Færsluflokkur: Bloggar

Hinir einu sönnu öfuguggar!

Eitthvað höfum við sofnað á verðinum, bæði almennir vegfarendur sem og við í lögreglunni (og kannski líka löggjafinn obbolítið!!!).   Þetta segi ég þvi að það er stundum fast að því eins algengt að ökumenn leggi bílum sínum öfugt miðað við akstursstefnum, sem er bannað, og að menn leggi þeim rétt eins og lög mæla fyrir um. 

Í 2. mgr. 27. grein umferðarlaga (50/1987) er því lýst að leggja eigi ökutæki hægra megin á vegi (miðar við akstursstefnu ökumanns) þó með þeirri undantekningu að heimilt er að leggja vinstra megin ef um einstefnuakstursgötu er að ræða.

Eins og allir, sem velta fyrir sér umferðinni hafa tekið eftir, þá eru það furðu margir sem treysta sér ekki til að fara eftir þessu ákvæði.  Hér í götunni heima hjá mér er það um og yfir 30% bíla sem lagt er "öfugt" að jafnaði.

Maður skyldi ætla að þetta væri auðleyst vandamál - lögreglan, nú eða stöðuverðir þar sem þeir eru, skrifuðu bara gíróseðil á viðkomandi ökutæki sem eigandi yrði að greiða; annars lenti hann í leiðindum og jafnvel yrði tekið veð í bílnum ef hann greiddi ekki sekt.

Því miður er þetta ekki svo einfalt (það var það hins vegar "í gamla daga"!)  Málið snýst um að þetta brot, sem stórum hluta ökumanna finnst vera léttvægt, má ekki afgreiða með gjaldi sem lagt er á ökumann og eða eiganda bílsins eins og gert er með mörg ekki óáþekk brot (stöðubrot skv. 108. gr. umfl.)  Þess í stað þarf lögreglan, vilji hún skipta sér af þessu (sem ég veit að hún vil en kemst ekki yfir), að finna út hver lagði bílnum ólöglega á þennan hátt og rita um það lögregluskýrslu.

Hvað um það - við þessu broti liggur lægsta mögulega sekt (kr. 5.000-en 3.750 kall ef greitt er innan frests sem gefinn er) skv. "sektarreglugerð".  Það er orðið allt annað mál og miklu flóknara að stofna kærumál, rita lögregluskýrslu, rannsaka brotið, afla framburðar sakaðs manns og skrá niður o.s.frv. heldur en að fylla út gíróseðil sem settur er í plastpoka undir þurrkuna á framrúðu bíls hins brotlega.  Greiði eigandi/ökumaður ekki sektina er aflað veðs í bílnum í fyllingu tímans.

Hér er eitt lítið dæmi um það hvernig við höfum sofnað á verðinum í einföldu máli og niðurstaðan er sú að ökumenn skirrast ekki við að leggja nánast þar sem þeim sýnist og án þess að skeyta um hvað er hægri og hvað er vinstri.  Óhlýðni í svona "smámálum" er að margra áliti ávísun á viðlíka óhlýðni í öðrum og stærri málum  og sem grefur undan virðingu manna fyrir landslögum. 

Semsagt - þetta var stutt umfjöllun dagsins um hina einu sönnu öfugugga!!!


Umferðareftirlit - greinilegur munur!

Það hefur verið unnið mikið í skipulagningu löggæslumálefna að undanförnu.  Afurðin er m.a. öflugri og sýnilegri löggæsla, ekki síst á þjóðvegunum.  Þetta hefur verið gert með samstilltu átaki samgönguráðuneytisins og embættis Ríkislögreglustjórans f.h. lögregluembættanna í landinu en þeir sem verkin vinna eiga samt ekki síst þakkir skyldar.

Árangurinn af þessu eftirliti sást greinilega núna síðdegis og í kvöld á Suðurlandsveginum milli Reykjavíkur og Selfoss. 

Við skruppum nokkrir félagar í mótorhjólatúr austur fyrir fjall og ég held að ég hafi sjaldan orðið svo kyrfilega var við lögregluna sem í þetta skipti, þ.e. við eftirlit,  - enda gekk umferðin vel og var afslöppuð.   

Á leiðinni sá ég fyrsta lögreglubílinn skammt frá Rauðavatni.  Þar voru lögreglumennirnir í eftirliti að því er virtist, þótt bíllinn væri á ferð.   Á gatnamótunum við Bláfjallaafleggjarann voru tveir lögreglumenn sem höfðu lagt lögreglubifhjólunum (þessum nýju, flottu!!!) og mældu hraða með laiser-ratsjá.  Þeir virtust bara eiga náðuga daga því menn óku skaplega og í stuttu spjalli við þá kom fram að allt væri bara nokkuð skaplegt.  Hjá Litlu-Kaffistofunni var svo lögreglubíll, einnig kyrrstæður og vel sýnilegur, og í honum var lögreglumaður við umferðareftirlit og hraðamælingar.

Þetta sendi skýr skilaboð til umferðarinnar.  Menn óku að því er virtist flestir á löglegum hraða og allt virtist ganga að óskum.  

En þetta er ekki allt búið! Rétt  austan við Hveragerði var lögreglubíll kyrrstæður á útskoti og í honum tveir lögreglumenn að fylgjast með, sýna sig og sjá aðra. 

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sýnileg umferðarlöggæsla sé gagnleg og gott tæki til að fá ökumenn og aðra vegfarendur til að fara að lögum í hvívetna.  Þetta hef ég rannsakað með Ágústi Mogensen, afbrotafræðingi og rannsóknarstjóra RNU (sjá skýrslu hér).  Niðurstaða okkar var að sýnilegt umferðareftirlit hefur áhrif á hegðun ökumanna en áhrifin eru að vísu mismunandi eftir því hvers eðlis það er.

Mér finnst sérlega ánægjulegt að sjá að lögreglunni skuli nú stýrt á þennan hátt til eftirlits sem virkar vel.  Til hamingju þið sem eigið heiðurinn af þessu.

Það þarf ekki að orðlengja það að umferðin gekk vel - ég varð aldrei var við framúrakstur þá 140 km sem við ókum í þessari kvöldferð okkar og aldrei slíku vant komu engir "öskrandi" raiserar framúr okkur að þessu sinni. 

 


Að afloknu sumarfríi

Allt tekur enda, einnig sumarfrí.  Í fyrsta skipti í mörg ár lét ég skyldustörfin eiga sig meðan ég var í fríi, var ekki með vinnusímann opinn nema síðustu daga sumarfrísins og tölvan var einnig að mestu látin í friði enda var hún í yfirhalningu  hjá hr. Dell á meðan. 

Þetta hefur bæði ljósar og dökkar hliðar.  Það er vissulega gott að slíta sig frá daglegri rútínu og hvíla sig á verkefnunum sem daglega þarf að sinna og víst er það öllum holt.  Hins vegar er það alveg skelfilegt að líta yfir tölvupóstinn sinn eftir svona fjarveru.  Þegar ég var búinn að flokka skeytin, henda og grisja, þá voru nákvæmlega 153 skeyti eftir sem þarf að svara (eða þurfti að svara!)  Sú samviskusemi sem manni var innrætt í æsku segir að rétt sé að hella sér í að svara öllum og það strax, en hálfsystir hennar, skynsemin, segir manni að þetta þoli nú örugglega smá bið - heimurinn farist ekki þótt nokkur tölvuskeyti liggi ósvöruð einhverja daga! Sú varð og niðurstaðan.

Hér kemur að lokum stutt saga um tölvupóst:  Kunningi minn einn fór í lengri gerðina af fríi því hann tók feðraorlof í framhaldi af sumarleyfi svo hann var ekki á skrifstofunni í  hálft ár eða svo. Þetta er maður í stjórnunarstöðu hjá áberandi ríkisfyrirtæki.  Hann sá fram á þetta vandamál sem ég var að lýsa hér að framan og því setti hann svohljóðandi texta í sjálfvirka svarið (out of office reply) á tölvupóstinum: Er í feðraorlofi í hálft ár - þegar ég kem til baka mun ég eyða öllum tölvupóstinum sem mér hefur verið sendur.  Ef erindið er áríðandi þá er þér velkomið að senda mér skeytið aftur þegar ég er kominn til baka!


Góðar fréttir fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins

Þetta eru öldungis alveg frábærar fréttir að lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu skuli nú ætla að skoða þessi mál.  Það er með nokkrum ólíkindablæ hvernig þessi s.k. skemmtanamál hafa þróast hér á landi, sérstaklega í Reykjavík.  Það sem upphaflega átti að vera til að leysa vanda, dreifa álagi og laga ástand hefur því miður þróast á annan veg. 

Frelsi fylgir ábyrgð og það á einnig við um frjálsan opnunartíma vínveitingahúsa. 

Ég gerði það stundum að gamni mínu að skottast niður í miðbæ Reykjavíkur á morgnana um helgar, gjarnan á mótorhjólinu ef vel viðraði.  Ég er steinhættur því maður getur allt eins búist við því að útúrruglað fólk sé enn á ferli og með ólæti á milli mjalta og messu á sunnudagsmorgni.

Hvort flytja á þetta út úr miðborginni eða stytta tímann nema hvorutveggja sé er eitthvað sem þarf að ræða en mest óttast ég nú samt að Gunnar Birgisson sjái hér sóknarfæri og bjóði alla knæpueigendur velkomna hingað í Kópavoginn....


mbl.is Vill að ómenningin í miðborginni verði upprætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagsþjónusta – klókt úrræði eða hvað?

Ég hef ekki náð að liggja yfir fjölmiðlunum undanfarna daga vegna þeirra anna sem fylgja því að vera í sumarfríi en sá þó í Kastljósi í RUV s.l. þriðjudagskvöld áhugaverða umfjöllun um refsiúrræði sem kallast samfélagsþjónusta.  Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns samfélagsþjónustu hjá Fangelsismálastofnun, sem rætt var við í þættinum,  þá stendur þeim, sem fengið hafa 6 mánaða eða styttri óskilorðsbundinn fangelsisdóm, eða þeim, sem að undangengnu árangurslausu fjárnámi, og afplána eiga vararefsingu í stað sektar, til boða að sækja um samfélagsþjónustu í stað þess að afplána í fangelsi.

 

Ég hef ekki velt samfélagsþjónustu mikið fyrir mér síðan umræða varð um hana hér á árum áður er hún varð, að erlendri fyrirmynd, úrræði til afplánunar.  Ég hlýddi fyrir nokkrum árum á sérfræðing fangelsismálastofnunar, Erlend Baldursson, sálfræðing, segja það í fyrirlestri að í stað þess að setja fólk inn í fangelsi þá væri sumum gert kleift að halda áfram að vera þátttakendur í þjóðfélaginu en “frítíminn væri tekinn af því í staðinn”.  Hugmyndafræðin virðist áhugaverð enda lítið unnið með því að loka menn inni í stórum stíl, sjaldnast mannbætandi skilst manni og auk þess kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið.

 

Ég hef heyrt mér fróðari menn gagnrýna það að ákvörðunum dómara um refsingu sé breytt með því að stjórnsýslustofnun, þ.e. hluti af framkvæmdarvaldinu, breyti ákvörðun dómara um viðurlög og setji menn til samfélagsþjónustu í stað þess að láta þá afplána dóm sem þeir hafa hlotið.  Vissulega gilda stífar reglur um samfélagsþjónustu í lögunum um afplánun refsingar nr. 49/2005 en eftir að hafa heyrt umfjöllunina sem ég minntist á hér að framan velti ég fyrir mér hvort “rétt sé gefið” í þessum efnum.

 

Viðmælandi sem Kastljósið ræddi við þurfti að afplána 30 daga vararefsingu vegna sektar sem hann gat ekki greitt útaf ölvunarakstri.  Hann sótti um að fá að inna af hendi samfélagsþjónustu í staðinn.   Fyrirfram hefði ég talið að dómþoli yrði að skila viðlíka tíma í samfélagsþjónustuna og fangelsisrefsingin hljóðaði uppá, þ.e. svipaðri tímalengd, en það er greinilega ekki svo.  Sá sem fær að sinna samfélagsþjónustu í stað þess að sitja í fangelsi “sleppur” með að vinna 40 klukkustundir, ígildi einnar vinnuviku, við þjóðþrifaverk í staðinn fyrir mánuð sem dæmdur er í fangelsi, eins og lýst var í Kastljósinu.

 

Persónulega finnst mér þetta ekki sanngjarnt.  Mér þætti eðlilegt að sá, sem á kost á því að sinna samfélagsþjónustu, láti jafn mikið af tíma sínum í té og sæti hanni í fangelsi – að sjálfsögðu að teknu tilliti til möguleika á reynslulausn.  Mín réttlætiskennd segir mér að þetta sé ekki fullkomlega sanngjarnt kerfi. 

 

Tökum dæmi.  Einstaklingur er dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð kr. 150.000 vegna hættubrots, t.d. ölvunaraksturs eða þ.u.l.  Hann vill ekki greiða sektina eða getur ekki og er eignarlaus og ekki er hægt að gera fjárnám hjá honum.  Viðkomandi virðist samkvæmt þessu geta sótt um samfélagsþjónustu. 

 

Fangelsismálastofnun getur því, skv. ákvæðum í lögum um afplánun refsingar, ákveðið að viðkomandi sinni samfélagsþjónustu í eina vinnuviku (40 klst.)  í stað 30 daganna  (720 klst.) sem hann var dæmdur til að afplána í refsingarskyni!  Þarna hefði ég talið að lögin ættu að vera meira íþyngjandi fyrir þann sem brýtur af sér. 

 

Nú skal tekið fram að ég hef ekki kynnt mér þetta alveg í þaula en skv. mínum skilningi þá er þetta ekki mikil refsing sem viðkomandi hlýtur.  Ég tel fullkomlega koma til greina að sá sem á að afplána, en á kost á þessu úrræði, skili sama tíma til samfélagsins og hann hefði ella þurft að afplána – annað er einfaldlega ekki sanngjarnt.  Svo er það sérstakt umhugsunarefni að það skuli ekki vera dómstólar sem dæma til samfélagsþjónustu,  heldur stofnun úti í bæ, með fullri virðinu fyrir henni. 

 

Ef það vantar verkefni fyrir samfélagsþjónana þá eru víða sóknarfæri – er ekki heilbrigðiskerfið alveg að kikna undan álagi?  Kannski gætu einhverjir samfélagsþjónar lagst á árarnar þar með líkum hætti og ég veit að reynt hefur verið í Danmörku nýlega með góðum árangri og t.d. haft ofan af fyrir gamla fólkinu sem víða er einmanna og afskipt.


Umferðarteppur, bílafjöld og slysagangan

Eftir umferðasultuna (e. Traffic jam) um síðustu helgi hafa hefðbundnar umræður risið um tvöföldun hér og göng þar til að við, íbúar höfuðborgarsvæðisins, komumst greiðar heim til okkar eftir sveitasæluna.  Þessi umræða er skiljanleg en aðeins í ljósi þess að fólk er byrja að átta sig á því í hvers konar samfélagi við búum hér. 

 

Bílaeign hefur aukist umtalsvert á síðustu árum og aukinni bifreiðaeign fylgja aukin ferðalög og óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirra er álag á vegakerfið, þar með talið hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þetta er auðvitað eitthvað sem allir vita og eins og stundum fyrr þá erum við 10-20 árum á eftir öðrum Evrópuþjóðum en margar þeirra hafa um langt árabil upplifað teppurnar sem við fórum að sjá hér á landi fyrir fáum árum.

 

Ég er ekki talsmaður þess að opna allar gáttir og tvöfalda, bora fjöll og byggja brýr einungis til að menn komist hraðar yfir og þurfi skemur að bíða, hvort heldur er í þéttbýli eða dreifbýli.  Ef slík aðgerð er til að auka umferðaröryggið er hún réttlætanleg en ekki eingöngu til að koma í veg fyrir að þeir sem nú seiglast áfram milli staða komist fljótar á milli.  Þar á að beita öðrum ráðum að mínu mati.

 

Ég get svosem trútt um talað – á heimili mínu eru allt of margir bílar miðað við höfðatölu.   Við hjónin eigum sitthvorn (að sjálfsögðu) og að auki er ég með eitt bifhjól sem er bæði til skemmtunar og sem gegnir hlutverki samgöngutækis. Svo er dóttir mín nýlega orðin bíleigandi.  Hún á kærasta sem er oft hér og hann er bíleigandi þannig að ekki er óalgengt að héðan leggi af stað 3-4 bílar út í umferðina á hverjum morgni því svo makalaust sem það kann að virðast þá eru allir að fara í sitt hvora áttina og einnig á sitt hvorum tímanum.

 

Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að minnka bílanotkun heimilisins og fer mikið um á reiðhjóli, hef reyndar gert það í mörg ár.  Ég hjóla gjarnan til vinnu en þangað eru rétt tæpir 7 km.  Ég held oft meðalhraða á milli 15 og 18 km á klst.  Það þýðir að ég er aldrei lengur en 25 mínútur milli heimilis og vinnustaðar (metið er rétt um 20 mínútur). Á bíl er ég yfirleitt um 12 mínútur en það fer þó eftir umferð.

 

Mér telst til að ég hafi hjólað 38 sinnum í vinnuna það sem af er árinu, mest núna er fór að vora og eftir að sumarið kom en nokkuð reglulega þó yfir veturinn (ég er svo sérvitur að ég merki í dagbókina þegar ég hjóla á reiðhjólinu, þess vegna er þessi tala nokkuð á hreinu). 

 

Með því að slá upplýsingar um þessa ferðatilhögun inn í reiknivél hjá Orkusetrinu (orkusetur.is), gefa þar upp hverrar gerðar bíllinn minn er og síðan upplýsa um líkamsþyngd, hjólaða kílómetra o.s.frv. fæ ég upplýsingar um hversu mikið eldsneyti ég hef sparað, hversu mikið af CO2 ég hefði dælt út á bílnum og einnig hversu mörgum hitaeiningum ég hef brennt sjálfur.  Þetta eru áhugaverðar tölur sem gaman væri að leggja útaf en það verður að bíða betri tíma en þó upplýsi ég hér og nú að með því að hjóla í vinnuna hef ég það sem af er þessu ári, sparað rétt tæpa 60 l af bensíni, sleppt því að dæla 141 kg af CO2  út í andrúmsloftið og það sem allra best er, í það minnsta fyrir mig persónulega, notað í þetta 24 þúsund hitaeiningar.

  

Að sjálfsögðu fór ég í “slysagönguna” í gær með nokkur þúsund öðrum.  Við héldum hópinn starfsmenn og sérfræðingar Rannsóknarnefndar umferðarslysa, klædd gulum áberandi úlpum, merktum nefndinni.  Gangan og skipulag hennar var gott framtak hjá þeim stöllum á Landspítalanum og þótt sagt væri er við komum á áfangastað að þetta yrði árvisst vona ég að til þess þurfi ekki að koma.

  

Hrósið fær....

...lögreglan á Íslandi fyrir góða frammistöðu núna þessa nýliðnu umferðarhelgi. Margir kvarta yfir því að lögreglan sé ekki nægilega sýnileg og veiti því ekki það aðhald sem menn bersýnilega þurfa. Landið er víðfemt og vegalengdir miklar en lögreglan vissulega fáliðuð. Því er það vandasamt verkefni að skipuleggja eftirlit og moða á réttan og skilvirkan hátt úr þeim mannauði og tækjum sem til ráðstöfunar er hverju sinni.

Ég var sjálfur á ferðinni á þeim góða stað Snæfellsnesi um helgina og sló niður tjaldinu (sá eini sem var ekki með a.m.k. fellihýsi) á tjaldstæðinu við Arnarstapa. Ég vil hrósa lögreglunni fyrir það að bæði á föstudagskvöldinu og laugardagskvöldinu leit lögreglan við á tjaldstæðinu, lét sjá sig og spjallaði við menn, ók m.a.s. hring um það. Erindið hefur örugglega ekki verið annað en sinna eftirliti en það að lögreglan skyldi líta við og vera sýnileg var til fyrirmyndar. Þetta hefur ekki alltaf verið svona, það get ég fullyrt.

Á leiðinni um þjóðvegina um helgina sá ég nokkrum sinnum til lögreglumanna við eftirlit og mér fannst það til fyrirmyndar.

Semsagt ágætu kollegar á landsbyggðinni: Þið fáið hrósið


Skellinöðrur í umferðinni – óvarðir ökumenn í stórhættu.

Nýlega hafa létt bifhjól, sem í daglegu tali ganga oft undir heitinu skellinöðrur, gengið í endurnýjun lífdaga.  Þær fást nú á tæplega tvöhundruðþúsundkall í Hagkaup og víðar og virðast vera orðnar vinsælar hjá ungmennum á ný.  Fyrir nokkrum árum voru þessi ökutæki orðin nánast fáséð í umferðinni því þegjandi samkomulag virtist vera um það meðal tryggingafélaga og yfirvalda að útrýma þeim, m.a. með svimandi háum tryggingaiðngjöldum.

 

Um þennan ökutækjaflokk segir í 2. gr. umfl. (skilgreiningagreinin):

 Létt bifhjól:
Bifhjól sem búið er brunahreyfli sem ekki er yfir 50 rúmsentimetrar að slagrúmmáli eða búið rafhreyfli og er eigi hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.
 

 

Full ástæðar er til að velta notkun léttra bifhjóla fyrir sér, hæfni ökumannanna sem þeim stýra og viðbrögðum við því hvernig þessir mótorhjólamenn eru varðir í umferðinni.

 

Daglega sé ég til ferða ungmenna á skellinöðrunum, jafnt á umferðargötum með þungri og mikilli umferð sem í húsagötum (og því miður einnig talsvert á göngustígum og annars staðar þar sem þau mega ekki vera!)  Ökumennirnir eru yfirleitt með hjálma, enda skylda, en um annan hlífðarfatnað er sjaldnast að ræða. 

 

Með fjölgun þessara ökutækja má líta það alvarlegum augum að ekki skuli vera búið að virkja heimildarákvæði umferðarlaganna um hlífðarfatnað bifhjólamanna.

 

Í breytingu á umferðarlögum, sem tók gildi þann 27. apríl s.l. segir í 5. gr.:

 Við 72. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
Ráðherra getur sett reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Í þeim reglum skal m.a. kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til slíks búnaðar.
 

 

Rétt er að hvetja samgönguráðherra til að nýta þessa heimild og það fyrr en síðar.  Við sem ökum “hefðbundnum” bifhjólum förum fæst af stað fyrr en við erum búin að klæða okkur í öfluga hlífðargalla, fara í sérstaka skó og þykka hanska og að sjálfsögðu setjum við á okkur hjálm (og sólgleraugun til að fullkomna ímyndina) en á sama tíma horfum við uppá reynslulitla ökumenn á skellinöðrum aka um á gallabuxunum, í strigaskóm og í úlpunni.  Það þarf ekki mikinn spámann til að sjá hvað getur gerst við minnstu mistök.

 

Það gefur auga leið að það þarf að drífa þessa reglur (reglugerð!) um öryggisbúnað bifhjólamanna í gegn til að ná til þessara algerlega óvörðu (oft einnig óreyndu) ökumanna, og það strax.  Það er nefnilega hægt að meiða sig heilmikið við það að detta á hjóli (eða lenda í árekstri á því) sem aðeins kemst á 45 km hraða og miklar líkur eru á að þeir sem klæðast ekki hlífðarfatnaði slasist en hægt væri að koma í veg fyrir það með einfaldri reglugerð sem vilji væri til að framfylgja. 

 

Allir í galla!


Það ættu allir að eiga svona nágranna.

 

Raunir garðeigenda geta verið miklar.  Það þarf að snyrta, klippa, breyta, gróðursetja og fl.

 

Ég tók ákvörðun, að sjálfsögðu með fulltingi heimastjórnarinnar, um að kippa upp slatta af háöldruðum víðitrjám, sem virtust ekki ætla að “bera sitt barr” eftir atgang alls kyns kvikinda sem á þau herjuðu sbr. blogg frá 12. júní s.l.  Ég keypti í stað þeirra falleg lítil tré sem heita einhverju mjög skrýtnu nafni – gljámispill ef ég man rétt.

 

Það er ekki auðvelt að rífa upp með rótum, svo vel sé, 40 ára gömul tré.  Þau eru föst og íhaldssöm á sínum stað og aðgerðin kallaði bæði á afl og útsjónarsemi.  Þótt hvorutveggja sé í ríkum mæli til á mínum bæ þá var svo komið að ég átti fullt í fangi með síðustu hríslurnar sem þurfti að slíta upp. 

 

Upp í hugann voru komin ýmis hjálpartæki sem gott væri að hafa aðgang að til að klára dæmið – draga trén upp með Volvónum, sprengja þau í burtu með dýnamíti, nú eða þá draga þau upp á mótorhjólinu.  En þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst.

 

Ég bý svo vel að nágranni minn og góður vinur er sr. Gunnar sterki í Digranesi.  Hann hefur vafalaust heyrt í mér óhljóðin þegar ég var að draga upp hríslurnar, alla vega kom hann valhoppandi til mín og seildist í trén sem eftir voru í beðinu og lagðist á árarnar með mér. 

 

Það þarf ekki að orðlengja það að trén flugu upp og það með látum svo moldin sáldraðist af greinunum út um allar trissur.  Það þarf engar stórvirkar vélar þegar maður á svona nágranna!  Kærar þakkir sr. Gunnar.

 

Á eftir fengum við okkur í nefið!

  


Við höldum hátíðir!

Hátíðinni Bíladögum er nú lokið á Akureyri.  Hún virðist hafa gengið vel fyrir sig, í það minnsta hafði einn forráðamaður hátíðarinnar, sem ég heyrði í í útvarpinu um helgina, þá skoðun að bærinn hefði ekki efni á að missa af svona tekjulind.

 

Ég hef nokkrum sinnum fengið það hlutskipti að vinna sem lögreglumaður á útihátíðum víða um land, síðast á Akureyri fyrir fáum árum.  Það verður að segja þá sögu eins og hún er – það að tengja suma þessara atburði á einhvern hátt við hugtakið hátíð er misnotkun á íslensku máli.  Að vísu hef ég komið á friðsælar og ánægjulegar útihátíðir en þær eru því miður færri en hinar í mínum reynslubanka.

 

Einhvers staðar hefur eitthvað "klikkað" í íslensku þjóðarsálinni.  Við látum það yfir okkur ganga að stefna fólki, sérstaklega ungu fólki og jafnvel börnum, þúsundum saman á einhvern stað þar sem öll norm og gildi í þjóðfélaginu eru lögð til hliðar.   

Lögreglan býr sig  undir erfiðar vaktir og fjölmiðlamenn bíða spenntir eftir því hvað þeir fá bitastætt að segja frá.  Einn góður kunningi minn sem hefur mikla reynslu af löggæslu á útihátíðum sagði mér að hann hefði m.a.s. sannreynt það að fjölmiðlar fjalla helst um atvik á útihátíðum þar sem eitthvað fer úrskeiðis.

 

Útihátíðir er ekki eitthvað sem fundið var upp á þessu ári eða á síðustu 10 árum.  Þær eru búnar að vera fastur póstur í tilverunni í marga áratugi, t.d. var Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum haldin fyrst 2. ágúst 1874 svo hún er ekki ný af nálinni en vissulega hefur margt breyst.  Með vaxandi agaleysi í þjóðfélaginu hefur að mínu mati mjög sigið á ógæfuhliðina við framkvæmd útihátíða og ýmissa skipulagðra “sukksamkoma” og þótt hátíðirnar sjálfar takist oft ágætlega þá hafa þær á sér skuggahliðar.

 

Mér er sagt að ástandið á sumum hátíðum hafi batnað verulega og hefur þá sérstaklega verið nefnt að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sé mikið breytt frá því sem áður var.  Ég á slæmar minningar sem lögreglumaður er ég vann þar fyrir um  10 árum.  Mér ofbauð framkoma  fólksins hvert við annað, umgengni þess við áfengi og einnig önnur vímuefni, og viðhorf viðstaddra sem þótti það ekkert tiltökumál þótt björgunarsveitamenn væru á þönum með “líkvagninn” að hirða upp fólk sem hafði sofnað ölvunarsvefni í dalnum.  Líkvagninn var haganlega útbúinn því að undir sjúkrabörur hafði verið sett hjól.  Börunum var síðan ekið, eins og hjólbörum,  af nokkrum hjálparsveitarmönnum sem reyrðu þá sem svefnhöfginn sveif á ofan á börurnar.  “Líkunum” var síðan ekið í gám sem stóð í örlitlum halla svo ælan læki frá fólkinu sem og aðrir vessar sem menn misstu frá sér.  Reyndar voru tveir gámar ef ég man rétt og reynt að setja konur í annan og karla í hinn. 

 

Mér finnst uppákomur eins og t.d. var á Akureyri nú um helgina, meira sorglegir atburðir en gleðilegir, í það minnsta það sem heyra má af fréttaflutningi og því sem Akureyringar sumir sögðu sjálfir frá.  Vænsta fólk missir fótanna og allsherjar upplausnarástand ríkir þar sem það þykir ekkert tiltökumál að menn sláist, berji hverjir aðrar og berist nánast á banaspjótum.  Almenningsálitið virðist ekki vinna móti þessu nema ef það skyldi vera að þeir sem eru að hagnast á þessum uppákomum, séu sterkari!

 

Það er örugglega kominn tími á að einhver fræðingur rannsaki þessa hlið íslenskrar menningar og reyni að finna út hvers vegna okkur er svona lagið að safnast saman og verða okkur til skammar.  Veltum því fyrir okkur að margar samkomur sem kallast útihátíðir, eru skipulagðar af félögum eða öðrum fjöldahreyfingum, sem hafa félagsstarf eða mannrækt af einhverju tagi á sinni stefnuskrá.

 

Þessi helgi er aðeins ein af mörgum "útihátíða- og ferðahelgum" og ég heyrði í fréttum að helgin væri sú "fjórða stærsta" þegar kæmi að ferðamennsku á skipulagðar útihátíðir.    Þá er bara að vona að menn sleppi með skrekkinn en kannski eru það ekki raunhæfar væntingar.   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband