnileg í þeirri ágætu Sundlaug

Ekki veiti ég hvort það var þessu rafrausi mínu um að þakka eða því að menn kveiktu allt í einu á perunni en nú í nýliðinni viku var bætt úr þessum merkingarskorti og sett upp greinileg fyrirmæli á fjórum tungumálum (skrýtið, ekkert þeirra er Austur-Evrópumál) og með skýringarmyndum að auki.

Semsagt - Blogg eru til alls fyrst!!!


Ég er ekki rasisti en....

Ég er fastagestur í Salarlaug í Kópavog.  Þar sækist ég eftir því að komast í ró og næði í heita pottinn, gufuna og jafnvel að synda spottakorn.  Salarlaugin er skínandi vel hannað mannvirki, skemmtilega byggð og notendavæn. 

Í hvert einasta skipti sem ég sæki laugina heim læðist að mér sú hugsun að við þurfum að huga betur að því að kynna það sem tilheyrir okkar kúltúr eða menningu, fyrir þeim útlendingum sem koma hingað að vinna eða staldra hér við um lengri eða skemmri tíma.  Við höfum okkar sérkenni og þeir hafa sín, að sjálfsögðu mismunandi eftir því frá hvaða landi þeir koma.

Því segi ég þetta að ég á í mikilli baráttu við sjálfan mig að detta ekki þann pytt að tjá mig við suma af þessum gestum okkar þegar ég sé þá umgangast sundlaugina okkar, og það sem henni fylgir, af ónógri tillitssemi við okkur hin sem hana notum. 

Meðal þess sem mig langar að ræða við þetta fólk er að benda því á að það eigi að þvo sér rækilega áður en það kemur ofaní en ekki koma skraufaþurrt og óþvegið og skella sér ofaní vatnið, jafnvel þótt það kunni að vera alsiða í þeirra heimalandi.  Ég myndi vilja ræða við sumar dömurnar (sem eru á öllum aldri) að það sé ekki skylda að mæta með uppstrílað hár, málað andlit og ilmvatnsský í heita pottinn - það nægi að ilma af hreinlæti.  Ég myndi líka vilja ræða við manninn sem ég sat við hliðina á í eimbaðinu og sem ræskti sig "ofan í kok" og hrækti svo bakvið bekkinn sem hann sat á 

En að þessu öllu saman vandlega yfirveguðu þá myndi ég helst vilja ræða við forstöðumanninn í sundlauginni, og geri það kannski einhvern daginn, því sökin á umgengninni sem ég hef svo margoft orðið vitni að liggur ekki einvörðungu hjá fólkinu sem sækir laugina heldur einnig hjá þeim sem eru á launum hjá okkur útsvarsgreiðendum í Kópavogi og vinna ekki vinnuna sína.  Ég fór nefnilega í rannsóknarvinnu um daginn og gerði könnun á því hvernig skilaboðum er komið á framfæri við þá sem nota þjónustuna.

Niðurstaðan var þessi.  Í karlaklefanum er hvergi að sjá skilaboð um að gestir skuli baða sig hátt og lágt fyrr en komið er inní sturtuklefann sem er stúkaður af og menn fara að sjálfsögðu ekki inní ef þeir ætla ekki að baða sig.  Þar eru skilaboðin sett fram með mjög hógværum hætti og að sjálfsögðu bara á íslensku.  Í útiklefanum eru engar upplýsingar um að fólk skuli baða sig áður en það "fer oní" .  Ég hef spurst fyrir um merkingar í kvennaklefanum (því miður má ég ekki fara þar inn) og fengið þær upplýsingar að merkingar um hreinlæti séu mjög hófstilltar. Reglur sundlaugarinnar hanga að sönnu uppi gestum til eftirbreytni en þær eru að sjálfsögðu einvörðungu á íslensku og með svona ca. 14 punkta letri á lítt áberandi stöðum. 

Hvað er til ráða?  Við Íslendingar erum vanir því að baða okkur rækilega áður en við förum ofaní sundlaugina.  Okkur er þetta innprentað frá blautu barnsbeini ef svo má segja.  Þetta er okkar kúltúr og hann ber öðrum sem hér staldra við um lengri eða skemmri tíma að virða. 

Lausnin felst í því að mínu mati að setja upp skýrar áletranir í máli og myndum á áberandi staði (eins og gert er í flestum sundlaugum) og bæta við nokkrum völdum tungumálum í samræmi við þann mikla fjölda Austurevrópubúa sem sækja laugina heim.  Ég hef nefnilega sannfrétt að vinnuveitendur heilu vinnuflokkanna sem vinna við húsbyggingar í efri byggðum  Kópavogs bendi starfsmönnum sínum á að því miður sé ekki boðið uppá brúsubað í gámunum sem þeir fá til búsetu en það geti verið klókt fyrir þá að skjótast í Salarlaugina!

Vil að endingu taka það fram að ég er ekki rasisti eins og þeir vita sem mig þekkja!


Sveppatínslutími fíklanna er runninn upp

Þessa dagana eru þeir áberandi sem stunda tínslu á ofskynjunarsveppum sem vaxa villtir víða um land. Þeir ganga um nokkrir saman m.a. á gjöfulum sveppaökrum höfuðborgarsvæðisins, og tína í skjóður sínar og fötur sveppi sem verða fæstir matreiddir heldur þurrkaðir og nýttir til að komast í vímu. 

Í sveppunum eru ólögleg ávana- og fíkniefni  (pilocypin) sem fíklarnir ná sér í með þessum einfalda hætti og nú meðan sveppatínslutíminn stendur sem hæst leggur fólkið nótt við dag að tína og "bjarga verðmætum" eins og aðrir gera sem þurfa að lifa á landsins gæðum.  Sveppirnir eru síðan þurrkaðir og meðhöndlaðir til að þeir henti til neyslu og vímugjafar.

Lögreglan hefur margoft haldlagt sveppi hjá fíkniefnaneytendum en eðli máls samkvæmt þá er ekki hægt að ætlast til lögreglan standi á öllum grænum svæðum borgarinnar, hvað þá annars staðar á landinu, á "uppskerutímanum" og fylgist með eiturpésunum sem tína, gjarnan tveir eða þrír saman, þannig að einn stendur á verði meðan hinir tína.

Er eitthvað til ráða eða er þetta kannski bara allt í lagi?  Ég man ekki eftir mikilli umræðu um þetta í fjölmiðlum og kannski er þetta eitt af þeim málefnum sem fólk hugleiðir ekki svo mikið.

Það er allt í lagi fyrir ykkur gott fólk að stugga í það minnsta við krökkum og unglingum sem sýna skyndilega mikinn áhuga á sveppum í túnfætinum hjá ykkur - sjálfsagt er einnig að gera yfirvöldum viðvart en í guðanabænum ekki siga lögreglunni á okkur sem förum í Heiðmörkina og Esjurætur að tína ætisveppi - það er allt önnur Ella eins og sagt er...


Molbúaháttur við merkingu vinnusvæða enn við lýði!

Núna í morgunsárið átti ég leið suður á Keflavíkurflugvöll.  Akstursaðstæður voru daprar, myrkur og rigning og ég komst ekki hjá því að veita athygli hversu illa þeim sem þar stýra verki í vegaframkvæmdum gengur að koma skilaboðum til okkar vegfarenda. Umferð er beint á milli vegarkaflanna sitt á hvað, og víða lokað með stórum steinblokkum sem eru misvel merktar. Ljósatýrur loga hingað og þangað en allt er þetta í hálfgerðu skötulíki, ekki síst ef þetta er borið saman við það sem menn eiga að venjast hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við í flestum efnum. 

Ég fann það á sjálfum mér, og sá það á öðrum ökumönnum einnig, að skilaboð sem sett voru fram með vegmerkingum, þar með talið blikkljósum, voru ákaflega takmörkuð, í það minnsta við þær aðstæður sem ríktu í morgun. 

Það kom því eiginlega ekki á óvart að skammt innan við Vogaafleggjara hafði orðið umferðarslys þar sem a.m.k. tveir bílar komu við sögu og var annar þeirra með framendann uppá steinblokk sem lokaði öðrum vegarhelmingnum.  Virtist sem ökumaður hefði ekið uppá steinblokkina og skammt þar frá var annar bíll utan vegar og virtist sem hann ætti einnig aðild að þessu slysi.

Ég veit ekki um hversu alvarleg slys urðu á fólki í þessu atviki en lögreglumaður á vettvangi taldi jafnvel að betur hefði farið en á horfðist í fyrstu.

Þetta leiðir hugann að því hvort við ætlum virkilega að halda áfram að vera á þessu "Molbúastigi" í flestu sem varðar vegmerkingar og merkingum þar sem unnið er við framkvæmdir á vegi.  Fjölmörg dæmi eru um að lélegar og ófullnægjandi merkingar vinnusvæða hafi ógnað umferðarörygginu og svo virðist sem það viðhorf ríki enn hjá verktökum og eftirlitsaðilum með vegaframkvæmdum, þar með opinberum eftirlitsaðilum, að þetta ástand sé eins konar náttúrulögmál.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur látið þessi mál til sín taka.  Í skýrslu nefndarinnar um banaslys árið 2006 segir um slys sem var í nóvember það ár á Reykjanesbraut í Molduhrauni (bls. 62): ..."Rannsóknarnefnd umferðarslysa telur nauðsynlegt að sett verði í reglugerð, með stoð í umferðalögum, hvernig merkingu vinnusvæða skal háttað.  Til eru viðmiðunarreglur, gefnar út af Vegagerðinni, lögreglu og Reykjavíkurborg árið 2004, en RNU telur m.a. að reglur um merkingu vinnusvæða eigi að vera viðauki við reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995. Lögreglan þarf að geta beitt viðurlögum ef verktakar brjóta ítrekað af sér..."

Í slysi því sem RNU fjallaði þarna um var bent á fjölda atriða sem betur máttu fara í vegmerkingum. Í ljósi þeirrar staðreyndar að í slysinu fórst einn maður og að skortur á vegmerkingum var meðvirkandi í því að mati nefndarinnar, er furðulegt að yfirvöld skuli ekki hafa brugðist við og gert bragarbót á tiltölulega einföldum hlut. 

Fyrr eða síðar komumst við á stig siðmenntaðra þjóða í þessum efnum og vonandi þarf ekki að fórna fleiri mannslífum til að vitundarvakning verði.  Mér finnst kominn tími til að vegfarendur láti í sér heyra og krefjist þess að veghaldarar og aðrir láti verkin tala...


Fótboltinn í fyrirrúmi

Þann 31. janúar s.l. var sjónvarpað frá afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna.  Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að taka þátt í þeirri athöfn og ásamt söngvinum mínum í Voces Thules.  Við vorum tilnefndir til verðlauna (sem við fengum) og auk þess á dagskránni með stutt tónlistaratriði sem auðvitað var eins og annað á dagskránni þrautæft og tímamælt.

Þegar við vorum að undirbúa okkur undir að ganga inná sviðið til að performera fengum við tilkynningu frá skipuleggjendum -... ekki tími fyrir atriðið ykkar, sjónvarpið vill ekki að dagskráin fari fram yfir 10-fréttir.

Við urðum auðvitað ekki ánægðir með þetta en hins vegar ánægðir með að hafa fengið verðlaun og svosem lítið hægt að kvarta þarna á sviðsvængnum.

Þetta rifjast upp fyrir mér núna þegar ég sit fyrir framan sjónvarpið og ætlaði að horfa á 10 fréttirnar af því ég missti af kvöldfréttunum.  Enn er verið að sýna fótboltaleik sem greinilega eru ekki gerðar athugasemdir við að fari framyfir 10 fréttirnar. 

Einhver myndi kalla þetta mismunun en fótboltinn hefur svo sem alltaf verið í fyrirrúmi þar á bæ, okkur hinum  til lítillar ánægju...


Kannski svolítið sterk orð Ragnheiður Davíðsdóttir

Í fréttum á Stöð 2 í kvöld var fjallað um innbrot í hús í Garðabæ þar sem eiturlyfjaneytendur höfðu sest að á heimilinu meðan fjölskyldan var í útlöndum, stolið verðmætum og sýnt skammarlega framkomu gagnvart heimilisfólki. 

Það er ávallt alvörumál þegar ráðist er inná heimili fólks með þessum hætti og erfitt að setja sig í spor þeirra sem fyrir því verða.

Rætt var við gamla samstarfskonu úr lögreglunni, Ragnheiði Davíðsdóttur, nú forvarnarfulltrúa hjá VÍS og sem stundum fyrr, talaði hún kjarnyrta íslensku svo eftir var tekið. 

Það sem vakti athygli mína og gefur mér tilefni til gera athugasemdir við voru eftirfarandi ummæli Ragnheiðar sem, eftir á að hyggja, ég leyfi mér að setja spurningarmerki við:

..."Sumir vilja meina það að innbrot inná heimili þar sem að gramsað er í persónulegum eigum, inni í skápum, farið uppí rúm fólks og matast við borðið þess það jafnist hreinlega á við nauðgun.  Þetta er óskaplegt áfall fyrir fólk..."

Skömmu síðar sagði Ragnheiður í viðtalinu eftir að Gissur fréttamaður hafði rætt um áfallahjálp:

..."Ég var nú reyndar svolið ósátt þegar ég fór að leita að skyndiúrræðu .......því vissulega þarf fólk á áfallahjálpinni að halda strax, á stundinni, rétt eins og þegar það missir náinn ættingja í umferðarslysi."

Ég geri alls ekki lítið úr því hvernig fólki líður þegar brotist hefur verið inná heimilið, sem er griðarstaður fjölskyldunnar og er okkur mikils virði.  Ég hef oft reynt það sjálfur í störfum mínum í lögreglunni að fólk upplifir það mjög sterkt...en persónulega finnst mér samlíkingin við nauðgun, þótt hún sé sett fram með því fororði að ...sumir vilji meina... full gróf.

Ég er ekki viss um að þeir sem reynt hafa, séu sammála því að innbrot og þjófnaður, þótt í alvarlegri kantinum sé, megi á nokkurn hátt kallast sambærilegt við alvarlegt ofbeldisbrot eins og nauðgun.

Þarna skaut Ragnheiður að mínu mati talsvert langt yfir markið og hið sama gildir um umfjöllun hennar um áfallahjálp í þessu samhengi sem er hugtak sem umræða fjölmiðlanna hefur tilhneigingu til að þynna út og gjaldfella.

Þetta breytir hins vega alls ekki þeirri skoðun minni að Ragnheiður stendur sig vel í starfi sínu við að koma nauðsynlegum upplýsingum til okkar almennings um það sem betur má fara og ég vona að hún haldi ótrauð áfram að vekja athygli okkar á því sem betur má fara.

 

ALLAH er kominn á nýjan bíl!

Ég ætla ekki að móðga neinn en ég sá núna í nýliðinni viku fallegan lítinn bíl með einkanúmerinu ALLAH og bætist þetta númer í flota margra missmekklegra einkanúmera sem ég hef séð. Ég veit ekkert hvort bíllinn tilheyrir múhameðstrúarmanni sem með þessu heldur uppi áróðri fyrir spámanninn eða hvort eigandinn hefur á þennan hátt sett merkið saman úr nafni sínu og upphafsstaf föðurnafns - það skiptir ekki máli en gefur mér tilefni til að minnast á einkamerki (einkanúmer heita auðvitað ekki einkanúmer í lögum heldur einkamerki!) og notkun þeirra.

Alþingi samþykkti árið 1996 að rétt væri að heimila notkun einkamerkja á tilteknum ökutækjum og jafnframt að gjaldið fyrir þau (í frumvarpinu sagði kr. 50.000 pr. númer) rynni til umferðaröryggismála.  Gjaldið varð kr. 25 þúsund í meðförum þingsins og er svo enn eftir því sem ég kemst næst nú 11 árum síðar.

Umferðarstofa annast eðli máls samkvæmt að úthluta einkanúmerum og settur er fyrirvari í umsóknareyðublað hjá stofnununinni um það hvaða áletranir mega vera á einkanúmerunum.  Þau mega ekki valda hneykslun eins og þar segir né heldur má áletrunin brjóta í bága við íslenskt málfar og tekið er fram að á endanum sé það eigandi þeirra sem ber ábyrgði á ef þau brjóta í bága við réttindi annarra.

Ég hef allt tíð haft efasemdir um einkanúmerin eins og þau hafa þróast hér.  Ég hef skilning á því að einhver vilji halda í gamla bílnúmerið sitt og finnst það nokkuð smekklegt en ýmsar áletranir eru það ekki að mínu viti og ég hef séð mjög mörg einkanúmer sem brjóta í bága við íslenskar málvenjur eins og ég skil hugtakið.  Einnig eru  þau sum þannig að það er erfitt að sjá með vissu hvað raunverulega stendur á númerinu.  Þannig man ég eftir að hafa séð efnafræðiformúlur og skammstafanir sem úr verður heil setning á ensku þegar að er gáð og svo auðvitað þegar menn raða saman mörgum samskonar stöfum (t.d.WWWWWW eða IIIIII) Erfitt getur verið að sjá í fljótu bragði hversu margir stafirnir eru eða jafnvel hvaða stafi er um að ræða þegar þeir raðast með þessum hætti saman! 

Auðvitað er gjaldtaka fyrir einkamerki umhugsunarefni en ég held að verðið sem hér er greitt 25 þúsund (auk framleiðslugjalds og fastakostnaðar, samtals tæp 30 þús), geti ekki talist mjög hátt.  Í nágrannalöndunum, þar sem einkanúmerin eru á annað borð leyfð, kosta þau margfalda þá fjárhæð eftir því sem ég kemst næst.  Kannski er það ekki heldur æskilegt - þau verða þá að einkamerkjum hinna ríku. 

Grunnspurningin er hins vegar þessi:  Til hvers þurfum við einkanúmer?

Og þá aftur að fyrirsögninni við þessu rafröfli:  Ætli einkanúmerið BUDDAH sé á lausu? Ég man ekki að hafa séð einkanúmerið GUÐ á bíl eða þá JESÚS! Það hlýtur að koma!


Þrekvirki unnin á Kirkjulistahátið

Í gærkvöldi lauk Kirkjulistahátíð með sannkölluðum stórtónleikum.  Oratoria G.F.Händels Ísrael í Egyptalandi, sem ekki hefur fyrr en nú á Kirkjulistahátíð ratað í íslenska tónlistasali, kórónaði annars frábæra dagskrá hátíðarinnar.

Flytjendur voru Kammerkórinn Schola Cantorum, Alþjóðlega barrokksveitinni frá Haag í Hollandi og einsöngvarar úr hópi kórmeðlima, auk kontratenórsins Robin Blaze.  Hörður Áskelsson stjórnaði flutningi.  Þetta verk Händels er magnþrungið og gerir miklar kröfur til flytjenda sem skiluðu sínu af mikilli fegurð og smekkvísi.

Það má segja að hvert stórvirkið hafi rekið annan á hátíðinni, sem nú var haldin í 11. sinn. Það var  ánægjulegt að sjá þann mikla metna sem lagður var í þau atriði sem boðið var uppá og jafnframt að skynja þá fjölbreytni sem var í boði af listum sem tengjast kirkjunni.   

Mér finnst það vera í frásögur færandi að fá í einni og sömu vikunni að hlýða á frábæran flutning á H-moll messu J.S.Bach og  oratoríuna um Ísrael  i Egyptalandi eftir Händel .  Þetta er til marks um þann stíganda og grósku sem hefur verið í íslensku listalífi og sem vonandi sér ekki fyrir endan á!

Ég segi takk fyrir mig og til hamingju Hörður Áskelsson og þið öll hin. 


Hinir yfirgefnu!

Umferðarmál eru mér hugleikin eins og þeir vita sem þekkja mig og þeir sjá sem lesa bloggfærslur mínar.  Umræðuefnið í dag er "hinir yfirgefnu!"

Öll getum við lent í því að eitthvað komi uppá hjá okkur á ferðum okkar, bíllinn bili og við þurfum jafnvel að nema staðar einhvers staðar þar sem ekki er hentugt eða hættulaust að stöðva.  Sérstaklega er þetta varhugavert úti á þjóðvegum þar sem hámarkshraði er tiltölulega hár og ekki alltaf í samræmi við aðstæður  í umhverfinu, þ.m.t. umferðarmannvirkin!  Óvíða eru vegaxlir nægilega breiðar og ekki er alltaf hægt að koma biluðu ökutæki út fyrir veg vegna aðstæðna.

Stjórnvöld og löggjafinn hafa brugðist þannig við að skylda okkur ökumenn til að gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að ökutækin valdi ekki hættu við slíkar aðstæður.  Í umferðarlögum er sú skylda lögð á ökumann (30. gr. umfl.) þegar ökutækið stöðvast þar sem síst skyldi "að gera ráðstafanir" eins og það er kallaði í lögunum, flytja það í burt og/eða vara aðra vegfarendur við.  Þetta vita allir ökumenn (hafa í það minnsta lært það fyrir ökupróf!). En hver er framkvæmdin?

Svo kallað hættuljós (Hazard) er skyldubúnaður í bílum og hefur verið svo í mörg ár.  Sömu leiðis er viðvörunarþríhyrningur skyldubúnaður en um notkun hans hafa, svo mér sé kunnugt um, ekki verið settar sérstakar reglur.  Búnaðinn vantar sem sagt ekki en: Hvernig eru þessi tæki nýtt?  Önnur spurning er síðan hvað aðhafast yfirvöld þegar bíll er skilinn eftir á vegaöxl, jafnvel á hættulegum stað, án þess að þessi búnaður sé nýttur? 

Í stuttu máli má segja að svarið við báðum spurningum er að það er mjög misjafnt, trúlega vegna þess að menn hafa ekki markað í þessu ákveðna stefnu eða þá að ekki hefur skapast fyrir þessu sú hefð sem þyrfti að ríkja.   Sumir setja hættuljósið á (aðrir ekki!) en sárafáir hugsa fyrir því að setja viðvörunarþríhyrninginn í hæfilegri fjarlægt fyrir aftan bílinn til að vara aðra ökumenn við (kannski þýðir það ekki því þeir fjúka út í buskann í okkar veðráttu!) 

Ef skoðuð eru laga- og stjórnvaldsfyrirmæli um notkun viðvörunarþríhyrninganna og viðvörunarljósanna þá eru þau ákaflega fáorð og mér er ekki kunnugt um að neinar samræmdar reglur séu til um viðbrögð lögreglunnar þegar bíll er skilinn eftir í vegaröxl heldur er hvert tilvik skoðað sérstaklega!

Hvers vegna er ég að þessu rafröfli um svona sáreinfaldan hlut? 

Jú, þetta er grafalvarlegt mál.  Ég hef vitneskju um alvarleg slys sem urðu vegna þess að ökumenn notuðu ekki þau ráð sem til eru til að vara aðra ökumenn við þegar ökutæki þeirra biluðu, voru skilin eftir í vegaröxl eða voru af öðrum orsökum vegkanti.

Í hvert einasta skipti sem ég fer um helstu þjóðvegi landsins sé ég yfirgefin ökutæki í vegkantinum án þess að sjáanlegt sé að nokkrar tilraunir séu gerðar til að vara aðra ökumenn við hættunni sem framundan er.  Þetta er auðvitað stórhættulegt og hættan vex í réttu hlutfalli við umferðarmagnið, umferðarhraðann og það rökkur og myrkur sem við búum við stóran hluta ársins. 

Ég veit að lögreglan víða um land gerir flest það sem í hennar valdi stendur til að hafa samband við eigendur ökutækjanna.  Hún biður þá að fjarlægja þau eða gerir jafnvel ráðstafanir til að vara aðra ökumenn við eða koma ökutækjunum í burtu - en hér gildir engin samræmd "ríkisstefna", því miður.

Hvað er til ráða? 

Ég legg til að reglur um notkun viðvörunarbúnaðar verði styrktar og skýrðar og að settar verði mjög ákveðnar verklagsreglur, sem gilda á landsvísu, um að ökutæki verði fjarlægð og eigendur þeirra (eða ökumenn) látnir sæta ábyrgð ef öryggisbúnaðurinn er ekki notaður og ökutækin fjarlægð strax og unnt er.  Kæruleysi eins og ríkir í þessum efnum hér á landi og ég hef hér gert að umtalsefni er ávísun á alvarleg slys, eins og dæmin sanna. 

Nýlega var ég í útlöndum og ók talsvert þar um á bílaleigubíl.  Það vakti athygli mína að í hanskahólfinu var gult endurskinsvesti og ég tók eftir því að þar sem ökumenn þurftu að nema staðar, t.d. til að skipta um dekk eða huga að einhverju sem uppá kom, klæddust þeir endurskinsvestum og ávallt settu þeir upp viðvörunarþríhyrning (oftast meira að segja tvo!)  og kveiktu hættuljósin til að vara aðra við.  Þetta fannst mér til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Þetta hlýtur fyrr eða síðar að skila sér til okkar svo "hinir yfirgefnu" verði síður til hættu!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband