22.6.2008 | 02:54
Mótorhjólakallinn og ferðalag suður á bóginn
Í dag ókum við suður á bóginn. Upphaf ferðarinnar var meðfram Mississippi og eins og ákveðið hafði verið þá stoppuðum við hjá kunningja Gunnars, galdrakarlinum James Long sem hefur þá bráskemmtilegu atvinnu að gera upp gömul mótorhjól. Þegar ég segi gömul, þá er ekki verið að tala um "gömul" heldur verulega gömul og að sjálfsögðu allt Harley Davidson. Þessa stundina var hann að glíma við tvö hjól frá 6. og 7. áratugnum en á verkstæðinu hjá honum voru allnokkrir seniórar og sá elsti, sem hann á sjálfur, er frá árinu 1911. James er viðkunnalegasti náungi en eins og við er að búast af manni sem hefur lifibrauð sitt af því að gera upp eldgömul hjól (um 5 hjól á ári), sem hlýtur að vera mikil þolinmæðisvinna, þá var hann skemmtilega sérvitur. Þau hjónin Gunnar og Þóra færðu honum Harley Davidson bol frá Íslandi sem James umyrðalaust rétti konunni sinni og sagði að hún gæti verið í henni af því að hún væri með löngum ermum!
Það voru nokkur sérlega áhugaverð hjól á verkstæðinu og fyrir utan hjólið frá 1911 sem er auðvitað sér kapituli út af fyrir sig fyrir hjólaáhugamenn að skoða þá vakti gamall lögguhalli, með hliðarvagni áhuga minn. Sá bíður þess að ganga í endurnýjun lífdaganna hjá James. Ég hef oft hugsað til þess hversu skammsýn við erum heima á Fróni þegar kemur að því að varðveita muni sem hafa sögulegt gildi. Ég held til dæmis að það sé aðeins til einn gamall "Halli" hjá lögreglunni sem sýnir hvernig hlutirnir voru í gamla daga. Það er ekki til einn einasti gamall lögreglubíll til að sýna komandi kynslóðum hvað "Svarta María" var o.s.frv. Það að sjá gamla lögguhallann á viðgerðarverkstæðinu vakti þessar hugsanir hjá mér.
Verkstæðið stendur á bökkum Mississippi og því gátum við virt fyrir okkur vatnsmagnið í ánni sem að sögn er aðeins í rénun. Engu að síður flæðir vatnið langt upp í landið og á ferðum okkar í dag meðfram fljótinu mátti víða sjá hversu mikil flóðin hafa í raun verið, stór landsvæði voru umflotin vatni og eina brú sáum við yfir ána þar sem ekki munaði nema örfáum sentimetrum að áin flæddi yfir.
Við stilltum okkur inná það að vera komin til Springfield, höfuðborgar fylkisins, á skikkanlegum tíma og tékkuðum okkur inn á ágætis hótel eftir að hafa skoðað einn af merkari sögustöðum fylkisins, húsið þar sem Abraham Lincoln, 16. forseti BNA bjó þegar hann bauð sig fram til forseta.
Við gengum um "götuna hans" og Ari, sem er vel að sér um sögu BNA lét sér um munn fara eftirfarandi gullkorn þegar hann sagði: Hann var fyrsti hommaforseti USA. Þetta hafði Ari lært í skólanum þegar hann bjó hér fyrir tveimur árum - þetta voru fréttir fyrir mig - það litla sem ég vissi um Abe var að hann hefði ekki trúað á þrælahald og barist gegn því og að hann hefði verið ráðinn af dögum af þekktum leikara þegar hann var á leiksýningu á My American Cousin. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt og stutt heimsókn i Wikipediu núna áðan staðfestir að Ari fór ekki með fleipur, í það minnsta þá er talsvert fjallað um þessa hlið forsetans sem ég hafði aldrei heyrt um, enda illa lesinn í sögu þessarar heimsálfu.
Gunnar vann enn eitt kraftaverkið í dag þegar hann hlóð Suburbaninn áður en við lögðum af stað frá Wartburg. Það var ekki einn fersentimetri auður í farangursrýminu. Stúlkurnar ákváðu að það kynni að vera skemmtilegra að fljúga stuttan spöl og við það tækifæri var þessi mynd tekin.
Á morgun höldum við áfram suður á bóginn. Við erum komin suður á 40. breiddargráðu og hitinn hér er um og yfir þrjátíu gráður (84f). Nýr dagur á morgun með nýjum tækifærum og ævintýrum. Hef ekki hugmynd um hvar við verðum á morgun en ef einhver þarf að ná í mig þá er bara að senda sendibréf til: Eiríkur Hreinn USA. Það skilar sér örugglega á endanum. Svo má líka prófa að setja inn eitthvað hér á bloggið!!!
Um bloggið
Eiríkur Hreinn Helgason
Tenglar
Eðalskríbentar
http://kiddigeir.bloggar.is/blogg/288073
Kiddi cool
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið hlýtur að vera gaman hjá ykkur,og eins og þú seigir það er synd að gömlu lögguhjólin og bílarnir séu ekki til eða einkvað lítið af þeim allavega.
Rannveig H, 22.6.2008 kl. 21:34
Sæl hr. Höfuðsmaður. Það er greinilega gaman hjá ykkur þarna í Guðseiginlandi. Það er rétt hjá þér að við Íslendingar höfum verið furðulega sinnulaus um varðveislu gamalla hluta. Ég held að menn hafi verið svo uppteknir af þessu eldgamla, torfbæjum og þessháttar að þeir hafi hreinlega ekki áttað sig á að það þurfti að líta sér nær í tíma. Það er td. ekki til ein einasti nýsköpunartogari lengur hvað þá eldri togarar en það.
Bið að heilsa frú Stefaníu og hinum.
Guðmundur Gunnarsson, 22.6.2008 kl. 22:54
Sæll Dundi. Ég skila kveðjunni hér og nú til fr. Stefaníu - hinir fá hana á morgun. Þú átt kollgátuna - hér drýpur smjör af hvurju strái og hamingjan skín út úr hverju andliti sem á vegi okkar verður. Varðandi söfnunarmálin - eigum við ekki bara að stofna "Hið Íslenska lögreglu- , bassa- og togaraminjasafn" - þar væri jafnvel hægt að geyma gamla lögregluþjóna og úr sér gengna kórbassa!
Eiríkur Hreinn Helgason, 23.6.2008 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.