Færsluflokkur: Bloggar
27.6.2008 | 03:27
Memphis, Kóngurinn og blúsinn!
Við urðum ekki fyrir vonbrigðum með heimsóknina í Graceland. Að vísu er þetta sannur ferðamannastaður með öllum þeim ókostum sem því fylgja en það var gaman að fara um herragarðinn hans Elvis og upplifa það hvernig hann bjó, lifði og starfaði. Við vorum mætt kl. 09:00 í biðröð við miðasöluna og keyptum okkur inná safnið sem sett hefur verið í hóp með þjóðargersemum BNA (National Register of Historic Places ).
Mér kom reyndar á óvart hversu "lítið" Graceland er í raun - sagt vera 13,2 ekrur (veit ekki alveg hvað það er í íslensku!) en þetta er á "besta stað" í Memphis, og stendur að sjálfsögðu við Elvis Presley Boulevard.
Skoðunarferðin um húsið og landareignina tók hátt í fjórar klukkustundir og ég leyfi mér að vísa til þess sem ég hef áður sagt á þessum vettvangi að þeir hér í USA kunna þá list að búa til söfn.
Ég hef í gegnum tíðina ekki verið neinn sérstakur "Elvis fan" en auðvitað hef ég raulað lögin hans, reyndar var eitt af þeim "brúðkaupsstandard" sem ég söng örugglega yfir tugum ef ekki hundruðum brúðhjóna á árum áður en ég hef ekki neina sérstaka tenginu við kónginn.
Þetta var að mörgu leyti sérstök stund. Maður fékk söguna alveg "beint í æð" og þar var fátt skilið undan nema ef vera skyldi að allar myndir af kónginum voru af honum "ungum, slim og fit". Hins vegar var ekkert dregið undan þegar kom að því að lýsa því hvernig hann fór með líf sitt.
Brosið fór ekki af frú Stefaníu allan tímann enda er hún forfallinn aðdáandi kóngsins og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá naut hún lífsins í tætlur. Við Gunni stöldruðum mjög við í bílasafninu hans Elvis en hann var að sögn með alvarlega bíladellu og ekki síður fyrir mótorhjólum og það var verulega gaman að heimsækja safnið eins og það leggur sig.
Margt kom mér á óvart þegar lífshlaup kóngsins var rakið, sumt taldi maður sig hafa einhverja vitneskju um en annað var hreinlega ótrúlegt. Það er skoðun þeirra hér að Elvis hafi verið þekktasti (frægasti) einstaklingur sem uppi hefur verið um dagana. Talið er að um 1.5 milljarður manna hafi horft á hann í bíómyndum og tiltekinn tónlistaratburður hans sem sendur var út til fjölda landa hafði meira áhorf en tunglgangan hér um árið sem vakti að heimsathygli. Elvis var flottur alla leið og í Graceland gefur að líta hinsta hvílustað hans og þar logar "eilífur" eldur og allt er blómum skreytt, auk þess sem gestir og gangandi leggja enn blóm og annað tilheyrandi á grafreit hans.
Þetta var skemmtileg heimsókn. Við fórum svo á annan sögustað en gáfum okkur ekki tíma til að skoða hann en það var Lerraine-mótelið þar sem Martein Luther King var myrtur fyrir 40 árum síðan. Þar hafa heimamenn reist honum minnisvarða og safn sem ber heitið The National Civil Rights Museum eins og áður hefur komið fram á þessar síðu. Martein Luther King var skotinn til bana þar á svölunum og það verður að segja þá sögu eins og hún er að fylgismenn hans eru ekkert sérstaklega ánægðir með það hvernig minningu hans er haldið á lofti.
Við stöldruðum ekki við á safninu enda er ráðlagður dagskammtur af söfnum skilgreindur í ferðalögum sem þessum - nefnilega eitt!
Við lögðum því næst leið okkar niður í bæ og gengum um bláar söguslóðir, nefnilega blússins. Okkur hafði verið ráðlagt að heimsækja Beale-street en þar er vagga þessarar tónlistarstefnu hér í borg og trúlega þar með í öllum heiminum. Við litum inn á Ground Zero Blues Club (sem er "systurklúbbur" Ground Zero klúbbsins í Clarksdale, en þann stað á Morgan Freeman, leikarinn frægi) og fengum þar elskulegar móttökur hjá starfsfólkinu sem leyfði okkur að litast um - þeim fannst mikið tilkoma að fá Íslendinga í heimsókn og Gunni gerði þann galdur sem hann kann bestan, nefnilega að "hilla" starfstúlkuna. Það endaði með því að við fengum boð um að fara uppá sviðið og taka í græjurnar. Stefanía lét ekki segja sér það tvisvar og tók í trommurnar svo eftir var tekið. Við hugleiddum að koma þangað aftur þegar kvöldaði, áttum reyndar "heimboð" frá vinkonu Gunna en plönin breyttust.
Við römbuðum síðan inná frábæra "blues" búllu sem reyndar var utanhúss og þar var nú aldeilis handagangur í öskjunni. Þar spilaði Mo Jo Queen Band með fröken Zeeno sem aðalnúmerinu. Hún er að sjálfsögðu blökkumaður og alveg frábær söngkona og fór gersamlega á kostum. Hún hefur gríðarlega sviðsnærveru, gekk um og setti okkur kallana í vanda þegar hún rak fyrirvaralaust hljóðnemann upp í okkur í miðju lagi og strauk okkur Gunna hátt og lágt. Þetta var hörkukvenmaður, ekki undir 150 kg og gaf ekkert eftir hvorki í raddbeitingu, sviðsframkomu eða sexapeal. Stefanía dró mig nauðugan viljugan út af staðnum...
Á morgun er stífur dagur hjá okkur - við keyrum lengra suður og vonandi náum við alla leið suður að New Orleans og heimsækjum Mexicoflóann og tékkum á jazzinum þarna suðurfrá. Ég er jafnvel með plön um að dobbla fólkið í messu eða í það minnsta á tónleika þar sem sungnir eru sálmar sem einu sinni voru kallaðir "negrasálmar" en það verður að ráðast.
Við ætlum að sjá til hversu langt við nennum að keyra á morgun en ef allt gengur eftir þá verðum við komin niður að sjó á morgun eftir að hafa verið inni í miðju landi í meira en hálfan mánuð.
Skilaboð til UHD Tinnu: Þú rúla feitt - hafðu þína hentisemi en þú verður að passa að afi klári sig ekki alveg að djöflast með þér í kjallaranum..... love Pabbi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2008 | 23:09
Memphis Tennesse, heimabær Elvis - trukkar á þjóðvegum o.fl.
Við erum komin í heimabæ Elvis Prestley, Memphis, Tennesse, búin að koma okkur fyrir á hóteli um 10 km frá miðbænum. Við voru svo forsjál að ganga frá herbergispöntun í gær svo við gátum gengið að herbergjunum vísum hér á Best Western. Þetta er í þriðja skipti sem við gistum á Best Western hóteli í ferðinni, þau hafa öll verið alveg ágæt og verðið er hagstætt, 75-90 dalir með skatti (6.200 - 7.500) fyrir herbergið pr. nótt. Svo sem enginn lúxus en allt sem til þarf, hreint og þrifalegt.
Áætlunin gerir ráð fyrir því að vera hér í tvær nætur og skoða í framhaldinu af því hvort við hættum okkur nær flóðasvæðunum neðar í Mississippi eða hvort við sneiðum alveg framhjá þeim. Eins og Þóra orðaði það þá erum við alveg á pari í ferðaáætluninni þótt við höfum orðið að breyta henni vegna náttúruhamfaranna.
Hér í Memphis er margt sem áhugi er á að skoða. Í fyrramálið ætlum við að vera mætt í Graceland og fara í góðan túr um þann sögustað. Síðan er áhugi á að skoða aðra merkisstaði tengda tónlistarmenningu miðrar síðustu aldar og sjálfur hef ég einnig áhuga á að skoða The National Civil Rights Museum sem er hér í Memphis en það var reist þar sem Martein Luther King jr. var ráðinn af dögum fyrir sléttum 40 árum. Það verður þó að ráðast hvort tíminn leyfir að skoða það.
Hér er svækjuhiti, um 35°á celsius og rakt eftir því en við látum það ekki á okkur fá og ætlunin er nú að skjótast í ræktina en við erum búnir að finna eina hér nálægt.
Okkur sýnist að við séum búin að aka um og yfir 3000 km síðan við komum hingað fyrir hálfum mánuði. Það hefur gengið vel enda vanir menn á ferðinni með góð gps tæki sem segja vel til vegar, svona yfirleitt. Þegar út af bregður eru þær Þóra og Stefanía óðar komnar með kortið á loft og leiðrétta kúrsinn ef þarf, en það hefur helst verið í inn- og útakstri við borgirnar sem við höfum verið í sem erfiðleikar hafa skapast við "rötun".
Það er sérstakur kapítuli að ferðast eftir þjóðvegakerfinu hér. Umferðin gengur hratt og örugglega en hún er mikil, stundum svo mikil að manni finnst nóg um og í dag vorum við að ræða það á leiðinni að trukkarnir, sem eru áberandi á vegunum, væru ekki alveg hættulausir.
Margir þeirra eru mikil flikki, örugglega yfir 50 tonn sumir, og þeim er hiklaust ekið á hámarkshraða (70 mílum =112 km/klst) og vel það. Það er ekki laust við að það sé óhuggulegt þegar þeir síga framúr okkur sem reynum að halda okkur við hámarkshraðann og fara ekki yfir hann.
Maður kveikir ekki svo á fréttum eða flettir blöðum að ekki sé minnst á eldsneytisverð og himinhæðir þess og svo mengun og viðbrögð við henni. Bensínið kostar hér tæplega 4 dollara gallonið sem er eitthvað rétt innan við 100 kall lítrinn. Díselið er örlítið dýrara. Verðið á dísel hefur þrefaldast á undanförnum 2 árum að sögn og bensínið meira en tvöfaldast á sama tíma. Þetta hefur gífurleg áhrif hér hjá þessari bílaþjóð.
Obama, öldungadeildarþingmaður og forsetaframbjóðandi var með blaðamannafund sem sýndur var á CNN og þar var hann m.a. spurður út í hvað hann ætlaði að gera í orkumálum, nái hann kjöri. Hann talaði um langtímaáætlanir, notkun etanóls á ökutæki og bio-disel og stefnir á samdrátt í orkunotkun almennt.
Bíllinn sem við ferðumst á er s.k. "flex-fuel" og gengur fyrir etanólblönduðu bensíni. Það á að menga minna. Á bensínstöðvum er í boði eldsneytisblanda með 80-85% bensíni og 20-15% etanóli og við notum það á bílinn. Það virkar ágætlega en oktanatalan á því er lægri en í boði er hjá olíufélögunum heima, 87-89 oktan en einnig er í boði orkumeira eldsneyti en það er þá dýrara.
Allt lofar góðu með dvölina hér, það á víst heldur að hitna fremur en hitt. Nánar síðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.6.2008 | 03:39
Grand Ole Opry o.fl.
Í dag var semsagt dagurinn sem við kynntum okkur alla helstu leyndardóma Nashville. Fórum snemma í morgun og keyptum okkur miða á þriðjudagstónleikana í Grand Ole Opry, heimsóttum ýmsa áhugaverða staði í miðbænum og eignuðumst m.a. nýjan vin, nefnilega hann Davíð Andrésson (David Andersen). Hann er danskættaður heimamaður sem gegnir því merkilega starfi að vera "tónlistarambassador" í Contry Hall of Fame.(sjá davidandersenmusic.com) Við settumst þar inn til að fá okkur svaladrykk og fljótlega gaf hann sig á tal við okkur og vildi vita hvaðan við værum.
Hann lék nokkrar slagara á gítarinn og við rauluðum með en auðvitað var ómögulegt að maðurinn, sem kunni nokkur orð í dönsku og er þar með nánast frændi okkar, kynni ekki neitt íslenskt lag!
Ég kenndi honum því í snarhasti Tondeleyó og eftir það erum við órjúfanlegir fóstbræður!
Dagurinn leið svo í rólegheitum og afslöppun (reyndar þurftu menn að kaupa sér hatta og kántrýskyrtur) uns tími var kominn til að mæta í Grand Ole Opry. Tónleikarnir áttu að byrja kl. 19 og við vorum komin á svæðið kl. rúmlega 18. Áttum sæti á fínum stað í þessu fræga húsi og biðum eftir að tónleikarnir hæfust.
Eins og allir kántrýunnendur vita (og ég vissi ekki!) þá er tónleikum útvarpað beint á þriðjudögum og um helgar á Nashville útvarpsstöðinni sem má m.a. heyra á Netinu. Þetta er semsagt heimsfrægt tónleikahús á sínu sviði og þarna hafa allir helstu kántrýtónlistamenn BNA , komið fram. Húsið er geysistórt, ég giska á að það rúmi um 2000 manns og svo skemmtilega háttar til að það skiptir sennilega ekki neinu máli hvar maður situr í því, alls staðar eru sömu möguleikar að sjá og heyra, þökk sé nútímatækni. Hjónin Þóra og Gunni svo og Anna og Stefanía bjuggu sig upp að hætti heimamanna en við Ari létum okkur nú nægja að vera bara eins og venjulegir Íslendingar til fara. Því verður nú ekki neitað að þau voru býsna flott.
Tónleikarnir báru þess merki að vera útvarpsefni hér í BNA. Á milli atriða voru að sjálfsögðu hefðbundin auglýsingahlé þar sem þulur las upp úr ræðustól á sviðinu en það gerði þetta bara skemmtilegra.
Mér taldist til að alls hefðu komið fram 8 bönd á tónleikunum, hvert öðru glæsilegra. Fyrstir voru aldraðir heiðursmenn sem kunnu eitt og annað fyrir sér en síðan rak hver atburðurinn annan en síðastur var strákur með hljómsveit sína ,Josh Turner, gríðarlega flottur söngvari. Hann var greinilega aðalaðdráttaraflið því ungir sem aldnir þustu uppað sviðinu með myndavélarnar á lofti og hvarvetna heyrðist hrópað; "ó mæ god, ó mæ god"
Þetta voru mínir fyrstu kántrýtónleikar á lífsleiðinni og ég held að þetta verði ekki þeir síðustu sem ég sæki. Það hljóta að teljast forréttindi að fá að fara á fyrstu tónleikana í frægasta kántrýtónleikahúsi veraldarinnar!
Frábær dagur kominn að kvöldi - á morgun ökum við til Memphis að líta eftir Elvis og tékka á heimaslóðum hans. Ætlunin er að vera þar í tvær nætur en við látum þetta bara ráðast.
Eitt gullkorn - Gunni gengur nú undir nafninu Aussy því heimamenn halda að hann sé Ástrali og ráða það bæði af klæðaburði hans en ekki síður frábærum hæfileikum hans í að tala með suðurríkjahreim. Hreimurinn er svo mikið "að sunnan" núna að þeir halda að hann sé upprunninn í Ástralíu!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2008 | 18:31
Honky Tonk folks
Þá er Stefanía að fá alla sína drauma uppfyllta, við erum búin að kaupa miða á Gran Ole Opry á kántrýtónleika sem hefjast kl 19 að staðartíma. Þar eigum við von á að heyra í a.m.k. þremur heimsfrægum böndum sem ég hef aldrei heyrt á minnst enda veit ég ekkert um kántrýtónlist nema að hún er yfirleitt um fólk sem á ægilega bágt af því að það hitti ekki elskuna/elskann sinn....
Hitinn er nokkuð öflugur núna þessa stundina - losar 33 gráður sýnist mér þegar ég er búinn að reikna F°yfir í íslenskar!!! það breytir ekki því að við ætlum að skipta um galla og skella okkur niður á Honky Tonk hverfið og hita upp fyrir kvöldið. Tinna dóttir mín hefur krafist þess að fá eitthvað kántrý-dót við hugsanlega heimferð foreldra sinna og ég mun því skoða sérstaklega í búðir og leita að kabbójum sem hljóta að vera hér á lausu. Andri sonur missti af því að heimsækja Gibson búðina hér í Nasville (ég bauð honum með hingað út en hann hafði ekki lyst á að fara til Ameríku!!!) en hér er mynd af gítarnum sem hann hefði örugglega keypti ef hann hefði verið hér...
Stefanía við Grand Ole Opry
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2008 | 00:15
Ætli Hallbjörn verði þar?
Í gær ókum við sem leið lá til Kentucky og enduðum í litlum bæ sem heitir Owensboro þar sem við tékkuðum inná hótel. Á leiðinni ókum við um grösugar sléttur og mörg þorp og bæi. Eitt vakti óskipta athygli mína en það var Amish-fólkið sem ók um á einu hestafli á vegunum.
Hótelið sem við lentum á er svona la la en eftir að við náðum samkomulagi við fólkið í gestmóttökunni fengum við viðunandi herbergi sem er í uppgerðum hluta hótelsins. Stefanía annaðist samningaumleitanir sem leiddu til þeirrar niðurstöðu. Þessir sömu starfsmenn hótelsins sögðu okkur að í bænum væri ekkert að sjá en eins og sönnum Íslendingum sæmir, þá trúðum við því ekki og lögðum því í landkönnun og fundum þetta líka fína mexikóska veitingahús niður við Ohio-ána. Þar var ljómandi náttverður snæddur og mannlífið skoðað.
Við stoppuðum í smábæ í hádeginu og litum við í verslunum sem seldu "Amish-dót" en keyptum lítið. Sá bær var reyndar eins og "dauðs manns gröf" enda vorum við á messutíma!
Það er reyndar eitt sem ferðalangur frá Íslandi tekur eftir að hér eru ótrúlega margar kirkjur og í morgum var stappað af bílum fyrir utan þær flestar. Þetta styrkir þá staðalímynd sem ég hef af lífinu hér "úti á landi" í BNA- það er mikil kirkjusókn!
Í dag ókum við til Nashville en lögðum lykkju á leið okkar til Mammuth Cave sem eru í Kentucky þjóðgarðinum. Þar breyttumst við úr landkönnuðum og í hellakönnuði! Hellar þessir eru þeir lengstu í víðri veröld, samtals sagðir vera 360 mílur (næstum 700 km) en auðvitað fá ferðamenn ekki aðgang að nema örlitlum hluta þeirra. Við fórum í skoðunarferð um hellana og það var býsna fróðlegt. Þetta eru hellar sem mynduðust í setlögum fyrir milljónum ára og eru myndaðir af neðanjarðarám sem hafa grafið þá út á löngum tíma. Í þeim eru mannvistaleifar frá frumbyggjunum sem bjuggu í þeim en hellarnir voru endurfundnir á 19. öld. Í þeim voru saltpétursnámur sem voru nýttar til að afla hárefnis í byssupúður á árum áður en er það hætti að vera nauðsynlegt hráefni lagðist sú námuvinnsla af.
Í dag er það semsagt Nashville sem er höfuðborg kántrýtónlistarinnar. Við ætlum að sjá hvort þar kemst nokkur í hálfkvist við Hallbjörn okkar Hjaltason á Skagaströnd.
Við erum komin inná hótel skammt frá Grand Ole Opry, tónleikahöllinni frægu, og í kvöld spái ég því að við munum taka púlsinn á kántrýinu! Það kæmi mér ekki á óvart að til mín og samferðarmanna minna sæist með kántrýhatt á hausnum, dansandi línudans!
Af veðrinu er annars það að segja að hér erum við komin í steikjandi hita sem fer vel yfir 30 stig á celsius á daginn. Þeir voru að vara við því að á morgun yrði loftmengun yfir tilteknum mörkum svo það er bar að anda áður en maður fer út af hótelinu og svo aftur þegar maður kemur inn!
Seinna: Að sjálfsögðu fundum við Hallbjörn, eða í það minnsta ígildi hans. Bærinn iðar af tónlist og fjöri og það eru kántrýbönd að spila á ótal veitingahúsum og heilmikið gert úr þessari gerð tónlistar.
Við römbuðum á milli þeirra og nutum þess í botn að vera hér í vöggu kántrýsins. Allir siðmenntaðir menn ganga hér um í "kántrýskyrtum" og með barðastóra hatta. Á myndinni hér til hliðar sjást þau Gunnar og Stefanía máta sér skrautlegar skyrtur.
Áður höfuðum við gengið um helstu götur og torg og m.a. séð þessa bráðskemmtilegu auglýsingu um karóki þar sem Gunni stillti sér upp við. Við lögðum heimilsfangið á minnið ef svo skyldi vilja til að við ættum erindi á þessar slóðir á morgun!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2008 | 02:54
Mótorhjólakallinn og ferðalag suður á bóginn
Í dag ókum við suður á bóginn. Upphaf ferðarinnar var meðfram Mississippi og eins og ákveðið hafði verið þá stoppuðum við hjá kunningja Gunnars, galdrakarlinum James Long sem hefur þá bráskemmtilegu atvinnu að gera upp gömul mótorhjól. Þegar ég segi gömul, þá er ekki verið að tala um "gömul" heldur verulega gömul og að sjálfsögðu allt Harley Davidson. Þessa stundina var hann að glíma við tvö hjól frá 6. og 7. áratugnum en á verkstæðinu hjá honum voru allnokkrir seniórar og sá elsti, sem hann á sjálfur, er frá árinu 1911. James er viðkunnalegasti náungi en eins og við er að búast af manni sem hefur lifibrauð sitt af því að gera upp eldgömul hjól (um 5 hjól á ári), sem hlýtur að vera mikil þolinmæðisvinna, þá var hann skemmtilega sérvitur. Þau hjónin Gunnar og Þóra færðu honum Harley Davidson bol frá Íslandi sem James umyrðalaust rétti konunni sinni og sagði að hún gæti verið í henni af því að hún væri með löngum ermum!
Það voru nokkur sérlega áhugaverð hjól á verkstæðinu og fyrir utan hjólið frá 1911 sem er auðvitað sér kapituli út af fyrir sig fyrir hjólaáhugamenn að skoða þá vakti gamall lögguhalli, með hliðarvagni áhuga minn. Sá bíður þess að ganga í endurnýjun lífdaganna hjá James. Ég hef oft hugsað til þess hversu skammsýn við erum heima á Fróni þegar kemur að því að varðveita muni sem hafa sögulegt gildi. Ég held til dæmis að það sé aðeins til einn gamall "Halli" hjá lögreglunni sem sýnir hvernig hlutirnir voru í gamla daga. Það er ekki til einn einasti gamall lögreglubíll til að sýna komandi kynslóðum hvað "Svarta María" var o.s.frv. Það að sjá gamla lögguhallann á viðgerðarverkstæðinu vakti þessar hugsanir hjá mér.
Verkstæðið stendur á bökkum Mississippi og því gátum við virt fyrir okkur vatnsmagnið í ánni sem að sögn er aðeins í rénun. Engu að síður flæðir vatnið langt upp í landið og á ferðum okkar í dag meðfram fljótinu mátti víða sjá hversu mikil flóðin hafa í raun verið, stór landsvæði voru umflotin vatni og eina brú sáum við yfir ána þar sem ekki munaði nema örfáum sentimetrum að áin flæddi yfir.
Við stilltum okkur inná það að vera komin til Springfield, höfuðborgar fylkisins, á skikkanlegum tíma og tékkuðum okkur inn á ágætis hótel eftir að hafa skoðað einn af merkari sögustöðum fylkisins, húsið þar sem Abraham Lincoln, 16. forseti BNA bjó þegar hann bauð sig fram til forseta.
Við gengum um "götuna hans" og Ari, sem er vel að sér um sögu BNA lét sér um munn fara eftirfarandi gullkorn þegar hann sagði: Hann var fyrsti hommaforseti USA. Þetta hafði Ari lært í skólanum þegar hann bjó hér fyrir tveimur árum - þetta voru fréttir fyrir mig - það litla sem ég vissi um Abe var að hann hefði ekki trúað á þrælahald og barist gegn því og að hann hefði verið ráðinn af dögum af þekktum leikara þegar hann var á leiksýningu á My American Cousin. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt og stutt heimsókn i Wikipediu núna áðan staðfestir að Ari fór ekki með fleipur, í það minnsta þá er talsvert fjallað um þessa hlið forsetans sem ég hafði aldrei heyrt um, enda illa lesinn í sögu þessarar heimsálfu.
Gunnar vann enn eitt kraftaverkið í dag þegar hann hlóð Suburbaninn áður en við lögðum af stað frá Wartburg. Það var ekki einn fersentimetri auður í farangursrýminu. Stúlkurnar ákváðu að það kynni að vera skemmtilegra að fljúga stuttan spöl og við það tækifæri var þessi mynd tekin.
Á morgun höldum við áfram suður á bóginn. Við erum komin suður á 40. breiddargráðu og hitinn hér er um og yfir þrjátíu gráður (84f). Nýr dagur á morgun með nýjum tækifærum og ævintýrum. Hef ekki hugmynd um hvar við verðum á morgun en ef einhver þarf að ná í mig þá er bara að senda sendibréf til: Eiríkur Hreinn USA. Það skilar sér örugglega á endanum. Svo má líka prófa að setja inn eitthvað hér á bloggið!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2008 | 04:53
Við kveðjum Dubuque með söknuði og höldum áleiðis niður með Mississippi
Við áttum notalega stund hjá vinum þeirra Gunnars og Þóru í gærkvöldi. Bill og Nicky, aldarvinir þeirra hjóna, buðu okkur til "sveitaseturs" síns sem er skammt utan við Dubuque. Þar áttum við notalega stund í kvöldsólinni með þeim og vinum þeirra. Einn gestur þeirra hjóna var mótorhjólakall, fyrrverandi slökkviliðsmaður sem mætti á eldrauðum Harley sem hann sagði að hefði verið framleiddur í þessum lit handa slökkviliðsmönnum. Samskonar hjól voru framleidd og seld lögreglumönnum á sama tíma, þau voru blá að lit (Boys in blue!)
Dagurinn í dag var tekinn rólega - að sjálfsögðu fórum við Gunni í ræktina og lyftum nokkrum tonnum og reyndum þannig að breyta öllum þeim ósköpum af mat sem ratað hafa ofan í okkur undanfarna dag, í vöðva. Vonandi tekst það! Konan í YMCA líkamsræktarstöðinni kvaddi okkur innilega og kvaðst sannfærð umað við myndum koma aftur og taka á því hjá henni - hún mundi vel eftir Gunna frá því fyrir tveimur árum!
Það þurfti að skanna nokkrar búðir sem höfðu orðið útundan en sem betur fer þá er fólkið skynsamt og kaupir ekki allt sem það langar í - þótt Suburbaninn sé stór og rúmi mikið þá eru takmörk fyrir öllu, einnig plássinu í honum.
Sólin bakaði hér allt frameftir degi en eins og hendi væri veifað þá þykknaði upp skömmu eftir hádegið og gerði alveg hörku skúr með tilheyrandi þrumum og eldingum. Á augabragði urðu götur og torg sem stöðuvötn yfir að líta. Vatnið streymdi eiginlega niður eins og foss og á endanum hefur það runnið í Missisippi og örugglega ekki verið til bóta hér sunnar þar sem allt er bókstaflega á floti.
Fréttir herma að þar sé alvarlegt ástand, 28 manns hafa látist í flóðunum og uppskerubrestur er yfirvofandi. Hér í Dubuque hefur verið efnt til söfnunar fyrir nauðstadda og opnuð fjöldarhjálpastöð.
Á morgun förum við héðan frá þessum yndislega bæ þar sem heimamenn segja að hjarta Ameríku slái. Ferðaáætlunin er sú að fara á morgun áleiðis til Springfield í Missouri með stoppi hjá kunningja Gunnars sem sérhæfir sig í að breyta mótorhjólum. Hann á talsvert safn gamalla mótorhjóla sem við hlökkum til að skoða. Að öðru leyti ætlum við að láta ferðaáætlunina ráðast af veðrum og forðast flóðasvæðin.
Dvölin hér í prestaskólanu í Wartburg hefur verið sérlega ánægjuleg og mér varð að orði um daginn að þetta væri eins og að vera á heilsuhæli - algerlega stresslaust og elskulegt. Við kveðjum þennan yndislega stað fullviss um að við munum freista þess að líta hér við síðar enda finnst okkur að við höfum myndað vinatengsl við marga á stuttum tíma.
Bloggar | Breytt 22.6.2008 kl. 03:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2008 | 16:20
Verðum við strandarglópar vegna flugumferðarstjóra?
Við sjáum það í fjölmiðlum heima að flugumferðarstjórar hafa einu sinni enn boðað til verkfalla. Þetta gerist af og til að þeir þurfi að hvetja viðsemjendur sína með þessum hætti og draga þá að samningaborðinu. Vonandi að ekki þurfi að koma til aðgerða sem setja strik í ferðalög til og frá landinu - það væri hálfgert hermdarverk á ferðamannaiðnaði og ferðalögum okkar Íslendinga. Þótt ég kunni ágætlega við mig hér í útlandinu er ekki víst að ég nenni að eyða hér hálfu sumrinu að bíða eftir að deilan leysist svo ég vona að stjórarnir fái sem fyrst feitt tilboð frá Fugstoðum / samgönguráðherra sem dragi launin þeirra úr einni millu og í tvær og þá verða allir sáttir.
En nóg um flugumferðarstjórn - við lifum sannkallaða sæludaga núna. Það er dekrað við okkur og við dekrum við okkur sjálf eins og fram hefur komið áður á þessum vettvangi. Búið er að skoða helstu sögustaði, fara í miðbæinn og úthverfin, skanna kaupfélögin og veitingastaði en umfram allt þá lætur fólk sér líða vel.
Dvölin hér í Iowa fer að styttast í annan endann. Búið er að setja upp drög að nýju ferðaplani sem tekur mið af flóðunum í Missisippi en nánar verður greint frá því þegar það er endanlega tilbúið.
Dagurinn í gær endaði með heimsókn á japanska veitingastaðinn Taiko. Þar raða gestir sér í kringum kokkinn sem eldar ofan í þá. Þetta var skemmtileg heimsókn á fínan veitingastað og maturinn stóð alveg undir væntingum. Kokkurinn fór liprum höndum um grillið, hélt m.a.s. smá sýningu á því hvernig hægt er að láta steikarspaðana svífa í loftinu og lenda svo nokkrum snúningum síðan í öruggum höndum hans. Að sjálfsögðu var flamberað með tilþrifum.
Mér þótti eitt atriði reyndar frekar fyndið í þessari heimsókn en það var þegar kokkurinn spurði okkur hvaðan við værum og eftir að við höfðum sagt það þá spurði ég hann hvaðan hann væri því enskan hans var ekki nema svona la la.
Hann svaraði af stakri kurteisi að hann væri frá Kína en mér fannst sem honum þætti það verra að viðurkenna að hann væri frá Kína en ynni á Japönskum stað.
Þetta minnti mig örlítið á frábært atriði í myndinni hennar Guðnýjar Halldórsdóttur "Karlakórinn Hekla" þegar grænlenski vinnumaðurinn frá Íslandi var búinn að opna kínverskan veitingastað í Gautaborg og það gekk ágætlega í Svíana...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2008 | 22:48
Þjónustan þar og hér!
Við skiptum liði í dag ferðafélagarnir, við drengirnir fórum í ræktina en stúlkurnar skoðuðu sig um í verslunarmiðstöð - þetta þóttu okkur vera hin ágætustu skipti!
Eftir að hópurinn náði saman aftur skelltum við okkur í síðbúinn hádegisverð á "Olives Garden" sem er ítalskur veitingastaður og hluti af samnefndri keðju. Undir borðum ræddum við um muninn á því að fara "út að borða" hér í BNA og heima á Íslandi. Heim er það lúxus sem maður veitir sér sjaldan - hér virðist það vera nokkuð algengt ef marka má þá sem við höfum fyrirhitt á veitingastöðum í ferðinni.
Fyrir utan verðið á herlegheitunum, sem er auðvitað sér kapítuli út af fyrir sig og í sjálfu sér illskiljanlegt, þá vorum við sammála um það að við eigum nokkuð í land til að ná þeim hér hvað varðar þjónustu og færni.
Við Stefanía rifjuðum upp að fyrir nokkru fórum við af sérstöku tilefni á flottan veitingastað heima og keyptum okkur rándýra málsverði. Maturinn var ágætur en verðið óhóflegt (um sex-sjöþúsundkall steikin ef ég man rétt) en það var ekki aðalatriðið í umræðunni heldur snérist hún um annað, nefnilega þjónustu.
Umrætt sinn heima vorum við afgreidd af ungu fólki, sem greinilega var ekki menntað í því að vera í því þjónustuhlutverki sem það var í. Það gat engu svarað um réttina sem í boði voru umfram það sem lesa mátti í matseðlinum. Þar fyrir utan virtust þau ekki hafa mikinn áhuga á því sem þau voru að gera. Ég lýsti þessu þjónustufólki sem "syfjulegum skólakrökkum" en það er auðvitað ekki sanngjarnt að alhæfa svoleiðis.
Hér um slóðir er annað uppi á teningnum. Við höfum ekki ennþá fyrirhitt neinn við þjónustustörf sem ekki er fyllilega starfi sínu vaxinn. Það á ekki hvað síst við á veitingahúsum en einnig í verslunum og öðrum stöðum þar sem þjónusta er í boði. Ef einhverjar spurningar vakna þá er greitt úr þeim alveg um leið og starfsfólkið getur veitt upplýsingar um alla skapaða hluti sem snúa að matseðlinum og veitingastaðnum.
Meðan maturinn er snæddur þá er sífellt verið að huga að því hvort matargesti vanhagi um eitthvað, og jafnvel haldið uppi samræðum, ef því er að skipta, við gestina. Ég verð að viðurkenna að þetta fellur mér ágætlega. Ég er meðvitaður um að þjónustufólkið er að leggja inn fyrir væntanlegum 15% í þjórfé en mér finnst það vera ágætlega að því komið miðað viðað það er rækilega hugsað um mann meðan á dvölinni stendur á veitingahúsinu.
Kannski það væri liprari eða aðallega fagmannlegri þjónusta heima ef tryggt væri að launin væru á sama hátt árangurstengd sem hér. Mér hefur í það minnsta þótt alloft verið að rukka fyrir þjónustu heima sem ekki hefur verið í boði.
Við ætlum að njóta kvöldsólarinnar núna og fara svo á japanskan veitingastað í kvöld sem mjög er mælt með við okkur.
Að njóta lífsins, carpe diem, er dagskipunin næstu þrjár vikurnar!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2008 | 04:45
Mississippi flæðir
Í dag skoðuðum við m.a. Missisippi safnið hér í Dubuque. Safnið stendur við árbakkann í miðjum bænum og það var einkar fróðlegt að fræðast um fljótið og lífið við það. Bandaríkjamenn kunna þá list vel að setja upp vönduð söfn. Þau eru greinilega hluti af skólakerfinu hér um leið og þau eru ætluð fyrir almenning. Við skoðuðum m.a. gömul gufuskip og önnur mannanna verk en risastór "fiskabúr" innihalda sýnishorn af dýralífinu í ánni og mátti þar sjá risastóra "catfish", krókódíla, smæstu körtur og allt þar á milli.
Fljótið er lífæð miðríkjanna - hátt í 4000 km langt og á því fara fram miklir flutningar og það gegnir lykilhlutverki í landbúnaðarhéruðum en hefur á sér þær skuggahliðar að vera einnig stór skaðvaldur þar sem það flæðir reglulega.
Í kjölfar mikillar úrkomu undanfarinna vikna eru mikil flóð í fljótinu núna. Það hefur risið einhverja metra hér en ekki valdið skaða þar sem við það eru öflugir flóðvarnargarðar en eftir því sem sunnar dregur eru flóðin orðin alvarlegri og farin að valda verulegum usla. Fréttir berast af því að heilu byggðalögin séu umflotin vatni og mannskaðar hafa orðið suður við St. Louis eftir því sem mátti heyra í fréttum og Larry King sagði áðan á CNN að flóðin væru mestu náttúruhamfarir sem hefðu gengið yfir þar síðan fellibylurinn Katrín olli þar mikilli eyðileggingu fyrir nokkrum árum.
Við höfum tekið ákvörðun um að breyta ferðaáætlun okkar og færa ferðaleiðina, sem átti að vera niður með fljótinu, frá því og á öruggari slóðir. Það skýrist næstu daga en hér í Debuque verðum við fram eftir þessari viku.
Það væsir ekki um okkur hér, hitinn er milli 25 og 30 gráður, sól skín í heiði og á að vera svo fram að helgi og ekkert að því að hafa það huggulegt hér einn eða tvo aukadaga meðan staðan er tekin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Eiríkur Hreinn Helgason
Tenglar
Eðalskríbentar
http://kiddigeir.bloggar.is/blogg/288073
Kiddi cool
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar