Færsluflokkur: Bloggar

Ruddinn er örugglega bara að grínast - Ólafur Helgi, þú ert flottastur!

Það er áhugavert að lesa umræður sem spinnast í kringum það sem menn setja frá sér í bloggheimum og ekki síður það sem bloggarar setja frá sér um fréttir sem birtast á Netinu.  Ein bloggfærsla stendur þó uppúr í dag sýnist mér, eða skyldi maður e.t.v. nota hugtakið að hún standi niðurúr!  Þetta er færsla frá “ruddanum” sem hvetur í dag til “viðskiptaþvingana” vegna þess að lögreglustjórinn á Selfossi er að vinna vinnuna sína vel og af vandvirkni eins og hann gerir ævinlega. 

Í bloggfærslu “ruddans” segir:

SELFOSS Í VIÐSKIPTABANN!!

ÉG LEGG TIL AÐ ALLT BIFHJÓLAFÓLK OG AÐRIR VELUNNARAR SETJI SELFOSS OG NÁGRANNABÆI Í VIÐSKIPTABANN. SJÁUM HVAÐ SÝSLUMANNS-MANNLEYSAN SEGIR ÞEGAR HANS SVEITARFÉLAG VERÐUR AF TEKJUM ALLRA ÞEIRRA SEM EIGA BIFHJÓL.

HÆTTUM AÐ EIGA VIÐSKIPTI VIÐ FYRIRTÆKI MEÐ HÖFUÐSTÖÐVAR OG/EÐA EINHVERJA STARFSEMI Í ÞESSU SVEITARFÉLAGI.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um svona ummæli – þau dæma sig sjálf en sýna um leið við hvern vanda er að glíma.    Þetta lýsir að mínu mati andfélagslegum viðhorfum sem endurspeglast oft í því agaleysi sem margir þurfa að sætta sig við í eigin fari. 

Kannski er ruddinn bara að grínast – eigum við ekki bara að vona það – það er enginn maður svona mikill álfur!

Annars, kærar þakkir fyrir öll viðbrögðin sem ég fékk við blogginu mínu um bifhjól og torfæruhjól og ekki síður notalegar símhringingar eftir viðtal á Rás 2. Það er gaman að sjá og heyra að menn hafa skoðanir!

PS.  Ætla að skjótast snöggvast á hjólinu austur á Selfoss og eyða svolitlu af peningum þar til að vega upp á móti ruddalega viðskiptabanninu!


Smákrakkar á öflugum torfæruhjólum!

 

Ný reglugerð um aksturskeppni en það er fína heitið yfir það sem kallað er rall, mótorkross, ískross og hvað þetta nú heitir allt, hefur tekið gildi.  Reglugerðin, sem er nr. 507/2007 frá 6. júní s.l., er dæmi um slæma útfærslu framkvæmdavaldsins á heimildum sem löggjafinn hefur fært því. 

Þessi málaflokkur, aksturskeppni, hefur alla tíð verið óskilgetið olnbogabarn hér á landi og undir merkjum keppni eða æfinga hafa liðist lögbrot, þar með talin alvarleg náttúruspjöll. Mér er næst að halda að nýr og glæsilegur samgönguráðherra, sem mælt hefur fyrir mörgu framfaramálinu í íslenskri umferð, hafi látið taka sig illilega í bólinu er hann skrifaði undir reglugerðina.  Ég veit ekki hvar hann leitaði ráða eða umsagna en af fréttum á Stöð 2 nú í kvöld er ljóst að hann gerði það ekki í höfuðvígi umferðaröryggismála á Íslandi, Umferðarstofu, né hjá forvarnarfulltrúa Sjóvár og ekki varð ég var við að hann spyrðist fyrir innan lögreglunnar þar sem ég starfa en auðvitað getur það hafa farið framhjá mér.

 

Samfélagið þróast æði oft hraðar en löggjafavaldið og stjórnvöld hafa yfirsýn yfir.  Þetta eru gömul sannindi og ný. Framtakssamir unnendur aksturskeppna hófu fyrir mörgum árum innflutning á torfæruhjólum sem ekki hafa annan tilgang en þann að á þeim má keppa í sérstökum aksturskeppnum sem lýst er í reglugerðinni sem minnst var á (og í forverum hennar!) Þau tilheyra sama ökutækjaflokki og vélsleðar.  Í ljós kom að mikill áhugi var fyrir þessari grein íþrótta og hún hefur á liðnum árum orðið að vinsælli keppnisgrein og torfæruhjólum hefur fjölgað mjög (ath. torfæruhjól eru ekki bifhjól í skilningi umferðarlaga heldur torfærutæki –ökuréttindi B duga).  Verst er að enginn hefur í dag yfirsýn yfir það hversu mörg slík ökutæki eru til í landinu vegna þess hvernig eigendur þeirra hafa komist upp með hegða sér í skráningarmálum en mjög algengt var að hjólin væru afskráð og númer lögð inn en hjólin samt höfð áfram í notkun.

 

Samkvæmt íslenskum lögum og reglum þá verða torfærutæki nánast eingöngu notuð löglega hér á landi við keppni á viðurkenndum æfinga- eða keppnisstað og að fengnum ýmsum leyfum eða þá að þau má, með ýmsum takmörkunum þó, nota við akstur á jöklum og snævi þakinni/freðinni jörð þegar ekki er hætta á skemmdum á náttúrunni.  Frá þessu eru mjög fáar undanþágur.  Að sjálfsögðu eiga torfærutæki að vera skráð (rauð númer)  og þar með tryggð en eins og ég vék að þá eru talsverðir meinbugir á því að eftir því sé farið.

 

Algert ófremdarástand hefur ríkt í þessum málaflokki – ungir sem gamlir hafa þeyst á torfæruhjólum þar sem ekki hefur mátt aka þeim og brotið ýmis ákvæði náttúrverndarlaga og reglugerða með þeim, þeim hafa stýrt einstaklingar sem höfðu ekki heimild til að stýra þeim við þær aðstæður og skráning í ökutækjaskrá hefur ekki alltaf verið raunin.   Mér er kunnugt um að sérfræðingar hjá tryggingafélögum hafa haft af því nokkrar áhyggjur að ökumenn, án ökuréttinda, skuli hafa heimild til að aka torfærutækjum, þótt í sérstakri keppni sé, og gerir það alla vátryggingavernd flókna.

 

Eftirlit með notkun torfærutækja hefur frá upphafi verið í lamasessi og lögregla hefur ekki forgangsraðað því verkefni ofarlega enda oft óhægt um vik.  Skipuleggjendur viðburða þar sem keppt er á hjólunum (eða stundaðar æfingakeppnir) hafa ekki allir haft það samráð við yfirvöld sem krafist hefur verið en um leið hefur verið mikil óeining innan félaga akstursíþróttamanna.  Jafnframt hafa þeir myndað öfluga þrýstihópa og eigendur skráðra jafnt sem óskráðra hjóla hafa farið sínu fram í náttúrunni og valdið þar óbætanlegum spjöllum.

 

Það er mín skoðun að kerfið allt hafi sofnað á verðinum og ekki gætt ða því að setja nægileg skil á milli leiks og keppni annars vegar og notkunar hættulegra tækja hins vegar.

 

Í reglugerðinni um aksturskeppni eru sérstök ákvæði í 21. gr. um undanþágu til keppni eða æfingakeppni fyrir börn sem eru allt niður í 6 ára gömul (ung).  Þau mega aka tiltölulega aflmiklum hjólum sem að sögn komast á allt að 100 km hraða eða þaðan af meira svo vitnað sé í fréttir Stöðvar tvö í kvöld.  Með vísan til þess sem ég hef þegar sagt um skort á eftirliti, kæruleysi og almennt andvaraleysi gagnvart málaflokknum lýsi ég yfir að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig mál hafa þróast og nú eftir breytingar á reglugerðinni er ljóst að hlutirnir munu síst lagast.

 

Góði besti Kristján Möller –það er ekki glóra í því að setja reglugerð sem heimilar 6 ára börnum að stjórna ökutækjum sem komast á 100 km hraða – það sér hver heilvita maður! 


Ökumenn kappaksturshjóla - staldrið við!

Það má kannski ekki segja það en vitið er ekki meira en Guð gaf, í það minnsta ekki hjá tilteknum hópi bifhjólamanna.  Á Lögregluvefnum gefur að líta frétt í dag um ofsaakstur bifhjólamanna á Þingvallavegi.  Bifhjólamennirnir ýmist óku framhjá lokun lögreglu eða snéru við eins og hverjir aðrir “eymingjar” með skottið á milli lappanna eftir að hópur þeirra hafði verið mældur á 174 km hraða.  Eitt er að brjóta lög og einnig öll gildi í samfélaginu með kerfisbundnum hætti eins og bifhjólamenn þessir gera en hitt er að framkvæma það með því viðhorfi sem endurspeglast gjörla í öllu þeirra æði og athöfnum .

 

Aðfararnótt 7. júní árið 2005, þ.e. fyrir nánast réttum tveimur árum, varð dauðaslys þar sem bifhjólamaður, fæddur árið 1979, fórst á nákvæmlega sama stað og lögreglan hugðist hafa afskipti af fyrrgreindum hópi bifhjólamanna.  Er þær hörmungar áttu sér stað var lögreglan ekki á staðnum en örlítil mistök eins bifhjólamanns, ollu því að maður, í blóma lífsins, týndi lífi.  Hann og félagar hans 8 eru taldir hafa verið í hópferð og nánast kappakstri í tímatöku milli Höfuðborgarsvæðisins og Þingvalla. 

 

Ég átti þess kost að ræða við einn bifhjólamanninn sem var í umræddri hópferð þessa örlagaríku sumarnótt fyrir tveimur árum.  Við hittumst á fundi þar sem ég var með erindi um löggæslu, öryggismál og akstur bifhjóla.  Hann sagði mér frá ferðinni er félagi hans dó.  Lýsingar hans á akstrinum og því hvernig slysið atvikaðist hreyfði rækilega við mér þannig að ég sannfærðist endanlega um að það er eitthvað mikið að hjá mönnum sem aka eins og þessi hópur ók.  Viðmælandi minn ók, að sögn, aftastur í hópnum og dróst lengst af afturúr þótt hann hafi ekið á 160 – 180 km hraða.  Taldi hann að þeir sem hraðast óku í þessari feigðarför hafi ekið á yfir 200 km hraða (n.b. á vegi sem varla ber 90 km hraða).

 

Ef einhver tæki sér fyrir hendur að rannsaka þennan hóp bifhjólamanna sem var á ferðinni á Þingvallavegi við Skálafell þann 7. júní árið 2005,  hópinn sem lögreglan segir frá á vefnum og reynt var að stöðva í gær og síðan piltana tvo sem brunuðu á vit örlaga sinna frá Kambabrún uns ferð þeirra lauk með alvarlegu umferðarslysi um nýliðna helgi er alveg á hreinu að í ljós kæmi að aðilar innan þessara þriggja hópa þekkjast.  Þeir hafa allir sömu upplýsingarnar um afleiðingar slíkrar hegðunar.  Einnig  kæmi fram að sumir þeirra hafa þegar fengið alvarlegar aðvaranir um að þeir séu ekki á réttri braut, annað hvort frá réttarvörslukerfinu eða með enn alvarlegri hætti.  Niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi leiða í ljós að á meðal okkar eru menn sem eru ekki í neinum tengslum við aðra í samfélaginu og svo andfélagslega sinnaðir í sínum hroka sem ökumenn kappaksturshjóla að þeir eiga ekki samleið með okkur hinum í umferðinni. 

 

Ég hvet alla ábyrga ökumenn, og sérstaklega bifhjólamenn, til að fordæma akstur af þessu tagi og láta rækilega í sér heyra.  Um leið hvet ég þá hina sömu að vera í góðu samstarfi við lögreglu og aðra sem vinna að umferðaröryggismálum og koma upplýsingum á framfæri sem að gagni kunna að koma í baráttunni við þetta alvarlega þjóðfélagsmein sem ökumenn kappakstursbifhjóla eru


Sprækir maðkar!

Ég er ekki mikill garðyrkjumaður en reyni þó að rækta garðinn við húsið mitt eins og hver annar meðaljón.  Fyrir nokkrum árum las ég bókin "Villigarðurinn, garðyrkjuhandbók letingjans"eftir Þorstein Úlfar Björnsson en einhverra hluta vegna fannst konunni minni passa að gefa mér þessa bók! 

Mér fannst margt skynsamlegt sem þar kom fram.  Meðal þess var að nota eiturefni gegn skorkvikindum hófsamlega, og treysta frekar á að náttúran leysi vandamálin sjálf. Í anda þessa hef ég ekki látið eitra garðinn í mörg ár og látið fugla himinsins, kóngulærnar og hvað þetta nú heitir allt saman, um að halda aftur af blaðétandi lirfum og möðkum sem ráðast með reglulegum hætti á víðinn og birkið.  Núna í hlýindunum að undanförnu hafa maðkarnir komist í mikinn ham og á skömmum tíma nöguðu þeir nánast upp til agna  það litla lauf sem var að springa út á víðinum að norðanverðu í garðinum.  Ég taldi mig gera gott ráð og blandaði boðskapnum í bók Þorsteins Úlfars saman við gamalt húsráð sem ég taldi mig muna um að það kynni að hjálpa að þvo trén sem kvikindin halda til í uppúr sápuvatni nokkrum sinnum.  Þetta gerði ég um helgina, þvoði víðinn rækilega með sápuvatni svo að hann varð skínandi hreinn. 

Um kvöldið gægðist ég undir þau fáu laufblöð sem voru eftir óetin á trjánum til að sjá hvort kvikindin væru ekki öll lömuð og helst dauð eftir þessar aðfarir mínar, í það minnsta ekki etandi sápug trén!  Það var öðru nær.  Ég hef aldrei séð annað eins samansafn af ánægðum, tandurhreinum skorkvikindum og þessum andsvítans möðkum sem gersamlega fóru hamförum á trjánum og kláruðu það litla sem eftir var af laufum á þeim.

Í gær fór ég í Garðheima og keypti eitur! 

 


Andfélagsleg hegðun.

Fréttir af ofsaakstri bifhjólamanna s.l. nótt, þar sem þeir freistuðu þess að forða sér undan réttmætum afskiptum lögreglu ættu að vekja upp hörð viðbrögð í þjóðfélaginu öllu.  Framferði af þessu tagi er algerlega óskiljanlegt og í raun svo langt frá allri skynsemi að þetta þarf í raun ekki að ræða. Okkur hættir mörgum til að líta á framferði sem þetta sem einkamál viðkomandi ökumanna en það er svo langt frá því að svo sé.  

 

Af fréttum að dæma virðist sem mennirnir tveir hafi ætlað að “stinga af”  eins og það er kallað, eftir að hafa verið mældir á ofsaferð á Suðurlandsvegi við Kambabrún.  Það endaði síðan með þeim ósköpum sem kunnugt er og skv. frétt á Stöð 2 í kvöld, berst annar mótorhjólamaðurinn fyrir lífi sínu.

 

Ef þetta væri einsdæmi, þá væri hugsanlega hægt að hrista höfuðið og segja sem svo að það verði ávallt til slíkir ökumenn sem ekki virða neina skynsemi og engin mörk.  Því miður er það ekki svo.  Hjá ákveðnum hópi ökumanna gildir sú meginregla að virða engar reglur.  Þeir fara sínu fram hvað sem raular og tautar og þeir sætta sig ekki við boð og bönn.  Því miður aka margir þeirra um á kraftmiklum bifhjólum og valda öðrum og sjálfum sér stórhættu eins og dæmin sanna.

 

Þann 27. apríl s.l. tóku gildi ný lög (69/2007) sem eru breytingalög við gildandi umferðarlög.  Megininntak laganna er hert viðurlög sem aðferð til að sporna við andfélagslegri hegðan í umferðinni auk þess sem þau fjalla um aukið aðhald að yngri ökumönnum o.fl.  Í nýrri grein umferðarlaganna segir eftir þessa breytingu:

  Á eftir 107. gr. laganna kemur ný grein, 107. gr. a, sem orðast svo:

“Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið....” (undirstrikun EHH). 

Þetta eru ný ákvæði og jafnframt ný hugsun í íslenskum umferðarlögum sett með hliðsjón af danskri fyrirmynd. Þau eru sett sérstaklega til að ná til þeirra sem ekki er hægt að treysta fyrir því að eiga samleið með öðrum vegfarendum í umferðinni og veita þeim aukið aðhald.  Mér vitanlega hefur ekki enn verið látið á þetta ákvæði reyna en nú er lag og ástæða til að hvetja yfirvöld lögreglumála, þar sem forræði þessa máls verður, að máta þessar lagareglur við þessa stóralvarlegu hegðan. 

 

Ég sendi hlutaðeigandi bifhjólamönnum og aðstandendum þeirra hluttekningarkveðjur.

 




Er málfarsráðunauturinn kominn í sumarfrí?

Í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins var skemmtileg frétt um handverkskonuna Ragnheiði Sigurðardóttur frá Kolsstöðum í Hvítárssíðu.  Fréttamaður RÚV þar um slóðir, flutti fréttina.  Hann missté sig illilega á íslenskunni því hann sagði í fréttinni:... að Ragnheiður Sigurðardóttir frá Kolsstöðum í Hvítársíðu kvæntist aldrei!  

 

Ég hélt að mér hefði misheyrst svo ég hlýddi á fréttina aftur á Vefnum, og viti menn, fréttamaðurinn segir þetta, svo ótrúlegt sem það annars er.

 

Okkur getur öllum orðið á og okkur verður öllum á en ég held að það sé ekki ofrausn að fara framá að á sama hátt og dagblöðin eru prófarkarlesin (sum hver í það minnsta) að þá sé einhverjum falið að hlusta á fréttir sem starfsmenn vinna og kanna hvort þær séu réttar m.t.t. íslensks máls áður en þær eru sendar út. 

Ætli málsfarsráðunautur RÚV sé kominn í sumarfrí?


Desja vu held ég að það sé kallað.

 Íslenska þýðingin á þessu hugtaki er skv. orðabókinni “eitthvað sem manni finnst maður hafa upplifað áður”.  Þetta “gerðist fyrir mig um daginn” eins og nútíminn orðar það .  Ég var að koma af fundi í þeirri merku nefnd Rannsóknarnefnd umferðarslysa, þar sem ég starfa sem ráðgjafi. Á leiðinni frá fundarstað óð framúr mér ungur maður á bláum XXXXXX (sennilega ekki rétt að gefa upp tegundarheitið) bíl.  Hann ók hratt , þrykkti sér framúr öllum sem urðu á vegi hans og brenndi síðan loksins á móti rauðu ljósi yfir gatnamót á Bústaðavegi rétt við Kirkjugarða Reykjavíkur í Fossvogi.  Vissulega var staðsetningin vel viðeigandi miðað við hvernig hann ók.  

 

Eins og ég sagði, þá var þetta svona “desja vu” því á fundinum höfðum við verið að fjalla um eiginlega nákvæmalega “svona” ökumann og orsakagreina slys sem leiddi til þess að maður fórst í umferðinni.

 

Það er sorglegt hvernig margir ökumenn hugsa til sjálfra sín, fjölskyldna sinna og samferðamanna.  Þeir virðast ekki hafa neinn skilning á því hvernig getur farið ef þeir, eða aðrir í kringum þá, gera mistök.  

 

Eftir að hafa starfað að umferðaröryggismálum í eina þrjá áratugi sem lögreglumaður, m.a. sem kennari í Lögregluskólanum og ráðgjafi RNU, verð ég æ meira hugsi um það hvert við stefnum.  Þótt meirihluti ökumanna sé meðvitaður um ábyrgð sína og hugi að samferðamönnum sínum þá er því miður alltaf einhver hluti sem hugsar eins og  að hann sé í tölvuleik en þar virðist hugsunin vera þessi: Ef illa fer, þá er alltaf hægt að fara í annað borð! 

 

Því miður þá er það ekki svo! 

 

Skoðið skýrslur á heimasíðu Rannsóknarnefndar umferðarslysa rnu.is og tékkið á því hvort þetta sé bara fleipur!!!

 

Mýrarmaðurinn blívur - hvers eiga blessuð börnin að gjalda

Sýningin hans Gísla í Landnámssetrinu í Borgarnesi kom skemmtilega á óvart.  Þetta var hörku uppistand hjá honum og ég skemmti mér konunglega.  Spurning hvort framhald verður á - næst mætti kannski taka Kópavogsmanninn fyrir og gera örlítið út á Gunna Birgis og Geira Gullfingur!

Það var ætlunin að seðja hungrið eftir sýninguna á Mýrarmanninum og beinast lá auðvitað við að fara í næstu vegasjoppu og fá sér pylsu og kók.  Í fyrsta sinnið á lífsleiðinni hitti ég starfsmann við afgreiðslu í sjoppu, sem þurfti aðstoð frá félaga sínum við að útbúa þjóðarréttinn "pylsu með öllu".

Niðurstaða mín eftir þá heimsókn er að eigendur þjónustufyrirtækja þurfa í alvöru að fara að hugsa sinn gang.  Reka þeir bísniss og vilja þeir fá viðskiptavinina aftur til sín eða reka þeir barnaheimili! Afgreiðslufólkið var að sjá allt á fermingaraldri, og þjónustan í samræmi við það, og maður hafði það á tilfinningunni að fermingarkirtlarnir héngju á bakvið og að þar sæti sr. Þorbjörn með kverið á lofti og fræddi skinnin um biblíusögurnar, á milli þess sem þau afgreiddu viðskiptavinina.


« Fyrri síða

Um bloggið

Eiríkur Hreinn Helgason

Höfundur

Eiríkur Hreinn Helgason
Eiríkur Hreinn Helgason

Yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins, söngvari par exilence, mótorhjólaáhugamaður, heimilisfaðir, kvæntur Stefaníu Valgeirsdóttur.  Börn: Kristinn (fóstursonur), Tinna (einkadóttir) og Andri (molinn).  Engin gæludýr um þessar mundir en stendur kannski til bóta.  Ekki pólitískur, leiðist reyndar pólitík og enn meira pólitískar stöðuveitingar.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • CIMG1098
  • CIMG1109
  • CIMG1056
  • CIMG1043
  • CIMG1034

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband