Engir ísbirnir hér við Missisippi

Meðan kollegarnir heima á Fróni gættu Bangsa norður á Skaga nutum við lífsins hér í Dubuque.  Við Gunnar gerðum góðan túr í ræktina og þar var tekið rækilega á því, í það minnsta gerði Gunnar það.  Hann henti upp nokkrum tonnum af járni meðan ég fór vægar í sakirnar, enda ekki verið tíður gestur í líkamsræktarsölum s.l. mánuð en það er alltaf kærkomið að taka örlítið á því.  Við fórum í æfingasal KFUM (YMCA), ekki sá flottasti sem ég hef séð um dagana en gerði sitt gagn! CIMG0322

Heimamenn taka okkur vel og spyrja margs. Það vekur athygli mína hversu almennilegir þeir eru.  Allir vilja rabba og spyrja einhvers og efna til spjalls og þetta er ekki svona hefðbundið "háw dú jú dú" spjall eins og mér finnst ég hafa upplifað á öðrum stöðum í þessu landi heldur er verið, að því er virðist, að spyrja spurninga og ræða um daginn og veginn, menn og málefni.  Þeir sem ég hef rabbað við eru allir  áhugasamir um Ísland og vita bara heilmikið um það.  Meðal þess sem fólk vill ræða við okkur eru jarðskjálftar á Íslandi sem margir hafa heyrt um.  Það vakti athygli mína.  Kannski skiptir máli að við erum stödd í háskólabæ?

CIMG0334

Á meðan við drengirnir fegruðum kroppinn með æfingum fóru stúlkurnar á snyrtistofu.  Eftir þá heimsókn eru þær allar með fagurlega skreyttar neglur og snyrtar hendur og Stefanía sagði að af þeim sökum væri henni ómögulegt að svara í símann, það gæti farið með herlegheitin!

Af eintómri skyldurækni heimsóttum við mótorhjólabúð og viti menn, þar fann ég draumahjólið.  Það er af gerðinni Harley Davidson (nema hvað?) Screaming Eagle, hátíðarútgáfa, og kostar litla 35 þúsund dollara. Þegar hefur verði sett upp 3ja ára fjárhagsáætlun um hvernig fjármagna megi kaup á slíkum grip sem er með allan hugsanlegan aukabúnað.  Það er allt í lagi að láta sig dreyma og það vill til að kjarasamningar okkar lögreglumanna eru lausir nú í haust og bara að sjá hvernig gengur að ná fram "réttlátum" launaleiðréttingum sem gefa manni kost á að kaupa sér slíkan sjálfsagðan fararskjóta!

CIMG0332Smellpassar!


Kominn í prestaskólann í Dubuque í Iowa

Við áttum frekar náðugan dag í gær, fórum á fætur á kristilegum tíma og tékkuðum okkur út af Hilton.  Sunnudagsmorgunumferðin var öllu þægilegri en sú sem við máttum glíma við á föstudeginum þegar við komum inn í Chicago og fyrr en varði vorum við komin á beinu brautina að aka í háwestur á leiðinni til Dubuque. Við komum þangað eftir tæplega fjögurra klukkustunda ferð .Wartburg, prestaskólinn í Dubuque

Wartburg í Dubeque

Hér í Dubuque voru þau sómahjónin Gunnar og Þóra, ferðafélagar okkar, við nám fyrir um tveimur árum og það þarf ekkert að orðlengja það að svo vel eru þau kynnt hér að við erum komin á heimavistina í prestaskólanum í Wartburg í Dubueque.  Skólinn er í glæsilegri byggingu sem lítur út fyrir að vera eldri en hún er og ef ég hef tekið rétt eftir þá er hún gerð eftir fyrirmynd í bænum Wartburg í Þýskalandi.  Beint fyrir framan skólann stendur voldug stytta af Luther svo þeir sem hér fara um þurfa ekki að velkjast í vafa um til hvaða kirkjudeildar skólinn heyrir.

Í gærkvöldi þáðum við heimboð hjá vinum þeirra hjóna sem bæði eru prestlærð og vinna í skólanum, hann sem prófessor í trúarbragðafræði en hún við stjórnunarstörf. 

Í dag er kominn mánudagur, sól skín í heiði, fuglasöngurinn vakti okkur og það er erfitt að ímynda sér að hér í nágrenninu sé allt á floti vegna stórfelldra rigninga uppá síðkastið en það er víst raunin. Stórfljótið Missisippi rennur í gegnum bæinn, stórbrotið á að líta, en veldur ekki usla hér en það sama verður ekki sagt um suma aðra staði.

Dagurinn í dag verður dagur nýrra tækifæra.  Okkur Gunna og Ara er orðið mál að komast í ræktina,  kannski maður komist líka í göngutúr um skóginn sem hér umlykur allt. Stúlkurnar ætla að láta dekra við sig á snyrtistofum ef ég hef skilið þær rétt svo þetta verður allt dásamlegt!


Wasington-eyja, Harley Davidson og Chicago

Við ókum eftir nokkuð stífri tímaáætlun frá Minneapolis til Green Bay rétt tæpa 500 km þaðan sem við tókum ferjuna til Wasington Island.  Það er mjög sérkennilegt að vera staddur í USA og stíga um borð í ferju sem ber nafnið Eyrarbakki. Hún flutti okkur út í Wasington Island sem er í Michigan-vatninu.  Það tekur um 40 mínútur að sigla þangað.  

Það var ekki laust við að ferðalöngunum hafi þótt þeir vera komnir á heimaslóðir þegar eitt fyrsta húsið sem fyrir augun ber var „Gunnarsson Kaupstaður“ og fleiri íslensk heiti mátti sjá. 

Við vorum ekki nægilega heppin með veður, það gekk á með þrumum og eldingum og í einu sjónvarpsstöðinni sem aðgengileg var í mótelinu Viking þar sem við gistum voru fluttar stöðugar óveðursfréttir.  

Wasington-eyjan er nokkuð stór um 85 ferkílómetrar að stærð, „viði vaxin milli fjalls og fjöru“ og virtist vera ósköp búsældarleg og falleg.  Við ókum um hana þvera og endilanga en það er skemmst frá því að segja að við rákumst ekki á neinn Íslending en vorum fullvissuð um það á ferjunni að flestir íbúar þar vær engu að síður af íslenskum uppruna.  Íslenski fáninn  heilsaði á einum stað.

 Við tókum daginn snemma á Wasington-eyju og fórum með fyrstu ferju kl. 07 til að vera komin til Chicago um kvöldið.  Á leiðinni stoppuðum við í Harley Davidson verksmiðjunni í  Milwaukee. Ferðalangar með mótorhjólabakteríu geta ekki sleppt slíku tækifæri.

Ekki má gleyma mjög svo árangursríkri heimsókn í verslunarmiðstöð (Outlet) á leiðinni þar sem í boði eru merkjavörur á góðu verði.  Þar komum við Gunnar sjálfum okkur mjög á óvart þegar við gjörkönnuðum herrafataverslun og áttum árangursrík viðskipti við kaupmann sem kunni sannarlega að fata upp íturvaxna herramenn frá Íslandi.  Hann hafði reyndar á orði að Gunnar líktist meira kraftlyftingamanni en sóknarpresti en Ari hafði svarað honum hreinskilnislega um það hvað pabbi hans starfaði.  Honum rataðist satt orð að munni þar blessuðum manninum.  Um mig hafði hann engin slík eftirtektarverð orð önnur en að röndótt færi mér vel enda fjárfesti ég í fallegu setti af „Björgúlfi“ !

Kúrsinn var svo settur á Chicago og eftir nokkuð strembið ferðalag og ótrúlega aksturshæfni Gunnars tékkuðum við inn á Hilton sem er algerlega „down town“ í borginni.  Hótelið er makalaust flott og næturhvíldin var kærkomin. 

Dagurinn var tekinn snemma laugardaginn 14. júní og við notuðum talsverða tíma til að skoða  Field Museum (Night at the Museum ef það skyldi hringja einhverjum bjöllum hjá einhverjum!)

Á eftir skoðuðum við Stefanía okkur örlítið um í miðbænum, fórum í Millenium Park og síðan var ekki til setunnar boðið því við áttum pantað far með krúsernum Odyssee, kvöldverður, flugeldasýning og allur pakkinn.

Skipið sigldi spöl um Michigan-vatnið, snæddur var fyrirmyndarkvöldverður og Chicago skartaði sínu fegursta í ljósaskiptunum.  Skömmu áður en skipið sigldi aftur inn í höfnina sáum við flugeldasýningu af bestu gerð. 

Eftirminnilegur dagur. Á morgun ökum við til Dubuque en þaðan gerum við út næstu daga í ævintýraferðir um Missisippi og nágrenni.


Af þrumum og eldingum og Íslendingabyggðum í USA

Það hefur rignt hundum og köttum hér í Minneapolis ásamt því að gefnar hafa verið út fárviðrisviðvaranir fyrir svæðið.  Því til sannindamerkis var himinninn í gær uppljómaður af eldingum með tilheyrandi þrumum.  Þetta hefur engin áhrif á för okkar hér þar sem veðrið á að vera gengið niður þegar líður á daginn í dag.

Heimsóknir í verslanir gengu ljómandi í gær – Mall of America er eins og Kringlan á sterum og hæfilegur dagsskammtur af slíkum fyrirbrigðum  er í mínu tilfelli ekki svo langur að það hafi áhrif á Visa-reikninga framtíðarinnar.  Við Gunnar gerðum hinsvegar fínan túr í nokkrar mótorhjólabúðir i St.Paul og þar var allt í lagi að láta sig dreyma um hvernig hjól maður ætlar að fá sér þegar mótorhjólaferðin verður farin um þessa heimsálfu þvera og endilanga í fyllingu tímans.

Í dag liggur leiðin að "Vötnunum miklu" um Green Bay og til Wasington Island þar sem við ætlum að dvelja næstu nótt. Þetta eru landnámsslóðir Vesturfaranna og þar heita götur og minnismerki íslenskum nöfnum. Eyjan er ein elsta Íslendingabyggð í vesturheimi. Fyrstu Íslendingarnir sem settust þar að komu árið 1870 en þeir voru fiskimenn og varð Michiganvatn trúlega lífsbjörg þeirra.

Afkomendur  þeirra búa þar enn og bera nöfnin Gislasson, Gudmundsen, Gunnlaugsson, Einerson og Johnson svo nokkur dæmi séu tekin.  Um þessa sögufrægu, hálfíslensku eyju, sem stendur út í Michiganvatni má m.a.  lesa hér.  Eyjan kemur og við sögu í verðlaunasögum Böðvars Guðmundssonar Híbýli vindanna og Lífsins tré (hvenær ætlar einhver að taka sig til og gera bíómynd eftir þeim frábæru sögum). Þá var öldin önnur- lífsbaráttan hörð og dvölin átti lítið skylt við þann nútímamunað sem við krefjumst.

Auk þess að heimsækja sögustaði Íslendingabyggða er ætlunin að leggja leið okkar um indíánabyggðir svo þetta verður vonandi hin allra fróðlegasta dagleið.

Hún er annars alveg makalaus þessi nútímatækni.  Við búum svo vel að vera með GPS-leiðsögutæki í bílnum (reyndar tvö!) og það er alveg makalaust að láta það teyma sig áfram um götur og vegi, nánast hugsunarlaust og láta tæknina sjá um að segja okkur að beygja hér eða þar ! Eiginlega erfitt að skilja hvernig maður bjargaðist við landakortið eitt og sér hér í eina tíð!


...og ferðin hefst

Flugið frá Keflavík til Minniapolis var þægilegra en ferðalangar bjuggust fyrirfram við þar sem við vorum svo heppin að fá far með einni af nýinnréttuðumþotum Icelandair.  Þær eru með þægilegum og m.a.s. rúmgóðum leðursætum þar sem hver farþegi getur valið úr nokkrum kvikmyndum á sjónvarpsskjá sem er á bakinu á næsta sæti fyrir framan.  Þetta stytti manni verulega stundir – sumir náðu m.a.s. að horfa á þrjár myndir á leiðinni! 

Ég ætla ekki að reyna að bera saman þægindi þessarar ferðar og þeirrar sem ég fór í síðustu viku til Helsinki – þá virtust mörg sæti í flugvélinni sem ég fór með vera biluð og ég sat megnið af ferðinni með manninn fyrir framan mig „í fanginu „ því sætið hans var búið að þjóna sinn tíma og þarfnaðist endurnýjunar.

Á bílaleigunni á flugvellinum á áfangastað hófust hörku samningaviðræður – fyrirfram vorum við búin að ganga frá pöntun á „mini-van“ sem efasemdir voru um að væri nægilega stór fyrir okkur öll.  Gunnar nánast dáleiddi stúlkuna á bílaleigunni og eftir nokkrar samningaviðræður gekk hann út með lyklana að gríðarmiklum Suburban-pramma sem gleypti okkur og farangurinn eins og ekkert væri.  Við höfðum spurnir að því að Norðmenn, sem voru aftar í röðinni að sækja sinn bíl hefðu ekki náð nokkrum árangri í því fá afslátt eða kjör eins og við– sjarmörinn Gunnar var búinn að vinna hug og hjarta stúlkunnar svo þeir áttu ekki breik.

Hótelið sem við dveljum á er olræt - liggur rétt við flugvöllinn og virðist vel í sveit sett.

Í dag eru viðamikil verkefni framundan – verslunarmiðstöðin Mall of America verður rannsökuð til hlítar af ferðalöngunum en farið var í stutta forkönnun í gær. Þetta mun vera talið ærið dagsverk þar sem þeir segja, hvort sem það er nú satt eða ekki, að hér sé um stærstu verslunarmiðstöð í USA að ræða. Við Gunnar munum að sjálfsögðu mæta og bera pakka og pinkla fyrir þær Þóru, Stefaníu, Ara og Önnu þegar við erum búnir að fara að rannsaka hvort það sé satt að það fáist mótorhjól og fylgihlutir hér í þessari borg en því hefur verið hvíslað að okkur!


Vosiloma – Ferie - Holiday – Urlaub – Vacances - 休暇 -Sumarfrí.

Framanritað er samheiti yfir það sem hófst, eða átti í það minnst að hefjast, kl. 16:00 í dag. Það urðu smá tafir hjá mér, ókláruð verkefni sem voru leyst fyrir rest og síðustu handtökin í þágu hins opinbera voru innt af hendi þegar klukkan var farin að halla í 10 í kvöld!

Fríið verður verðskuldað að mínu mati og ekki hægt annað en líta björtum augum fram á veginn. Það er þó örlítið ankannalegt að verða á ferðinni í þriðja skipti á jafnmörgum vikum í Leifsstöð á leiðinni til útlanda. Sumarfrí er þó að sjálfsögðu allt annað en vinnuferðir sem hafa verið óvenju tíðar að undanförnu!

Á morgun skal lagt í hann westur um haf. Sett hefur verið upp plan skv. SÁBF-kerfinuog fjölbreytt dagskrá er tilbúin. Pöntuð hafa verið hótel víða um USA undir öruggri stjórn Þóru Þórarinsdóttur, aðalfarastjóra; Gunnar Sigurjónsson er búinn að stinga út helstu mótorhjólabúðir, íhlutabúðir fyrir mótorhjól, mótorhjólasöfn, "Jakaból" o.s.frv. á leiðinni sem farin verður. Sjálf erum við fr. Stefanía búin að afreka eitt flóknasta skipulagsverkefnið ferðarinnar, nefnilega að græja transportið suður í Leifsstöð á morgun!!! Þá höfum við einnig sameinast um að skilgreina húsgæsluna og fylla húsin af fóli, gæludýrið til öryggis komið í pössun til „afa og ömmu“, garðurinn sleginn og snyrtur og svo er bara að bíða eftir því að klukkan verði „síðdegis“ á morgun en þá hefst ferðin til USA.

Ætlunin er að halda hér á þessum stað dagbók fyrir fjölskyldumeðlimi, vini og velunnara til að fylgjast með, þ.e. eftir því sem netsamband leyfir, en mér skilst að þeir þar westra hafi net í hverju horni.

Ferðin hefst semsagt í Minniapolis á morgun og endar í Orlando allnokkru síðar. Hvað gerist þar á milli á eftir að koma í ljós en m.a. þess sem er á dagskrá eru heimsóknir á söfn (þar á meðal Harley Davidson safnið og aðskiljanleg mótorhjólasöfn....), dvöl í rólegu umhverfi í háskólabæ, æfingaferðir í ýmsa þreksali, heimsókn til Memphis, siglingar á fljótum og stórskornum vötnum, krókódílaveiðiferðir (sjáum til með það!), hjólatúrar með 150 hp í klofinu, golf, hundaveðhlaup, meira golf, stefnumót við Anabaptist („Amis-fólkið“), kirkjuskoðun, afslöppun, sólböð, meiri afslöppun og síðast en ekki síst samvera með vinum.

Þetta lofar semsagt góðu sýnist mér Grin


Evrópski lögregluskólinn CEPOL

Árið 2006 skrifaði Lögregluskóli ríkisins undir samstarfssamning við Evrópska lögregluskólann CEPOL (skammstöfun úr frönsku: College Europeen de Police).  Þessi samningur var gerður að frumkvæði Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra.  CEPOL er í raun ekki eiginlegur skóli heldur n.k. regnhlífasamtök lögreglumenntastofnana Evrópusambandsins (ESB). Með stofnun hans var opnuð leið fyrir stjórnvöld ESB ríkjanna til að efla menntun tiltekinna stétta og starfsstiga innan löggæslunnar og koma á framfæri áherslumálum sem sett eru á oddinn á hverjum tíma í löggæslunni. Með því að Íslandi, Noregi og Sviss var boðin aðild að CEPOL með sérstökum samstarfssamningi er þjóðunum  gefinn kostur á því að taka virkan þátt í umræðunni og í því menntastarfi sem fram fer innan CEPOL.  Þannig kemur það ekki að sök þótt samstarfsríkin þrjú séu ekki aðildarríki ESB og það er tvímælalaust allra hagur að hafa þau innanborðs í þessari lögreglusamvinnu sem snýr að menntun og þjálfun.

 Brotamenn spyrja ekki að því hvort ríki sé innan ESB eða utan þegar þeir helga sér svæði og því er nauðsyn fyrir Ísland að hafa tök á fylgjast með á þessu sviði eins og á öðrum sviðum löggæslunnar.

Þótt lögreglan á Íslandi sé agnarsmá samanborið við nánast öll önnur Evrópuríki þá þarf hún að hafa burði til að takast á við nánast sömu vandamál og kollegarnir í „stóru“ ríkjunum . Því var það mikil framsýni að tryggja með áðurnefndum samstarfssamningi að lögreglan á Íslandi fengi aðkomu að CEPOL.

Lögregluskóli ríkisins, þar sem ég starfa, hefur frá því samningurinn var undirritaður, og reyndar einnig fyrir þann tíma, unnið markvisst að því að senda lögreglumenn, gjarnan úr hópi stjórnenda, á námskeið á vegum CEPOL. Þá  skipuleggur skólinn á þessu ári í annað sinn námskeið á vegum CEPOL.  Slíkt námskeið stendur yfir í Finnlandi og Svíþjóð þessa dagana og því verður síðan framhaldið á Íslandi í haust.  Lögregluskólinn tekur virkan þátt í skipulagningunni og kennslu auk þess sem tveir sérfræðingar frá Íslandi sitja það.  Námskeiðið nefnist Future Crime Trends og er sérstaklega ætlað þeim sem starfa við þjálfun og fræðslu lögreglumanna í ESB ríkjunum og  samstarfsríkjunum.  Á námskeiðinu er m.a. fjallað um OCTA-skýrslu Europol  (Organised Crime Threat  Assessment)sem gefin verður út í þriðja sinn síðar í þessum mánuði .  Í skýrslu er þróunin í skipulagðri glæpastarfsemi m.a. kortlögð og í henni fá löggæsluyfirvöld mikilsverðar upplýsingar sem nýtast til baráttunnar við skipulagða glæpastarfsemi.  Finna má útgáfu OCTA-skýrslunnar,ætlaða almenningi, á heimasíðu EUROPOL  og ætti hún að vera öllum áhugamönnum um löggæslu og öruggt samfélag gagnleg lesning.

Þetta námskeið, og fjölmörg önnur sem CEPOL skipuleggur, er hreinn ávinningur fyrir Íslensk lögregluyfirvöld og liður í því að auka þekkingu innan hennar.  Við sem sitjum  námskeiðið og skipuleggjum það fáum það hlutskipti í framtíðinni að koma áhersluatriðum á framfæri í heimalöndum okkar.


Sterkasti prestur í heimi -til hamingju

Íslenska þjóðin hefur um nóg að hugsa um þessar mundir eftir náttúruhamfarirnar á Suðulandi s.l. fimmtudag.  Sem betur fer þá urðu ekki alvarleg slys á fólki en vissulega eiga margir um sárt að binda.   Lífið heldur áfram sinn vana gang, fólk gengur til sinna daglegu starfa, sumir fara á fjöll meðan aðrir fara í golf og svo eru enn aðrir sem taka sér óvenjulegri hluti fyrir hendur.

Í  gær fór fram nokkuð sérstök íþróttakeppni sem ekki hefur farið mikið fyrir í fjölmiðlum enda hafa þeir haft öðrum hnöppum að hneppa við að skýra okkur frá hamförunum fyrir austan fjall.

Íþróttakeppnin var reyndar þannig að þar fóru menn hamförum.  Hún fór fram í íþróttahúsinu í Digranesi þar sem keppt var um titilinn „Sterkasti prestur í heimi“.   Finninn sr. Teijo Mathlin skoraði á sr. Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestinn okkar hér í Digranessókn, sem var handhafi titilsins "The World's most Powerful Pastor" fyrir keppnina. 

Því miður átti ég þess ekki kost að mæta til keppninnar og hvetja minn mann þar sem ég var bundinn við skyldustörf eins og fleiri kollegar mínir um þessar mundir en hugurinn var hjá honum.

Sr.Gunnar gerði sér lítið fyrir og vann keppnina með glæsibrag og nokkrum yfirburðum og bætti sig verulega frá síðustu keppni - hann lyfti 600 kg samanlagt sem telst mjög góður árangur. 

Við sóknarbörnin óskum honum til hamingju og styðjum hann massíft í þessu sem öðru enda er kallinn ekki bara öflugur í lyftingum heldur einnig í því að byggja upp makalaust skemmtilegt safnaðarstarf og brydda uppá nýjungum hér í Digraneskirkju (þið hefðuð bara átt að sjá „mótorhjólamessuna“ um hvítasunnuna.).

Hér er tengill inná heimasíðu sr. Gunnars – þar má m.a. sjá ljósmyndir og myndbönd sem sýna frá keppninni og hvernig á að taka á því!!!  (http://www.kraftaklerkur.blogspot.com/ ) Það er vel þess virði að skoða síðuna hans og velta því svo fyrir sér hvort það ættu ekki allir að „eiga“ svona sóknarprest. 

Til hamingju Gunni - !


Besti útvarpsþátturinn í dag?

Útvarp allra landsmanna á ekki allra best útvarpsþáttinn um þessar mundir að mínu mati.  Að vísu er þátturinn síðdegis á laugardögum, "Orð skulu standa", alveg sérstaklega góður og ég reyni að hlusta á hann (netið kemur að góðu gagni ef maður missir af honum!). 

Að mínu mati er það lítil einkarekin útvarpsstöð, Útvarp Saga, sem á best útvarpsþáttinn nú um þessar mundir.  Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaðurinn góðkunni, hefur um alllangt skeið haldið úti morgunþætti á þessari útvarpsstöð og á hverjum föstudegi fær hann í heimsókn til sín hagfræðinginn Guðmund Ólafsson, háskólakennara.  Þessi menn eru báðir hafsjór af fróðleik og spjall þeirra er yfirleitt mjög skemmtilegt. 

Ef hægt er að tala um hreinræktaða "besservissera" þá má fullyrða að þeir falla í þann flokk og þegar tveir slíkir eru leiddir saman verður útkoman ávallt stórskemmtileg.  Sjaldnast er maður sammála þeim félögum þegar þeir leiða saman hesta sína en þeir stinga oft á mörgum kýlum í íslenskum þjóðmálum, gagnrýna hagstjórnina "hægri vinstri" og viðhalda virkri stjórnarandstöðu.  Þeir hafa skoðanir á öllu sem er til umræðu og það er oft kostulegt að hlusta á þá og nánast er sama hvert málefnið er, þeir kunna á því lausn og liggja alls ekki á henni!

Ég vil endilega hvetja alla þá sem eiga þess kost, að hlýða á þennan þátt.  Þeir félagar eru hið skemmtilegasta kompaní og kærkomin viðbót í fjölmiðlaflóruna. 

Útvarpsstöðin sjálf er hinsvegar að mínu mati of markeruð af leiðinlegum auglýsingum og ennþá leiðinlegri röflandi innhringjandi hlustendum þótt því verði ekki neitað að sumir þeirra kveikja oft skemmtilega umræðu.

Arnþrúður útvarpsstjóri á þakkir skyldar fyrir að hafa haldið þessari útvarpsstöð gangandi nú um nokkurt skeið.  Það er trúlega ekki auðvelt né létt.

 


Eru mannslífin misverðmæt?

Eins og allir vita þá standa yfir miklar framkvæmdir hér í heimabæ mínum, Kópavogi. Hraðinn á framkvæmdum er mikill, bæði á vegum sveitarfélagsins og einkaaðila. Meðal þess sem unnið er að eru gataframkvæmdi við hringtorg og vegarkafla á Dalvegi milli Smáratorgs og Smáralindar.  Frá því hafist var handa við þessar framkvæmdir nú síðsumars hefur það ekki farið á milli mála þeir sem stýra þar verkum setja ekki öryggið á oddinn; hafa t.d. yfirleitt ekki sinnt því sem skyldi að merkja vinnusvæðið né starfsmenn og tæki sem þeir nota.  Kvað svo rammt að þessu í haust að lögreglan stöðvaði verk hjá þeim eins og fram kom í fréttum.

Nú eru menn komnir það langt í framkvæmdum að gatan er að taka á sig mynd - hringtorgið við Digranesveg er reyndar ennþá þríhyrningslaga en það stendur greinilega til bóta því alla helgina hafa legið þar menn á hnjánum við að helluleggja umferðareyjar.  Það eru þessi menn sem ég er að vísa til þegar ég spyr hvort mannslífin séu misverðmæt. 

Þessir ágætu menn, sem ég veit ekkert um annað en að þeir eru hörkuduglegir og miklir verkmenn, vinna á þessum hættulegu slóðum, nánast úti á miðri götu, án þess að séð verði að þeir séu með nokkrar varnir, vinnusvæðið sérstaklega merkt eða afgirt eða þá að þeir séu í endurskinsvestum.  Hið sama var uppá teningnum er unnið var, að því er virtist af sömu aðilum, við frágang hringtorgs rétt suðvestan við þetta en þeirri vinnu er að mestu lokið.  Þar unnu menn á óupplýstri götunni og notuðu birtuna frá aðalljósunum á jeppa sem þeir höfðu til ráðstöfunar. Mennirnir lágu á fjórum fótum á nánast miðjum gatnamótunum án nokkurrar merkingar og aðeins stöku sinnum sá maður menn í endurskinsvesti.

Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál.  Mennirnir eru í lífshættu hverja mínútu sem þeir vinna við þessar aðstæður, krjúpandi á fjórum fótum úti á mikilli umferðaræð með bílana akandi allt í kring.  

Þótt hér séu e.t.v. ekki brotin beinlíns ákvæði umferðarlöggjafarinnar þá er það dagljóst að ýmis ákvæði um vinnuvernd eru hér krossbrotin og enginn virðist aðhafast neitt.

Ég hef oftsinnis tekið eftir samskonar andvaraleysi í þessum efnum. Það sem er sammerkt með þeim tilvikum sem ég hef orðið vitni að er að ævinlega eiga í hlut verktakar, sem vinna fyrir hið opinbera, og sem láta sér ekki annt um vinnuvernd sinna starfsmanna og lýsa því þannig yfir í verki að mannslífin séu hreinlega misverðmæt. 

Hér eru sóknarfæri í öryggismálum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband